ÞÍ. Skjalasafn Iðnskólans í Reykjavík, afhending 2011
Heimild desembermánaðar 2012 er stundatafla frá fyrsta starfsári Iðnskólans í Reykjavík en skólinn var stofnaður af Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur árið 1904. Við vitum ekki hvort þessi stundatafla var hengd upp í Vinaminni við setningu skólans að kvöldi laugardagsins 1. október 1904, en við vitum að það var kennt samkvæmt þessari stundatöflu fyrsta starfsár skólans.
Þegar skólahaldið hófst voru 52 nemendur þegar skráðir en fleiri umsóknir bárust fram eftir vetri. Nemendum, sem allir voru karlkyns, var skipað í þrjár deildir. Í þriðju deild voru níu nemendur, í annarri deild voru 13 og í þá fyrstu var skipað 30 nemendum.
Fyrstu árin var Iðnskólinn kvöldskóli og eins og sést á stundatöflunni var kennt öll kvöld nema sunnudagskvöld frá kl. 8 - 10. Nemendur sem sóttu um skólavist í Iðnskólanum haustið 1904 voru ekki óvanir því að stunda nám í kvöldskóla. Það kemur fram þegar umsóknir fyrstu fimmtíu umsækjendanna um skólavist haustið 1904 eru skoðaðar að helmingur þeirra hafði stundað nám í kvöldskólanum Iðunni eða kvöldskóla í 1-3 ár. Umsækjendur áttu að merkja við hvort þeir vildu dag- eða kvöldskóla og allir nema þrír völdu kvöldskólanám. Af hvaða ástæðu það er verður ekki fullyrt hér, en trúlega hafa fæstir umsækjenda átt kost á því að sækja skóla að degi til.
Þórunn Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir