Fólk

Þjóðskjalasafn geymir afar mikið af gögnum sem tengjast fólki á fyrri tímum. Hvort sem þú ert að rannsaka eigin ættarsögu eða fræðast um sögu byggðarlags eru manntöl og kirkjubækur grunn­heimildir sem vert er að skoða. Aðrar heimildir geta einnig komið að gagni. Umtalsverður hluti þessara gagna er nú aðgengilegur á þessum vef. Hægt er að smella á fyrirsagnirnar hér að neðan til að skoða umfjöllun um einstaka gagnaflokka. Þar eru einnig tilvísanir í frekari upplýsingar. Þá er einnig hægt að fara beina leið að gögnum í valmynd hér til hægri.
Manntalsskjöl
Manntöl hafa verið tekin frá 1703 til 2011, gjarnan með tilteknu árabili. Frumgögn manntalanna hafa verið skönnuð og er hægt að skoða þær heimildir með því að fara í skjalaskrá safnsins, leita þar að einstökum manntölum og skoða myndir af þeim.
Manntalsvefur
Á manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands eru birt manntöl áranna 1703, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1920. Manntalið 1816 var gert af Ættfræðifélaginu og er byggt á upplýsingum úr prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum áranna 1802-1822. Manntalsskýrslur manntalsins 1870 úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum glötuðust í Danmörku fyrir löngu.
Skoða manntalsvefinn.
Vesturfaraskrár
Á ofanverðri 19. öld, einkum á árunum 1870 til 1914, flutti umtalsverður fjöldi Íslendinga til Kanada, Bandaríkjanna og Brasilíu. Vesturfaraskrár eru farþegaskrár, flutningasamningar á milli farþega og agenta, læknisvottorð, leiðbeiningar og fleiri gögn sem tengjast vesturferðum á þessum tíma. Skoða Vesturfaraskrár.
Vegabréf
Vegabréfaskráin er byggð á vegabréfum, reisupössum og passabókum sem finna má í skjalasafni Bæjarfógetans í Reykjavík, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands. Í skránni má finna allar helstu upplýsingar sem koma fram í þessum skjölum.
Skoða vegabréfaskrána.
Prestsþjónustubækur
Í prestsþjónustubækur færðu prestar upplýsingar um prestsverk þau, sem þeir framkvæmdu, ásamt öðrum atriðum, sem presti er boðið að skrá á hverjum tíma. Aðalatriði þeirrar skráningar eru fæðingar og skírnir, ásamt nöfnum foreldra og guðfeðgina, fermingar, hjónavígslur og dauðsföll. Jafnframt er oft getið um hvenær einstaklingar fluttu í sókn og úr sókn og þá hvert þeir fóru. Þetta auðveldar mjög að rekja æviferil fólks. Prestsþjónustubækur eru einnig góðar heimildir um heilsufar manna. Einfaldasta leiðin til að skoða bækurnar eru að fara inn á vefsjá kirkjubóka, velja prestakall og fá þá upp lista yfir allar bækur sem varðveist hafa úr hverju prestakalli.
Sóknarmannatöl
Sóknarmannatöl, sem einnig nefnast sálnaregistur eða húsvitjanabækur, eru skrár yfir íbúa í kirkjusókn. Eitt af embættisverkum presta var að ferðast árlega um þá sókn eða sóknir sem þeir þjónuðu, taka manntal, fylgjast með fræðslu barna og uppeldi, hegðun sóknarmanna og guðsorðabókaeign þeirra. Þessar upplýsingar færðu prestarnir í sérstakar bækur, sóknarmannatöl. Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt um 1460 sóknarmannatöl, það elsta frá árinu 1744. Sóknarmannatöl eru góð heimild um íslenskt mannlíf á um tveggja alda tímabili og ómissandi hverjum ættfræðingi eða ævisöguritara. Þau eru auðvitað ekki óbrigðul frekar en aðrar heimildir, t.d. er aldursskráning ekki nákvæm og verður að taka með fyrirvara. Einfaldasta leiðin til að skoða bækurnar eru að fara inn á vefsjá kirkjubóka, velja prestakall og sjá þar myndir af öllum bókum sem hafa varðveist.
Vefsjá kirkjubóka
Kannski er einfaldasta aðferðin til að skoða myndir af síðum prestsþjónustubóka og sóknarmanntala sú að fara í vefsjá kirkjubóka. Þar er hægt að smella á prestakall á Íslandskorti og velja síðan bækur til að skoða.