Heimild mánaðarins

Júlí 2025

Tjaldútilega á Þingvöllum í júlí 1735 - Júlí

Á hverju sumri frá árinu 930 til 1798 kom hópur Íslendinga hvaðanæva af landinu saman á Þingvöllum í júlí til að halda Alþingi. Starfssemi og aðstæður þingsins breyttust að vitaskuld mikið á þessum langa tíma en engu að síður má kannski tala um þessa hefð sem langlífustu útihátíð landsins. Eins og oft vill verða með íslenskar útihátíðir var Alþingi ekki laust undan köldu veðri og vosbúð þátttakenda.

Þetta vandamál varð Jóakim Hinrikssen Lafrentz, amtmanni á Íslandi, að sértöku umræðuefni í skýrslu til stiftamtmanns sem hann skrifaði á dönsku þann 28. nóvember 1736. Tilefni skýrslunnar var að andæfa því að undirmenn hans, sýslumenn og aðrir veraldlegir embættismenn, þyrftu að borga prestinum á Þingvöllum gjald fyrir að reisa búðartóftir til að tjalda yfir á meðan þinginu stæði. Í skýrslunni rekur Jóakim Lafrentz sögu Alþingis frá upphafi með áherslu á að það sé eldra en Þingvallaprestakall og að tóftir eða búðir hafi tíðkast þar frá elstu tíð en síðan dottið úr notkun. En sökum „mikilla óveðra og sterkra stormvinda sem stundum fella tjöldin um koll“ hafi flestir sýslumenn tekið aftur upp þann sið að reisa búðartóftir, nægilega stórar fyrir eitt rúm, eitt borð og einn stól, og tjalda yfir þær með vaðmáli. Þetta verndi ekki bara þá sjálfa og eigur þeirra fyrir veðri og vindum heldur geri þeim kleift að útbúa sér heitan mat. Í kjölfarið hafi drykkjuskapur á þingstað aflagst á tiltölulega stuttum tíma.

Svo virðist sem Skálholtsbiskup hafi lagt undirmanni sínum, prestinum á Þingvöllum, lið í baráttu hans gegn gjaldfrjálsum búðartóftum á Alþingi. Lafrentz amtmaður þverneitaði ásökunum biskups um að búðartóftirnar væru til komnar af löngun sýslumanna til að lifa í vellystingum, þær væru til að veita vernd gegn því „eilífa regni, kulda og sterkum stormhviðum sem ráða ríkjum á landsþinginu“.

Sem lokahnykk sinn gegn ósanngjörnum kröfum og ásökunum kirkjunnar manna sagði amtmaður frá óförum bróðursonar Þingvallaprestsins, sem hann kallaði prófast í Borgarfjarðarsýslu. Líklega er um að ræða séra Vigfús Jónsson sem tók við öllum embættum af öldruðum föður sínum um þetta leyti. Það viti hver maður, skrifaði Jóakim Lafrentz, að sumarið 1735 hafi vindurinn feykt tjaldi hans út í buskann og þó hafi ekki verið jafn veðursælt á Alþingi í manna minnum og þetta sumar. Þrátt fyrir óvenjulega veðurblíðu í júlí 1735 hafi strekkingurinn verið slíkur að biskupinn hafi látið taka niður öll sín tjöld og sjálfur leitað ásjár á heimili Þingvallaprestsins.

Miðað við þessar lýsingar á rigningu og roki á Alþingi á 18. öld má svo sannarlega þakka fyrir að nokkur skjöl hafi yfirhöfuð varðveist frá starfssemi þingsins og þeirra tveggja dómstóla sem þar störfuðu, Lögréttu og Yfirréttar. Einnig dregur heimildin, með lýsingu sinni á tjaldbúð sem rúmaði eitt rúm, einn stól og eitt borð á eyðistað sem var í margra daga fjarlægð frá flestum þátttakendum þingsins, athygli að óvæntum og ef til vill vanræktum þætti í íslenskri efnismenningu fyrri alda; hinum samanbrjótanlega átjándualdar tjaldstól og -borði.