Heimild mánaðarins

Júní 2024

Eitt verst nýtta háskólapróf 18. aldar

Heimild: ÞÍ. Amtmaður yfir landinu öllu 1688–1770. Amtm. B/76. Bréf alþingisskrifara til amtmanns 1717–1770.

„Þann 13da Julii fyrir middag yfirlýsir sýslumaðurinn Guðmundur Sigurðsson í lögréttu að hann hafi hér nú á lögþinginu beðið fjóra daga til að fá rétt í einu máli hingað stefndu, nær tveggja ára gömlu … . Það mál áhræri æru og búslóð eins manns langt yfir áttræðisaldur og þar fyrir utan 2 manna æru og húð. En sýslumaður Guðmundur segist ei hafa séð tækifæri enn nú á þessu lögþingi að fá rétt þar yfir vegna fjarlægðar lögmannsins að norðan og vestan, hvörn hér sé enn þá ekki að finna. Hvar fyrir hann, sýslumaður Guðmundur, einninn í þetta sinn megi frá þessum rétti óforréttaður burtganga.“

Þessa umkvörtun lagði sýslumaðurinn Guðmundur Sigurðsson fram í lögréttu árið 1741 og var hún samviskusamlega færð til bókar af alþingisskrifaranum Jóni Þórðarsyni.

Í skjalasafni amtmanns er hins vegar að finna afrit af forfallatilkynningu Hans Becker lögmanns frá 23. júní sama sumar, þar sem hann segir að hann sé haldinn slíkum veikindum að hann komist oft varla fram úr rúminu, hvað þá heldur í ferðalög langan veg yfir fjöll og ófærur, og komist því ekki til þingsins en veiti Jóni Þórðarsyni fulla heimild til að ganga í störf sín og innheimta lögmannstoll. Sé það ósk sín að herra amtmaðurinn Jóakim Hinriksson Lafrents samþykki þetta umboð og gefi alþingisskrifaranum embættisskipun svo rétturinn verði ekki fyrir hindrun.

Lafrentz amtmaður brást engu að síður ekki við fyrr en við umkvörtun Guðmundar Sigurðssonar, fjórum dögum eftir upphaf þingsins, og þá með því að skipa Orm Daðason, sýslumann í Dalasýslu, staðgengil lögmanns í stað þess að fallast á ósk lögmanns um Jón Þórðarson. Sumarið áður hafði Hans Becker lögmaður einnig forfallast og stungið upp á sýslumönnunum Ormi Daðasyni, Ólafi Árnasyni og Nikulási Magnússyni sem staðgengli sínum og varð Nikulás þá fyrir valinu.

Jón Þórðarson var fæddur um 1711 og var sonur Þórðar Jónssonar, prófasts í Snæfellsnessýslu, og Margrétar Sæmundsdóttur. Jón var til kennslu hjá Jóhanni Þórðarsyni, presti í Laugardælum í Árnessýslu 1724–1728, en hann var eftirsóttur kennari. Jón Þórðarson og Magnús Gíslason, síðar lögmaður og amtmaður, voru bræðrasynir og sá föðursystir þeirra Sigríður Vídalín til þess að þeir komust báðir í Skálholtsskóla eftir andlát foreldra þeirra.

Jón fetaði í fótspor eldri frænda síns og hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla árið 1732. Öfugt við Magnús, sem hætti í námi eftir einn vetur til að taka við embætti alþingisskrifara árið 1729, lauk Jón Þórðarson prófi í lögum 13. apríl 1736 með 1. einkunn. Jón Þórðarson varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að ljúka háskólaprófi í lögfræði. (Í íslenzkum æviskrám er Þorsteinn Magnússon sagður fyrstur Íslendinga til að taka lagapróf en það var 10. maí 1738.)

Í ævisagnasafni Hannesar Þorsteinssonar (1860–1935), Æfum lærðra manna, má lesa að Jón hefur hugsað sér gott til glóðarinnar þegar embætti lögmanns norðan og vestan losnaði sama ár og hann útskrifaðist því hann sigldi því strax aftur til Kaupmannahafnar um haustið til að reyna að ná embættinu, „en vitanlega tókst það ekki“. Frændi hans Magnús Gíslason hafði þá verið lögmaður sunnan og austan frá árinu 1732.

Jón Þórðarson var síðar skipaður í embætti alþingisskrifara 13. febrúar 1738 þegar það losnaði við skyndilegt fráfall Odds Magnússonar, sem hafði gegnt embættinu frá 27. mars 1734. Hann var eini umsækjandinn. Í bréfi til stiftamtmanns 5. ágúst 1738, eftir fyrsta sumar Jóns í embættinu, skrifaði Lafrents að Jón hafi hvorki hönd né róm til að vera landþingisskrifari en hins vegar eigi hann sér voldugan verndara. Er þar væntanlega átt við frænda hans Magnús Gíslason. Ef marka má bréfið virðist Magnúsi þó hafa fundist Jón standa Oddi sáluga langt að baki og hafi ekki fjórðung af hæfileikum hans.

Á móti kemur að Lafrents virðist ekki hafa verið of hrifinn af Oddi Magnússyni til að byrja með. Um dauða og fjarverandi sé hins vegar best að segja ekki neitt illt, en þó leyfist að segja satt um þá. (Sed de mortuis et absentibus nil nisi bonum, licet tamen dicere verum.)

Jón Þórðarson bjó á árunum 1737–1741 hjá systur sinni Katrínu og manni hennar í Hítardal en veturinn 1741 hjá Þorbjörgu systur sinni og manni hennar á Breiðabólstað á Skógarströnd. Sumarið 1741 er hann hins vegar fluttur á Hlíðarenda, heimili Brynjólfs Þórðarsonar Thorlacius, fyrrverandi sýslumanns í Árnessýslu og átti þar heima til dauðadags. Jón var skipaður sýslumaður í Rangárvallasýslu 6. ágúst 1742 en drukknaði undir Eyjafjöllum tæpu ári síðar, þann 19. maí 1743, á heimleið frá réttarhaldi í Vestmannaeyjum.

Fá háskólapróf 18. aldar hafa því líklega komið að minni notum en lagapróf Jóns Þórðarsonar. Fyrir utan störf sín sem alþingisskrifari sat Jón í gerðardómi ásamt Skúla Magnússyni árið 1740 og rak jarðarmál fyrir systur sína Salvöru á Alþingi árið 1742.

Þorsteinn Magnússon, eftirmaður Jóns í embætti sýslumanns í Rangárvallasýslu, kvartaði undan því að með Jóni hefðu farist öll skjöl embættisins og handrit alþingisbókarinnar í kaupbæti. Í handriti frá 19. öld er til eftirfarandi lýsing á skipsskaðanum:

„1743, 19. maí, drukknaði landsskrifari Jón Þórðarson með því móti að skipi því sem hann flutti úr Vestmannaeyjum innundir Eyjasand barst á fyrir utan lendingu á útrifi, hvar stórsjóir og ólgubrim yfirgengu menn og skip. Sá fyrsti stórsjór, sem gekk yfir skipið hafði sligið hann um koll, hvað þá Grímur [Jónsson, sýslumanns Þorsteinssonar] þénari hans sá, tók hann yfirum hann og ætlaði að halda honum, kom svo strax annar sjórinn sem sló báðum út og öllum farviðunum. 14 menn voru alls á skipinu, hvar af drukknuðu 8 en 6 komust af, eftir afstaðið mikið sjóvolk, þeir höfðu haldið í böndin sem út af skipinu lágu.“

Höfundur kynningartexta: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

 

Heimildir:

ÞÍ. Amtmaður yfir landinu öllu 1688–1770. Amtm. B/76. Bréf alþingisskrifara til amtmanns 1717–1770.

ÞÍ. Stiftamtm. III. 70. Bréf amtmanns til stiftamtmanns 1731–1740.

ÞÍ. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744.

ÞÍ. Skjalasafn Þjóðskjalasafns Íslands. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna. KA/1–KA/67. (Aðgengilegt á netinu.)

Alþingisbækur Íslands XII, 1731– 1740. Reykjavík, 1971.

Alþingisbækur Íslands XIII, 1741– 1750. Reykjavík, 1973.

Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I–V. Reykjavík 1948–1952.