September 2024
Dæmdur letingi smíðar sér ættarnafn: Sigmundur Throvardur Maginus
Heimild: ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744.
„Og forblíf svo í auðmýkt, með elsku og undirgefni, veleðla og velborins herra justitzraads og amtmanns, míns háttvirðandi herra, auðmjúkur og undirgefinn þénari. Sigmundur Throvardur Maginus mpria, Reykjum við Rútafjörð í Húnavatnssýslu þann 11. Novembris Anno 1739.“
Þannig endaði Sigmundur Þorvarðsson, bóndasonur á Reykjum, bréf sitt til amtmannsins Jóakims Hinrikssonar Lafrentz. Tilefni bréfaskriftanna var að biðja um hjálp amtmanns við að halda óhlutdræg réttarhöld í Húnavatnssýslu vegna málssóknar Sigmundar gegn sýslumanninum, Bjarna Halldórssyni, fyrir Yfirréttinum á Alþingi.
Rót málsins er sú að þann 13. maí 1739 hafði Bjarni dæmt Sigmund arflausan fyrir leti og úrskurðað að auki að faðir hans væri héðan í frá ekki skyldugur að halda hann endurgjaldslaust á heimili sínu, svo lengi sem hann væri heill og verkfær. Sigmundur óskaði eftir því í vitna viðurvist að fá afrit af dómnum en það var forsenda þess að geta áfrýjað honum til lögréttu á Alþingi. Vorið 1740 stefndi Sigmundur sýslumanninum hins vegar beint fyrir Yfirréttinn, dómsstigið fyrir ofan lögréttu, fyrir réttarneitun, að hafa hreinlega neitað að gefa sér afritið og þannig komið í veg fyrir að Sigmundur gæti leitað réttar síns fyrir æðri dómara.
Af nokkrum skjölum sem hafa varðveist í skjalasafni amtmanns undir flokknum Bréf úr Húnavatnssýslu má sjá að Sigmundur hefur velt fyrir sér ýmsum leiðum til að leita réttar síns og ferðast alla leið frá Hrútafirði til Bessastaða, þar sem bréf hans eru undirrituð á báðum stöðum. Réttarneitunarmálið var á endanum tekið tvívegis fyrir í Yfirréttinum, sumarið 1740 og 1741 og haldin voru fimm héraðsþing til að afla gagna í málinu. Inni í þessari tölu er ekki upphaflega réttarhaldið frá 13. maí 1739, þar sem leidd voru vitni um yfirgengilega leti Sigmundar og vanvirðingu við föður sinn.
Fjögur héraðsþinganna voru hluti af málaundirbúningi Sigmundar, þar sem hann kallaði til fólk sem átti að vitna um hann hefði margsinnis krafið sýslumanninn um dómsafritið. Á einu þessara héraðsþinga, þann 24. maí 1741, krafðist Sigmundur þess skriflega að þótt vitnin ættu að segja frá kröfum hans þá þýddi það hins vegar ekki að þau ættu að segja neitt um svör eða viðbrögð sýslumannsins. Andstæðingur hans, Bjarni Halldórsson, lét aftur á móti halda eitt héraðsþing þar sem hann færði sönnur á að Sigmundi hafi staðið til boða að sækja afritið af dómnum til Sanda í Torfustaðahreppi þann 28. júlí 1739, en ekki viljað það. Þó afritið hafi komið innan þriggja mánaða frá dómsuppskurði var þetta engu að síður of seint til þess að Sigmundur gæti áfrýjað dómnum til lögréttu sama ár, þar sem alþingi var alltaf haldið í júlí. Þann 28. júlí hafnaði Sigmundur því sumsé að sækja afritið til Sanda en engu að síður var hann enn að krefja sýslumanninn um afritið á bænum Hofi í Áshreppi svo seint sem í október 1739 en þangað elti Sigmundur sýslumanninn sem var í embættisför. Vegalengdin að Hofi frá heimili Sigmundar á Reykjum er í það minnsta fjórum sinnum lengri en til Sanda, þar sem dómsafritið hafði beðið hans þremur mánuðum fyrr.
Alls er hægt að finna sex skjöl með rithendi Sigmundar í varðveittum gögnum málsins en þau má öll lesa í IV. bindi af útgáfu Yfirréttarins á Íslandi. Sigmundur hefur væntanlega ekki kunnað dönsku þar sem hann skrifar amtmanni alltaf á íslensku en skjöl hans bera það með sér, bæði hvað varðar rithönd og orðfæri, að hann hefur haft meiri færni í rituðu máli en flestir úr hans þjóðfélagsstétt. Í bréfi sýslumannsins til amtmanns, þar sem hann kvartar sáran undan málssókn Sigmundar, má lesa að faðir Sigmundar, Þorvarður Magnússon, lagði mikið á sig til að koma Sigmundi til mennta. Sýslumaðurinn fullyrðir einnig að þegar Sigmundur hafi náð 15 ára aldri hafi hann neitað að halda lærdómnum áfram.
Alla jafna er undirskrift Sigmundar nokkuð blátt áfram, hann var vanur að skrifa einfaldlega skýrt og skilmerkilega Sigmundur Thorvardsson. Nema auðvitað í þetta eina skipti, 11. nóvember 1739, sem vitnað er í hér að ofan, þegar hann skrifaði undir sem Sigmundur Throvardur Maginus. Bréfið með þessari undirskrift var hluti af sendingu Sigmundar til amtmanns með tveimur skjölum, undirrituðum þann 10. og 11. nóvember, og þessi sérstaka undirskrift er bara notuð í seinna bréfinu.
Uppbygging þessa tilraunanafns er einföld, Sigmundur notar bæði nafn föður síns, Þorvarður, og föðurafa síns, Magnús, en sleppir -son og lætur nöfnin standa í nefnifalli. Áhrifin verða á þá leið að Þorvarður virðist einhvers konar millinafn og Magnús ættarnafn. Hins vegar breytir Sigmundur stafsetningu lauslega, Þorvarður verður Throvardur og Magnús verður Maginus. Þar sem þetta er eina skiptið sem undirskriftin birtist með þessum hætti er erfitt að fullyrða hvort þessi óvenjulega stafsetning sé gerð af ásetningi eða klaufaskap. Meðal þess sem Sigmundur á að hafa lært í bernsku var latína og vera kann að honum hafi óað við að bera bera ættarnafnið Magnus (hinn mikli) og það sé ástæðan fyrir því að Magnús verður Maginus. Þetta er líka í eina skiptið sem Sigmundur bætir skammstöfuninni mpria (manu propria = með eigin hendi) við undirskrift sína.
En tilraunastarfssemi Sigmundar þennan vetrardag í Hrútafirði árið 1739 náði ekki einungis til nafnsins sjálfs, heldur einnig rithandarinnar sem er gerólík þeirri sem hann var vanur að beita. Sigmundur Þorvarðsson var hann vanur að skrifa í einni línu, nafninu Sigmundur Thorvardur Maginus skipti hann hins vegar milli þriggja lína og bætti við allnokkrum krúsídúllum.
Þegar undirskriftir Sigmundar eru bornar saman við undirskriftir veraldlegra embættismanna sem birtast í skjölum Yfirréttarins á þessum árum eru þær langflestar mjög svipaðar og hin „hefðbundna“ undirskrift Sigmundar, nafnið haft í beinni línu án mikilla tilþrifa í leturgerð þó stundum hafi menn ritað nafn sitt með dönskuskotinni stafsetningu. Stundum voru skírnarnöfn skammstöfuð og upphafsstafurinn fléttaður inn í eftirnafnið en það varð algengara eftir því sem leið á öldina. Þetta má til dæmis sjá í undirskrift amtmannsins Jóakims Hinrikssonar Lafrentz.
Af öllum þeim undirskriftum sem finna má í skjölum Yfirréttarins er hins vegar bara ein sem minnir eitthvað á Sigmund Throvard Maginus en svo vill til að hún tilheyrir einnig manni úr Húnavatnssýslu þó bakgrunnur hans hafi verið annar en Sigmundar. Það var hinn fyrrverandi sýslumaður Húnavatnssýslu, Jóhann Kristófer Gottrup sem einnig átti í deilum við sýslumanninn Bjarna Halldórsson á sömu árum og Sigmundur. Jóhann var vanur að pára nafnið sitt í þremur línum með töluverðum lykkjum og flúri. Ef til vill hefur Sigmundur hrifist af undirskrift Jóhanns og vonast til að ljá skjali sínu aukna vigt með því að laga sig að heldri manna siðum.
Höfundur kynningartexta: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Heimildir:
ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744.
ÞÍ. Amtmaður yfir landinu öllu 1688–1770. Amt. B/138. Bréf úr Húnavatnssýslu til amtmanns 1720–1740.
Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl. IV 1733–1741. Ritstjórar Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag, Reykjavík 2024.