Febrúar 2025
Ormur Daðason (1684–1744) sýslumaður var einkabarn foreldra sinna, séra Daða Steindórssonar í Otrardal í Arnarfirði og Jóhönnu Jónsdóttur. Hún var dóttir séra Jóns Ormssonar á Kvennabrekku í Náhlíð og systir þeirra Magnúsar lögsagnara í Dalasýslu og Vigfúsar skálds á Leirulæk. Magnús var faðir Árna (1663–1730) handritasafnara og voru þeir Ormur því náskyldir, það er að segja systkinasynir.
Ormur var við nám í Skálholtsskóla 1699–1706 en sigldi ekki til frekara náms í Kaupmannahöfn, kannski vegna þess að Árni var þá í leyfi frá háskólanum til þess að taka saman manntal og jarðabók á Íslandi í félagi við Pál Vídalín lögmann. Í mannfræðiritum er hann sagður hafa gerst ráðsmaður hjá Þuríði Sæmundsdóttur (1665–1740). Hún var dóttir Sæmundar Eggertssonar lögréttumanns á Sæbóli á Ingjaldssandi og Þuríðar Árnadóttur konu hans. Þuríður giftist Eggerti Jónssyni úr Flatey á Breiðafirði árið 1690 en hann lést fyrir 1692. Hún giftist síðar séra Halldóri Torfasyni (1658–1705) í Gaulverjabæ í Flóa og átti brúðkaupið að fara fram árið 1695 en vegna hjónabands meinbuga með tilheyrandi umsókn um konungsleyfi vegna þremenningsskyldleika frestaðist það til ársins 1697. Þuríður eignaðist sitthvort barnið með eiginmönnum sínum en þau létust ung í kjölfar andláts feðra sinna og því var umtalsverður auður samankominn hjá ekkjunni.
Halldór seinni eiginmaður Þuríðar var sonur séra Torfa Jónssonar (1617–1689) í Gaulverjabæ og konu hans Sigríðar Halldórsdóttur. Torfi var sonur hálfbróður Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups og arfleiddi biskup Torfa að öllu aflafé sínu. Nýfæddum syni Jóhanns Péturssonar Klein fógeta gaf Brynjólfur allar erlendar bækur sínar sem flestar voru á latínu og grísku. Íslenskar bækur sínar og handrit gaf hann hins vegar til helminga Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu og fyrrnefndri Sigríði konu séra Torfa í Gaulverjabæ. Börn þeirra erfðu svo foreldra sína og hafa meðal annars skipt bókum og handritum Brynjólfs biskups á milli sín. Þannig fékk Árni Magnússon að láni frá séra Halldóri árið 1704 tvö handrit sem innihalda Landnámu og Kristni sögu (AM 105 fol. og AM 107 fol.) með hendi séra Jóns Erlendssonar í Villingaholti sem var einn helsti skrifari Brynjólfs biskups. Ári síðar lést séra Halldór og mun Þuríður sem prestsekkja hafa átt rétt á náðarári og því líkast til dvalið áfram í Gaulverjabæ fram til ársins 1706. Það ár keypti Árni fyrrnefnd handrit sem hann hafði verið með í láni og önnur fleiri, auk forngripa, það er vatnskarla úr kopar. Árið 1708 tiltekur Árni varðandi tvö handrit sem hann hafði komist yfir að hann hafi fengið þau frá Þuríði í Skipholti. Skipholt í Ytrahreppi var eitt af staðarbúum Skálholtsstóls og þar sat gjarnan sá umboðsmaður sem hafði á hendi jarðir biskupsstólsins í Hreppum.
Eftir að Ormur útskrifaðist vorið 1706 má vera að hann hafi búið hjá Þuríði í Skipholti en miklir kærleikar tókust með þeim og í kaupmálabréfi Orms kallar hún hann sinn óskason og hann hana sína „velgjörðamóður“. Ormur gekk í þjónustu Árna frænda síns á meðan hann var enn í skóla en hann kom að uppskrift fornbréfs á Dyrhólum í Mýrdal 14. júní 1705 en Árni hefur þá verið þar við jarðabókargerð og Ormur í föruneyti hans. Ormur var með honum í för um Snæfellsnes haustið 1707 þegar Árni og Páll hittust á Slítandastöðum í Staðarsveit. Stórabóla geisaði þá um landið og lágu Ormur og Árni Beinisson lestarmaður dauðvona í bólusótt en í annál sínum kallar Páll þá „þörfustu fylgdarmenn“ Árna. Lestarmaðurinn dó en Ormur og hestadrengurinn lifðu af og sá Árni um að koma þeim heim í Skálholt, magnlausum eftir sóttarleguna. Þórður Þórðarson, skrifari Árna, tók svo á sig að koma hestalest Árna heim á leið með kistum fullum af jarðabókarpappírum og handritum. Ormur virðist hafa verið áfram í þjónustu Árna og sjá má að hann var viðstaddur gerð uppskrifta fornbréfa (apógrafa) á vegum Árna í Skálholti í febrúar og mars 1708, í desember 1709, í mars og desember 1710, í janúar, apríl–júlí, október–desember 1711 og í febrúar og maí 1712. Auk þess sem hann var í för með honum sumarið 1710 eins og sjá má af uppskriftarlotu í júní í Hvammi í Hvammssveit. Hann virðist hins vegar hafa helst úr lestinni og ekki fylgt Árna á Vestfirði þar sem uppákoma varð í Otrardalskirkju 17. september 1710 er faðir Orms var truflaður við embættisstörf sín af drukknum kirkjugesti. Þá telur Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörður og útgefandi Fornbréfasafnsins, að Ormur hafi einnig skrifað upp fornbréf fyrir Árna. Auk þess sem hann las saman uppskrift af ættartölubók Jóns Þorlákssonar sýslumanns sem Árni var með í láni veturinn 1709–1710 og lét skrifa upp fyrir sig (AM 256 fol.).
Þuríður fluttist úr Skipholti og í Haukadal í Biskupstungum, væntanlega í fardögum 1708, og var sögð ábúandi þar þegar jarðabók var gerð yfir Biskupstungur 5. nóvember 1709 og næstu daga. Ormur var ráðsmaður Þuríðar í Haukadal á árunum 1708–1712. Það má sjá af vitnisburði Orms, gerðum á alþingi 13. júlí 1730, að Þuríður hafi búið þar í fjögur ár. Vitnisburðurinn var gerður að kröfu séra Hafliða Bergsveinssonar á Torfastöðum í Biskupstungum. Hann bað Orm að vitna um hvað mikið af landskuld Haukadals hafi fallið í skaut Torfastaðapresti þegar hann embættaði þar á þeim árum sem Ormur bjó á jörðinni ásamt Þuríði. Ormur virðist þó hafa verið laus við og getað áfram aðstoðað Árna eins og fornbréfauppskriftirnar bera vott um.
Þann 20. júlí 1708 í Haukadal sótti Þuríður um konungsstaðfestingu á erfðaskrá sem hún hafði gert í Skipholti 25. apríl 1708 þar sem hún arfleiddi Orm að öllum eigum sínum. Eggert Sæmundsson á Sæbóli á Ingjaldssandi, bróðir Þuríðar, mótmælti þessu harðlega enda stóð hann næstur til erfða eftir systur sína sem þá var orðin barnlaus ekkja. Þann 4. mars 1709 skrifaði amtmaður utan til stiftamtmanns um málið og upplýsti hann um að eignir Þuríðar hlypu á um 1500 ríkisdölum og að Eggert hyggðist kæra erfðaskrána sem hann taldi ólöglega. Hann nefndi að Árni og Ormur væru systkinasynir og gaf í skyn að Þuríður hafi verið fengin til þess að gera þetta með fortölum og að Árni hafi átt þar hlut að máli. Þann grun staðfestir séra Jón Halldórsson í Hítardal (1665–1736) í ættartölubók sem hann tók saman en þar segir: „Ormur Daðason var nokkur ár í þénustu frænda síns assessoris Árna Magnússonar og fyrir hans tilhlutan arfleiddur með k(ongelig) m(ajeste)ts staðfestingarbréfi af Þuríði [Sæ]mundsdóttur frændkonu þeirra til alls henn[ar] góss, eftir það hún var erfingi vorðinn að eignum beggja sinna manna Eggerts Jónssonar og séra Halldórs Torfasonar …“
Af ótta við að amtmaður myndi spilla áformum þeirra skrifaði Árni, þá staddur í Kaupmannahöfn, bréf dagsett 26. mars 1709, til Christians Thomesens Sehesteds, sem var herráðsforingi (d. stabschef) og hægri hönd Ulriks Christians Gyldenløves (1678–1719). Gyldenløve var aðmíráll í sjóhernum, hálfbróðir Friðriks V. Danakonungs og frá unga aldri stiftamtmaður yfir Íslandi. Árni nefndi meðal annars í bréfi sínu að Eggert byggi of fjærri systur sinni til þess að hún gæti notið nokkurs styrks af honum, hann og kona hans væru barnlaus, auk þess sem Eggert hafði arfleitt konu sína að öllum eigum sínum eftir sinn dag og því gæti hann varla bannað systur sinni að ráðstafa eigum sínum til Orms sem væri náskyldur henni. Varðandi skyldleikann má geta þess að séra Jón Ormsson á Kvennabrekku, afi Árna og Orms, var hálfbróðir Steindórs Ormssonar lögsagnara í Fremri-Gufudal sem var langafi Þuríðar. Konungur staðfesti erfðaskrá Þuríðar 20. apríl 1709.
Ormur tók við ráðsmannsstarfinu í Skálholti af Arngrími Bjarnasyni og gegndi því árin 1711–1712. Skálholtsráðsmaður hafði umsjón með rekstri biskupsstólsins og var yfir umboðsmönnum stólsjarðanna, sem sáu um að byggja jarðir biskupsstólsins og innheimta landskuldir. Í bréfi Árna Magnússonar, skrifuðu 21. apríl 1712 í Skálholti, til séra Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði kemur fram að Ormur hefði sagt ráðsmannsstarfinu lausu og Þórður, fyrrnefndur skrifari Árna, myndi taka við því af honum. Ástæðan var, að sögn Árna, veikindi foreldra Orms. Skömmu síðar, eða þann 18. júní 1712 í Haukadal, gaf Þuríður Árna umboð sitt til þess að selja þær jarðir sem hún átti á Austfjörðum, það er í Vopnafirði og Fáskrúðsfirði, og voru henni óhentugar sökum fjarlægðar. Hún hefur eflaust fengið Árna til þess að ráði Orms sem gat ekki sinnt þessu því hann þurfti að huga að foreldrum sínum vestur í Otrardal. Ætla má að hún hafi væntanlega þá þegar verið búin að ákveða að flytja aftur á fornar slóðir í Flatey á Breiðafirði. Sterk vísbending þar að lútandi er afrit af færslu varðandi Flatey sem Ormur skrifaði upp úr jarðabók Árna og Páls í Skálholti 1. maí 1712. Ormur flutti með Þuríði út í Flatey enda fór Árni alfarinn úr landi til Kaupmannahafnar í september 1712 og því engin ástæða fyrir Orm að dvelja lengur í nágrenni Skálholts.
Eftir að konungur staðfesti erfðaskrá Þuríðar má segja að Ormur hafi legið á gulli. Í gósseigandatali unnu upp úr jarðabók Árna og Páls má sjá að séra Halldór Torfason eiginmaður Þuríðar var þar í 43. sæti með 212 jarðarhundruð í einkaeign. Til þess að átta sig á umfanginu má geta þess að meðaljörð var talin 20 hundruð að dýrleika en höfuðból 60 hundruð. Það var því álitleg upphæð sem Ormur átti í vændum. Það sem skipti hins vegar meira máli var að þó að þessi auðæfi væru ekki útbær strax þá gerðu þau að verkum að Ormur gat teygt sig í ríkan kvenkost sem annars hefði staðið honum utan seilingar. Enda fór það svo að hann kvæntist Ragnheiði Þorsteinsdóttur (1679–1748) sem var í 58. sæti í fyrrnefndu gósseigendatali með 158 jarðarhundruð í einkaeign. Ragnheiður var dóttir Þorsteins Þórðarsonar (d. 1700) á Skarði á Skarðsströnd og Arnfríðar Eggertsdóttur (1648–1726), dóttur Eggerts Björnssonar ríka (1612–1681) sýslumanns á Skarði. Eggert var ríkasti maður landsins og við árið 1681, þar sem andláts hans er getið í Grímsstaðaannál, segir: „Hann átti eptir barna fimm dætur; fékk hver þeirra hálft þriðja hundrað hundraða í fastaeign og þrjú hundruð hundraða í lausfé hver.“ Arnfríður, móðir Ragnheiðar, var í 16. sæti gósseigendatalsins með 348 jarðarhundruð í einkaeign. Til samanburðar má benda á að séra Daði Steindórsson gerði grein fyrir jarðeignum sínum og konu sinnar í skýrslu frá 28. maí 1703 vegna jarðabókargerðarinnar. Þar kemur fram að þau áttu jarðeignir sem samtals voru 30 hundruð að dýrleika. Þau áttu 14 hundruð í Stóra-Hundadal í Miðdölum og hún átti Litla-Vatnshorn í Haukadal. Ljóst er að með slíkan bakhjarl var aldrei í kortunum fyrir Orm að festa sér konuefni úr efsta lagi samfélagsins.
Ormur fékk við ráðahaginn gífurleg auðævi í hendur og var ábyrgur fyrir rekstri jarðanna og ávöxtun eignasafnsins. Það má hugsa sér að ráðsmannsstarfið í Skálholti hafi verið nokkurskonar undirbúningur þess sem var í vændum. Það var hins vegar ekki tekið út með sældinni að vera dóttir efnamanns fyrr á öldum. Þeim gat reynst erfitt að finna sér maka því að fáir vonbiðlar voru nógu ríkir til þess að geta talist þeim samboðnir. Ragnheiður var til að mynda orðin 36 ára þegar hún gekk loks í hjónaband með Ormi á Skarði á Skarðsströnd þann 20. október 1715. Þau eignuðust sex börn en aðeins tvö komust upp. Þau bjuggu í Flatey á Breiðafirði 1715–1716, á Reykhólum í Reykhólasveit 1716–1725, í Saurbæ á Rauðasandi 1725–1728 og í Innra-Fagradal í Saurbæjarsveit frá 1728. Svo virðist sem Þuríður hafi fylgt með Ormi og fjölskyldu er þau fluttust á milli höfuðbóla en óvíst er hvort hún hafi yfirgefið Saurbæ. Það virðist mega ráða af bréfi Þuríðar til Árna, dagsettu 30. ágúst 1729 að Saurbæ á Rauðasandi, þar sem hún kallar hann „velgjörara“ sinn, þakkar allar góðgerðir hans í sinn garð að fornu og nýju og sendir honum peninga fyrir eitthvað sem hann hafði útréttað fyrir hana.
Ormur var skuldbundinn þessum tveimur velunnurum sínum, þeim Þuríði og Árna, alla tíð. Hann var trúnaðarmaður Árna á Íslandi og þegar Árni var í Kaupmannahöfn sumarið 1709, er Bræðratungumál voru fyrir hæstarétti, þá skrifaði hann Ormi og bað hann um að finna skjal í hvítum kistum í Skálholti sem geymdu pappíra jarðabókarnefndarinnar. Við andlát Páls Vídalíns, 18. júlí 1727, var hann stórskuldugur Árna vegna hæstaréttarmáls hans við Odd Sigurðsson lögmann en Páll sigldi af því tilefni og dvaldist í Kaupmannahöfn 1715–1716. Páll hafði veðsett Árna Víðidalstungu vegna peningaláns sem hann þurfti vegna siglingarkostnaðarins. Árni skipaði Orm fulltrúa sinn til þess að gæta hagsmuna sinna við dánarbússkiptin, til þess að innheimta handrit sem voru í láni hjá Páli og til þess að reyna að fá sem mest af skuldinni greitt í formi bóka og handrita Páls. Ormur var jafnframt ávallt á höttunum eftir handritum og skjölum sem hann vissi að gleddi Árna mest af öllu. Þegar Þuríður dó þá gaf Ormur Sauðlauksdalskirkju nokkrar jarðir með bréfi dagsettu 27. maí 1740 í Saurbæ á Rauðasandi. Þetta voru jarðirnar Minni-/Ytri-Garður og hálfur Stærri-/Innri-Garður í Dýrafirði, samtals 12 hundruð að dýrleika, í legkaup fyrir líkama Þuríðar „velgjörðasystur“ sinnar sem hafði kosið sér legstað í kirkjugarðinum í Sauðlauksdal við Patreksfjörð.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta.
Heimildir:
ÞÍ. Hið danska kansellí. KA/7, örk 19. Þuríður Sæmundsdóttir fer fram á að fá konunglega staðfestingu á erfðaskrá sinni, 25. apríl 1708.
ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, 66. Bréf amtmanns til stiftamtmanns 1704–1710. Bréf Christians Möllers amtmanns til stiftamtmanns, 4. mars 1709.
ÞÍ. Kirknaskjöl. K. IX. Árnesþing. Örk: Torfastaðir í Biskupstungum 1456–1840.
ÞÍ. Kirknaskjöl. K. XVI. Barðastrandarsýsla. Örk: Sauðlauksdalur í Patreksfirði 1695–1785.
ÞÍ. Einkaskjalasafn. E.2. Kaupmálabréf Orms Daðasonar og Ragnheiðar Þorsteinsdóttur, 12. október 1715.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Access 1, bl. 135r–136v. Bréf Þuríðar Sæmundsdóttur til Árna Magnússonar, 30. ágúst 1729.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. AM Dipl. Isl. Apógröf. Böggull V, 8–I, apógröf nr. 4385–4388. Jarðakaup og sölur vegna madamme Þuríðar Sæmundsdóttur 1712.
Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn. Lbs 389 4to, bls. 157–165. Flateyjarskjöl.
Alþingisbækur Íslands III, 1595–1605. Reykjavík 1917–1918, bls. 140.
Alþingisbækur Íslands VIII, 1684–1696. Reykjavík 1949–1955, bls. 378–379.
Alþingisbækur Íslands X, 1711–1720. Reykjavík 1967, bls. 153–154, 196.
Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 505, 507 (Vallaannáll); 715, 718–719 (Annáll Páls Vídalíns).
Annálar 1400–1800 III. Reykjavík 1933–1938, bls. 362 (Eyrarannáll); 475–476, bein tilvitnun (Grímsstaðaannáll).
Arne Magnussons private brevveksling. København 1920, bls. 93–97, 410–411, 509, 635–636.
Biskupasögur Jóns prófasts Haldórssonar í Hítardal I. Skálholtsbiskupar 1540–1801. Með viðbæti. Reykjavík 1903–1910, bls. 299–300.
Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir II. Með skýringum og viðaukum eptir Jón Pétursson og Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1889–1904, bls. 62–77, 91, 705–710.
Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir III. Með skýringum og viðaukum eptir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1905–1908, bls. 89.
Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700. Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 14. Reykjavík 1985, bls. 42, 45, 47.
Dansk biografisk lexikon, tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 VI. Gerson–H. Hansen. Udgivet af C.F. Bricka. Kjøbenhavn 1892, bls. 347–349.
Dansk biografisk lexikon, tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 XV. Scalabrini–Skanke. Udgivet af C.F. Bricka. Kjøbenhavn 1901, bls. 490.
Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn I–XVI. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857–1972. III, bls. 292, 400, 452, 617, 655; V, bls. 404, 587; VIII, bls. 60, 452–453, 639; IX, bls. 73; XIII, bls. 329, 552; DI XIV, bls. 312, 339, 421; XV, bls. 147.
Einar Bjarnason, Lögréttumannatal. Sögurit XXVI. Reykjavík 1952–1955, bls. 503.
Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Skálholt 950 ára – 2006 – Hólar 900 ára. [Akureyri] 2006, bls. 101.
Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I–V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948–1952. I, bls. 25, 303, 314; II, bls. 273; III, bls. 243, 433; IV, bls. 95–96, 98; V, bls. 27–28, 119–120, 233–234.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 2. Kaupmannahöfn 1918–1921, bls. 277, 303–304.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 13. Fylgiskjöl. Reykjavík 1990, bls. 63–65, 185–186.
Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn 1993, bls. 145.
Jón Halldórsson, Ættartölubók I. Reykjavík 1983, bls. 211.
Jón Helgason „Bækur og handrit á tveimur húnvetnskum höfuðbólum á 18du öld“, Landsbókasafn Íslands. Árbók. Nýr flokkur 9 (1983), bls. 7–8. 10, 13.
Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling I–II. København 1889–1894, I, bls. 71–72, 481; II, bls. 499.
Kristján Eldjárn, „Minnisgreinar Árna Magnússonar um merka kirkjugripi“, Árbók hins íslenzka fornleifafélags 73 (1976), bls. 121–163, sjá bls. 157–159.
Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998, bls. 255 (mynd af apógrafi með hendi Orms), 256–257, 260, 268, 285, 299–300.
Már Jónsson. „Raunir handritasafnarans. Vestfjarðaleiðangur Árna Magnússonar sumarið 1710“, Handritasyrpa. Rit til heiðurs Sigurgeiri Steingrímssyni sjötugum 2. október 2013. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 88. Reykjavík 2014, bls. 23–39, sjá bls. 33–35.
Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I–II. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70. Reykjavík 2008; I, bls. 286–287; II, bls. 471
Ítarefni:
Kaupmálabréf Orms Daðasonar sýslumanns og Ragnheiðar Þorsteinsdóttur. Uppskrifað.
ÞÍ. Hið danska kansellí.KA/7, örk 19.
Skjalasafn stiftamtmanns III, 66. Bréf amtmanns til stiftamtmanns 1704–1710.
ÞÍ. Kirknaskjöl. K. XVI. Barðastrandarsýsla. Örk: Sauðlauksdalur í Patreksfirði 1695–1785.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Böggull V. Böggull 8-I. Apógröf nr. 4385-4388