Mars 2025
Þriðjudaginn 22. janúar 1980 birtist auglýsing bræðranna Mike og Daniel Pollock í Dagblaðinu þar sem þeir auglýstu eftir nýbylgjutónlistarfólki í hljómsveit.[1] Magnús Stefánsson trommuleikari frá Raufarhöfn svaraði auglýsingunni og seinna gekk vinur hans Rúnar Erlingsson bassaleikari, einnig frá Raufarhöfn, í hljómsveitina. Að lokum bættist Bubbi Morthens við og hljómsveitin Utangarðsmenn varð til. Þeir voru þekktir fyrir að spila reggí-tónlist og rokk eða gúanó-rokk.
Í byrjun áttunda áratugarins var nýbylgjan í tónlist að ryðja sér til rúms eftir gullöld diskósins á þeim sjöunda. Pétur Kristjánsson segir svo frá þeim jarðvegi sem nýbylgjan spratt úr í heimildamyndinni Rokk í Reykjavík:
Það var árið 1974 sem skólastjórar bönnuðu hreinlega hljómsveitir á skólaböllum og þetta er það versta sem hefur komið fyrir bransann, myndi ég segja. Þeir vildu meina að það væri meira drukkið þegar hljómsveitir væru heldur en þegar diskótek væru. Þetta gerði það að verkum að ´75, ´76 þegar þessi árgangur átti að skila sér á sveitaböllin, sem hefur verið aðal tekjulind popparanna, þá mættu þau ekkert … þá var diskótekið búið að taka við og var langvinsælast. Það var ekki fyrr en með nýbylgjunni 1980 sem krakkarnir fóru að hlusta á tónlist aftur. Þetta höfðu bara verið diskótek og þau höfðu aldrei fengið tækifæri til að hlusta á lifandi músik.[2]
Nýbylgjan gat af sér hljómsveitir eins og Fræbbblana, Utangarðsmenn og ýmsar aðrar pönk- og rokkhljómsveitir. Ákveðin bylting varð á tónlistarframboði á Íslandi. Að sögn þeirra Pollock-bræðra í viðtali í Tímanum árið 1981 var markmiðið „að brjóta niður það klíkukerfi sem viðgengist hafði um fjölda ára á þessu sviði hérlendis.“[3]
Utangarðsmenn komu fyrst fram á dansleik hjá Félagsstofnun stúdenta í Stúdentakjallaranum 30. mars 1980. Dansleikurinn var jafnframt baráttusamkoma herstöðvaandstæðinga.[4] Bubbi lýsti upplifuninni þannig í ævisögu sinni að: „Einhverjir héldu fyrir eyrun en flestir áheyrendur voru hrifnir.“[5] Þann 12. apríl sama ár var hljómsveitin hluti af dagskrá rokktónleika í Félagsheimili Kópavogs undir yfirskriftinni „Heilbrigð æska“. Bubbi leit svo á að þessir tónleikar hefðu komið Utangarðsmönnum á kortið.[6] Eftir þá birtist heilsíða í Þjóðviljanum eftir Jónatan Garðarsson blaðamann og síðar útvarpsmann, þar sem fjallað var um tónleikana. Þar lýsti hann hljómsveitinni sem svo að hún væri „án efa athyglisverðasta rokkhljómsveit sem fram hefur komið hér á landi um langt skeið.“[7]
Utangarðsmenn voru duglegir að spila á Hótel Borg, Tjarnarbíói og fleiri stöðum í Reykjavík. Vinsældir þeirra jukust hratt og aðeins sex vikum eftir að hljómsveitin varð til hituðu þeir upp fyrir stórhljómsveitina Clash á tónleikum í Reykjavík þann 21. júní 1980.[8]
Eftir miklar vinsældir í borginni ákváðu þeir að snúa sér að landsbyggðinni. Þeir áttu á brattann að sækja fyrst um sinn en tónlist þeirra féll ekki alls staðar í kramið og fáir mættu á tónleikana. Í eitt skiptið í félagsheimilinu Skúlagarði í Kelduhverfi spiluðu þeir þriggja tíma tónleika fyrir einn áheyranda þar sem aðrir höfðu látið sig hverfa.[9] Þetta breyttist eftir útgáfu fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar, Geislavarnir, sem fékk mjög góðar undirtektir og jukust þá vinsældir þeirra á landsbyggðinni.
Í september 1980 fengu Utangarðsmenn sér ungan umboðsmann, Einar Örn Benediktsson. Hann var aðeins 17 ára sem gerði það að verkum að honum var ekki hleypt inn á alla dansleikina. Hann var þó duglegur að bóka viðburði fyrir hljómsveitina og markmiðið var að spila þrisvar í viku en stundum spiluðu þeir jafnvel átta tónleika á viku.[10]
Í Þjóðskjalasafni er varðveitt skipulagsdagbók Einars Arnar frá þeim tíma þegar hann var umboðsmaður og í henni má sjá bókanir Utangarðsmanna frá 16. janúar 1981 til 27. júní sama ár. Samkvæmt dagbókinni spiluðu þeir á tímabilinu 36 sinnum á 24 stöðum á Íslandi, allt frá félagsheimilum til skemmtistaða. Misjafnt er hvernig viðburðirnir eru skráðir í dagbókina, sem tónleikar, ball, dansleikur eða dansæfing. Einnig kemur fram að fleiri hljómsveitir spiluðu sömu kvöld, eins og Fræbbblarnir, Jón á hakanum, Mezzoforte, Þeyr og Purrkur Pillnikk. Einar Örn var söngvari í síðastnefndu hljómsveitinni. Á einstaka stöðum hefur upplifun hljómsveitarinnar á því hvernig tókst til verið skráð — eða að minnsta kosti þess sem skrifaði í bókina — lýsingar eins og „Real bother“, „Bømmer en finido“ og „BANG“.
Í maí 1981 fóru Utangarðsmenn út fyrir landsteinana í tónleikaferð um Skandinavíu.[11] Fyrst flugu þeir til Hollands 7. maí 1981 þar sem þeir keyptu 45 manna rútu sem þeir innréttuðu til þess að geta notað sem gististað á ferðalaginu.[12] Í heildina spilaði sveitin á 21 tónleikum á 16 stöðum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku frá 15. maí til 27. júní 1981. Þann 29. maí er athugasemd skrifuð í dagbókina: „Djöfuls BERGEN hahahahahahahahahaha.“[13] Líklega snýr sú athugasemd að því að hljómsveitin ferðaðist til Bergen vegna misskilnings, en þeir töldu sig hafa bókað þar viðburð. Ferðin varð þó ekki algjör sóun þar sem Utangarðsmenn spiluðu í borginni bæði 30. og 31. maí.[14]
Næstsíðasti viðburður Utangarðsmanna var á Festival í Kjós sem var haldið um verslunarmannahelgina þetta ár. Í bókhaldsgögnum úr fórum sveitarinnar er að finna kvittanabók fyrir húsaleigu, gæslu, mat, hljóðstjórn og miðasölu á hátíðinni, ásamt yfirliti yfir söluna og útgjöldum, þar á meðal skemmdum sem urðu.[15] Enda þótt hægt sé að finna einstaka færslur sem tengjast hátíðinni í dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði, eins og að lögreglumenn hafi farið þangað í gæslu[16], þá virðist hátíðin Festival í Kjós hafa farið ágætlega fram þar sem ekki er að finna neina umfjöllun um hana í fréttum.
Síðustu tónleikar Utangarðsmanna voru í Háskólabíói 15. ágúst 1981 og er útlistun á gjöldum og tekjum þess viðburðar að finna í skjalasafni Utangarðsmanna.[17]
Þann 16. desember 1981 voru Utangarðsmenn hf. teknir til gjaldþrotaskipta.[18] Þrátt fyrir stutt líf hljómsveitarinnar hafði hún mikil áhrif á tónlistarsenuna á Íslandi. Skjalasafn Utangarðsmanna var afhent af skiptastjóra til Þjóðskjalasafns Íslands árið 1996. Í því eru skjöl sem ná frá árinu 1980 og þar til hljómsveitin hætti störfum. Þótt safnið sé varðveitt í aðeins einni öskju þá gefur það áhugaverða innsýn í hvernig starf hljómsveitarinnar gekk fyrir sig og hvernig starfsemi hljómsveita á þessum tíma fór fram.
Ragnhildur Anna Kjartansdóttir ritaði kynningartexta.
Tilvísanir og heimildir:
[1] „Nýbylgjutónlistarfólk hefur áhuga á að stofna hljómsveit“, Dagblaðið 18. tlb. 22. janúar 1980, bls. 16.
[2] Viðtal við Pétur Kristjánsson í heimildarmyndinni Rokk í Reykjavík. Leikstjóri Friðrik Þór Friðriksson, mín. 6:50.
[3] „Pönk í Reykjavík. „Ísland er orðið stærsti skyndibitastaður í heimi““, Tíminn 267. tlb. 29.11.1981, bls. 5.
[4] „Baráttusamkoma herstöðvaandstæðinga verður haldin í Félagsstofnun stúdenta“, Þjóðviljinn 75. tlb. 29. mars 1980, bls. 10. Árni Matthíasson, Bubbi Morthens. Ferillinn í fjörutíu ár, (Reykjavík; JPV útgáfa 2020), bls. 15.
[5] Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens, Bubbi, (Reykjavík; Mál og menning 1990), bls. 160. Hér er sagt að dansleikurinn hafi verið 22. mars.
[6] Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens, Bubbi, bls. 161.
[7] „Kraftmiklir rokktónleikar“, Þjóðviljinn 89. tlb. 20. apríl 1980, bls. 23.
[8] „Frónbúar fögnuðu rokktónlist Tjallans“, Dagblaðið 142. tlb. 26. júní 1980, bls. 14.
[9] Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens, Bubbi, bls. 164.
[10] Árni Matthíasson, Bubbi Morthens. Ferillinn í fjörutíu ár, bls. 43.
[11] ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. Dagbók 1981.
[12] Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens, Bubbi, bls. 178. ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. 1981: Erlendar kvittanir, reikningar, flugmiðar o.fl. Skráningarskírteini, kvittanir og fleira fyrir rútunni.
[13] ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. Dagbók 1981.
[14] Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens, Bubbi, bls. 179–180.
[15] ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. Frumbók frá 31/7 1981. ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. Bókhald 1981 reikningar o.fl. Kjós – Festival.
[16] ÞÍ. Lögreglan í Hafnarfirði 2013–123. FB1/64–2. Dagbækur lögreglu 24/7–29/9 1981, bls. 67–68.
[17] Árni Matthíasson, Bubbi Morthens. Ferillinn í fjörutíu ár, bls. 52. ÞÍ. Utangarðsmenn hf. A/1. Bókhald 1981 reikningar o.fl. Háskólabíó 15.8.
[18] „Utangarðsmenn standa líklega undir nafni“, Dagblaðið Vísir –DV 13. tlb. 18. janúar 1982, bls. 33.