Snemma morguns þann 26. júní 1738 réri Skúli Magnússon, sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, ásamt nokkrum bændum út í Drangey og handtók Ásmund Þórðarson, 28 ára gamlan vinnumann á Sjávarborg.[1] Ásmundur var grunaður um að vera valdur að dauða Guðmundar Guðmundssonar, 15 ára gamals vinnupilts í Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu. Ákæra á hendur Ásmundi var gefin út 5. júlí. Rannsókn málsins og vitnaleiðslur stóðu yfir fram í lok júlí og sá Skúli sér ekki annað fært en að afboða sig á alþingi þetta sumar.[2]
Guðmundur hafði verið sendur af húsbónda sínum, Árna Þorsteinssyni, að kvöldi þess 10. júní 1738, að hitta bræður sína tvo sem bjuggu á Heiði í Gönguskörðum, og hafði með sér tvo hesta, „annan til reiðar en annan undir reiðingi, með þverbakspoka“, sem í var nesti og annar farangur sem ekki var tilgreindur nánar. Leið hans hefur legið um Laxárdalinn, yfir Laxárdalsfjöll um Litla-Vatnsskarð, svo um Víðidal og með Hryggjarfjalli að Hryggjarseli, niður Gönguskörð með Gönguskarðsá vestan eða norðan megin, en aldrei yfir ána, og hafði Árni húsbóndi hans raunar bannað honum að fara yfir ána, leið hans lá yfir Kallá og að Heiði í Gönguskörðum.
Daginn eftir sást til tveggja hesta frá bænum Tungu í Gönguskörðum sem enginn kannaðist við, og farið var að athuga með, „var annar með beisli og reiðveri og hinn með reiðingi.“ Strax í kjölfarið var hafinn leit að Guðmundi. Lík hans fannst stuttu síðar, sama daginn, á þurri grjóteyri niður við sjávarmál á Gönguskarðsá
með nokkrum undarlegum áverkum og sárum, bæði á höfði og ásjónu, og af líkamanum sjálfum buxur, nærbuxur, skór og hálsband krækt, sem varla hafi kunnað allt að burtrykkjast af vatnsins yfirgangi á svo stuttum tíma, heldur eru þess líkama sjónarmenn þeirrar meiningar að af manns tilverknaði skeð hafi, hvað sjálfum Guði er kunnugast.[3]
Það voru greinilega einhverjir torkennilegir áverkar á líkinu og það nakið að neðan. Fljótlega spurðist út að Ásmundur Þórðarson vinnumaður á Sjávarborg hefði verið sá sem síðast sást til í fylgd með Guðmundi. Ásmundur hafði verið að koma að vestan, alla leið frá Broddanesi í Kollafirði við Húnaflóa, og höfðu nokkrir bændur í Húnavatnssýslu orðið varir við hann á för sinni. Hann var ekki með neinn mat með sér né hest, en hafði stundum fengið lánaða hesta styttri leiðir eða hreinlega bara tekið sér hesta í högum eða afrétt sem urðu á leið hans! Þessu segir hann sjálfur frá og virðist enginn gera athugasemd við þetta hátterni. Leiðir Ásmundar og Guðmundar lágu svo saman við Merkurstekk sem er við bæinn Mörk skammt frá Litla-Vatnsskarði. Þeir urðu samferða yfir Laxárdalsfjöllin og langleiðina að bænum Tungu í Gönguskörðum.
Við yfirheyrslur játaði Ásmundur að hafa tekið nestið sem Ásmundur hafði verið með en neitar alfarið að hafa orðið honum að bana. Sagði að hann hafi verið að láta hann „reyna ána“ fyrir sig, athuga hvar og hvort hún væri væð, þetta hafi í raun verið slys, Guðmundur féll í ána og missti fótanna. Þarna er fullorðinn maður að láta unglingspilt reyna ána fyrir sig og hefur varla þótt rétt og eðlilegt, auk þess sem að það var Ásmundur sem þurfti að komast yfir ána ekki Guðmundur. Ásmundur var á leið að Sjávarborg í Skagafirði.
Það reyndist ekki unnt að sanna morð á Ásmund að svo komnu máli. Það voru enginn vitni að því sem gerðist — hann var einn til frásagnar. En hvers vegna hann hafi ekki tilkynnt atvikið við ána og lát Guðmundar strax og hann kom til byggða svarar hann: „Af gáleysi og vegna gleymsku.“[4]
Dómur í málinu var kveðinn upp 29. júlí 1738. Ásmundur játaði „að hann hafi stolið matnum úr poka Guðmundar heitins Guðmundssonar að hönum dauðum“, og Skúli dæmdi hann fyrir það til „að kagstrýkjast og brennimarkast á hryggnum“. Af skjölum málsins að dæma er þó stundum eins og Skúli hafi verið sannfærður um að Ásmundur væri valdur að dauða Guðmundar. Hann bætir við refsinguna að Ásmundur skuli auk þessa erfiða í járnum á Brimarhólmi alla sína lífstíð. Það gerir hann á þeim forsendum að Ásmundur hafi stofnað lífi „jafn ungrar manneskju í lífsháska“ við að láta hann reyna ána fyrir sig og vegna þess hann hafi ekki lýst láti Guðmundar strax „eftir saklausra og hreinskilinna manna plagsið, heldur dró dul á það og leyndi sinni vitund þar um.“[5] Líflátsdómum og dómum sem vörðuðu lífstíðarfangelsi átti að áfrýjað til alþingis áður en refsing yrði framkvæmd. Ásmundur sat því næsta vetur í varðhaldi hjá Skúla á heimili hans Gröf á Höfðaströnd.
Dómur var kveðinn upp í lögréttu á alþingi næsta sumar, 1739, og var dómurinn staðfestur að því leyti að Ásmundur skyldi „kagstrýkjast og brennimerkjast“ fyrir að hafa stolið matnum en lífstíðarfangelsisvistin var milduð í fangelsisdvöl á Brimarhólmi í sex ár „öðrum viðlíkum óguðlegum skálkum til viðvörunar“ eins og segir í dómnum.[6] Ásmund hefði því átt að flytja til Kaupmannahafnar um haustið og Skúli sjá til þess. En það varð ekki! Málið tók heldur óvænta stefnu.
Um haustið, í lok september 1739, þegar átti að fara að hýða og brennimerkja Ásmund áður en hann yrði settur í skip og sendur til Kaupmannahafnar, þá játaði hann á sig morðið. Skúli var búinn að kalla saman að heimili sínu nokkra bændur úr nágrenninu til að vera viðstadda á meðan
framfæri exsecution á Ásmundi Þórðarsyni eftir herra lögmannsins Beckers gengnum dómi í lögréttu þann 14da Julii A° 1739, til hvers enda téður Ásmundur var til kagans færður, hvar hann strax auglýsti að hann ei vildi eftir téðum herra lögmannsins dómi líða og útstanda.
Sýslumaðurinn aðspyr Ásmund því hann vilji ei líða eftir téðum dómi, það hljóti þó að ske. Ásmundur svarar: „Af því ég nú játa mig sannan banamann Guðmundar Guðmundssonar.“[7]
Þegar sýslumaður spurði Ásmund hvað hafi komið honum til að játa þetta nú og hvers vegna hann hafi ekki gert það fyrr svaraði hann: „Guð gjörir það.“ Við frekari yfirheyrslur viðurkenndi Ásmundur að hafa hrint Guðmundi í ána „svo hann flaut ofan eftir.“
Skúla var nú vandi á höndum. Hann þurfti stefna málinu fyrir rétt aftur, því augljóst var að nú lá dauðadómur við. Ásmundur sat því annan vetur í varðhaldi. Skúli fann stað í lögunum sem heimilaði honum að stefna málinu nú beint til yfirréttarins í stað þess að þurfa að stefna því aftur fyrir lögþingið. Málið gekk þannig hraðar fyrir sig.
Yfirréttur kvað upp sinn dóm sumarið 1740. Ásmundur átti að „missa sitt líf og með öxi hálshöggvast. Skal sýslum(aður) Skúli Magnússon skyldugur að láta exsecution eftir dómnum forsvaranlega fram fara á þessu lögþingi innan sex daga og áður útvega hönum prest sem undirvísi hönum í hans sáluhjálparefnum.“[8]
Öll dómsskjöl sem lesin voru í yfirréttinum vegna þessa manndrápsmáls eru birt í 4. bindi útgáfu dóma og skjala Yfirréttarins á Íslandi sem Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag standa að. Áætlað er að heildarútgáfa á dómum og skjölum yfirréttarins verði tíu bindi í allt og komi út á næstu sex til sjö árum.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir:
ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744, örk 2.
Alþingisbækur Íslands XII. 1731–1740. Ritstj. Gunnar Sveinsson. Sögufélag. Reykjavík 1971.
Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl IV. 1733–1741. Ritstjórar Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag. Reykjavík 2024, bls. 283–329.
[1] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 309.
[2] Alþingisbækur Íslands XII, bls. 430.
[3] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 294–295.
[4] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 314.
[5] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 315–316.
[6] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 323.
[7] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 326.
[8] Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 329.