Nóvember 2024
Öryggi vegfarenda á þjóðveginum Keflavík – Njarðvík.
Heimild: ÞÍ. Njarðvíkurkaupstaður DE/1-5 - Sjálfskipuð nefnd áhugamanna og félagasamtaka í Njarðvíkurhreppi varðandi umferðarmál á þjóðveginum Keflavík - Njarðvík. Undirskriftalistar í frumriti og eftirprentun. Á listunum eru eiginhandaráritun allra 16 ára og eldri í Njarðvíkurhreppi árið 1958, að tveimur undanskildum.
Mikill uppgangur var í Njarðvík um miðja 20. öld eins og í öðrum byggðakjörnum á Suðurnesjum. Íbúafjöldi jókst mikið með tilkomu starfseminnar sem fylgdi hernum. Árið 1958 voru íbúar Njarðvíkur orðnir 1.228 og hafði fjölgað um 14% á milli ára. Tíu árum áður, árið 1948, voru 496 íbúar í sveitarfélaginu.[1] Með íbúafjölgun fylgdi aukið álag á innviði og til dæmis meiri kröfur um bættar samgöngur. Fram til ársins 1966 voru engar götur í Njarðvík malbikaðar og þjóðvegurinn sem lá í gegnum Ytri-Njarðvík til Keflavíkur og upp á Keflavíkurflugvöll var malarvegur.[2]
Þjóðvegurinn sem um ræðir var hættulegur en á árunum 1954–1958 urðu á honum fjögur banaslys og 27 önnur slys. Þjóðvegurinn, sem var greiðfær malarvegur, lá í gegnum þéttbýli án lýsingar og án gangbrauta eða gangstétta. Vegurinn var fjölfarinn og meiri umferð á honum en á hliðstæðum þjóðvegum á þeim tíma.[3] Svo slæmt var ástandið að íbúar Njarðvíkur sáu sig tilneydda að krefja stjórnvöld um úrbætur. Stofnuð var nefnd sem var ætlað að þrýsta á um að kröfunum yrði framfylgt. Nefnd þessa skipuðu Jón Valdimarsson vélsmiður, Sigurjón Valdimarsson bifreiðastjóri og Jósafat Arngrímsson skrifstofumaður. Þeim innan handar var svo séra Björn Jónsson sem til dæmis aðstoðaði við að undirbúa borgarafund sem haldinn var 17. október 1958.
Meðal þess sem nefndin vann að var að efna til undirskriftasöfnunar meðal íbúa til styrktar kröfunum um bætt umferðaröryggi og að skipuleggja borgarafund um málið þar sem ráðherrum, fulltrúum slysavarnarfélagsins og hreppsnefndarfólki var boðið.
Heimild mánaðarins að þessu sinni er undirskriftalistinn sem var afhentur Njarðvíkurhreppi til að krefjast úrbóta á þjóðveginum Keflavík – Njarðvík – Keflavíkurflugvöllur. Kröfurnar sem settar voru fram á listanum voru alls átta:
1. Götulýsing vegarins Keflavík – Ytri-Njarðvík – Keflavíkurflugvöllur – Innri-Njarðvík, svipað og er milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
2. Göngu- og hjólreiðabraut til hliðar við þjóðveginn.
3. Stór og glögg viðvörunar- og hámarkshraðamerki.
4. Hinn svo nefndi „Turnervegur“ verði lagfærður og vegabréfaafgreiðsla í „Turnerhliði“.
5. Fullkomið lögreglu-umferðareftirlit á þjóðveginum.
6. Malbikun eða aðra fullnægjandi rykbindingu ofangreinds vegarkafla.
7. Sérstaka raflýsingu við biðskýlin í Innri-Njarðvík.
8. Flýta framkvæmdum við hinn fyrirhugaða veg fyrir ofan byggðarlagið, frá hringtorgi við landshafnahús að Hringbraut í Keflavík.
Undirskriftasöfnunin fór fram milli 8. október og 20. október 1958 og skrifuðu alls undir hann 559 Njarðvíkingar sem voru 16 ára eða eldri. Það voru því nærri allir íbúar sveitarfélagsins á þessum aldri, ef undan voru skildir þeir sem ekki voru heima á þessum tíma. Þarna gefur því að líta lista yfir nær alla íbúa hreppsins og rithandarsýnishorn þeirra.
Eins og áður segir átti malbikun í bæjarfélaginu ekki eftir að hefjast fyrr en árið 1966 eða átta árum eftir að undirskriftasöfnunin fór fram en kröfurnar náðu þó eyrum ríkisstjórnarinnar. Á borgarafundinum komu fram meðal annarra þingmenn kjördæmisins Guðmundur Í. Guðmundsson og Ólafur Thors en sá síðarnefndi talaði um að erfitt væri að fá fjárveitingavaldið til að skilja sérstöðu Njarðvíkinga gagnvart öðrum landshlutum. Báðir þingmennirnir lofuðu því þó að reyna að gera sitt besta að fá bætt úr ástandinu sem fyrst.[4]
Það tók þó langan tíma að fá einhverjar úrbætur en árið 1953 var það samþykkt í hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps að fara þess á leit við Samgönguráðuneytið að fá lýsingu á veginn en því var ekki sinnt. Nýr vegur á milli Njarðvíkur og Hafnarfjarðar, sem var malbikaður alla leið, var opnaður í október 1965 en þrátt fyrir nýja veginn var slysahættan enn til staðar og akstur hraður á veginum. Flest slysin voru í og við þéttbýlisstaðina Njarðvík og Hafnarfjörð. Sex árum eftir borgarafundinn hafði þó náðst fram aukin löggæsla við veginn og á svipuðum tíma var komið upp ófullkominni lýsingu en slysahættan minnkaði þó ekki fyrr en aðalvegurinn upp á Flugstöð Leifs Eiríkssonar var lagður þegar flugstöðin var opnuð árið 1987.[5]
Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta.
Heimildir:
- Ásgeir Einarsson, „Borgarafundur í Ytri-Njarðvík“ Faxi 9. tbl., XVIII ár, bls. 137, 139.
- Kristján Sveinsson, Saga Njarðvíkur bls. 327 – 328, Reykjavik, 1996.
[1] Kristján Sveinsson. Saga Njarðvíkur bls. 243.
[2] Kristján Sveinsson. Saga Njarðvíkur bls. 326 – 327.
[3] Faxi 1.11.1958, bls. 137.
[4] Faxi 1.11.1958, bls. 137.
[5] Kristján Sveinsson. Saga Njarðvíkur bls. 327-328.