Heimild mánaðarins

Apríl 2025

Orðatiltæki og málshættir frá 18. öld

Um þessar mundir leggur 5. bindi Yfirréttarins af stað í prentsmiðju. Það kemur út með formlegum hætti næsta haust og er þá útgáfuröðin, sem telja mun 10 bindi, hálfnuð. Yfirrétturinn var æðsti innlendi áfrýjunardómstóll Íslendinga frá 1563–1800 en elstu varðveittu skjöl hans eru frá árinu 1690. Útgáfan er unnin í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags með styrk frá Alþingi og með henni opnast aðgangur að ríkulegum heimildabrunni um íslenskt samfélag á 18. öld. Jafnframt veita þessar heimildir áhugaverða sýn á íslenska tungu fyrr á tímum.

Þar sem nú er upp runninn mánuður páskaeggjanna er ekki úr vegi að taka saman nokkra eftirminnilega málshætti og orðatiltæki sem birst hafa í útgáfuröðinni og gætu kannski (en sumir þó ólíklega) komið innan úr páskaegginu í ár.

Málshættir

Nú er kominn köttur í bjarnarstað.
(„Það má segjast um mig sem máltækið hljóðar, að nú sé kominn köttur í bjarnastað.“ Jón Gunnarsson, hreppstjóri,1732, Yfirrétturinn IV)

Ekki eru allir í katlinum sem kræktir eru.
(„... það eru sannmæli að þeir eru ekki allir í katlinum sem kræktir eru.“ Eyvindur Jónsson, klausturhaldari, 1737, Yfirrétturinn IV)

Séð hefi ég soddan salt, þó ekki hafi ég étið það allt.
(„og hafi Ásmundur svarað að sig hefði dreymt Guðmund er sér hefði samferða orðið og talað þess háttar orðum að séð hefði hann soddan salt, þó ei hefði hann etið það allt, ei skyldi einn drengur hræða sig.“ Ásmundur Þórðarson, vinnumaður, 1738, Yfirrétturinn IV)

Fýsir augu illt að sjá og eyru að heyra.
(„Þegar sá síðari maðurinn hafi tilkomið segir Einar að Björn hafi sagt við sig: „Eru þeir farnir að fljúgast á?“ Það segir Einar sér sýnst hafi einninn og hafi tilsvarað: „Fýsir augun illt að sjá og skal ég ríða heim.“ Björn hafi svarað: „Ei er hægt að ríða, okkur gengur seint.““ Einar Erlendsson, bóndi, 1740, Yfirrétturinn V)

Hvort er betri brúnn eða rauður?
(„Hvört er nú betri brúnn eða rauður?“ Jóhann Kristófer Gottrup, sýslumaður, 1743, Yfirrétturinn V)

Hátíð er til heilla best.
(„Þetta skeði 6ta Junij 1740 sem þá var þess árs annar hvítasunnudagur. (Hátíð er til heilla best.) Þar valdi hann fyrrtéðan Árna Ólafsson og heimilisvinnumann sinn, Bjarna Ófeigsson, báða ólesandi og óskrifandi, hvörja hann krýndi strax til justitssecreterer. En son sinn, 12 vetra gamlan, fyrir justitiarium að þeim seðli sem hann þá dikteraði og lét skrifa upp á kerlinguna.“ Jóhann Kristófer Gottrup, sýslumaður, 1743, Yfirrétturinn V)

Í salti liggur sök ef sækjendur duga.
(„Minn kontrapartur segir: „Í salti liggur sök, ef sækjendur duga.“ Þar hefur enginn maður um 84 ár sókt eftir þessari kirkjuskuld. Ég spyr: Hvörjum er þar um að kenna?“ Þorsteinn Pálsson, lögréttumaður, 1745, Yfirrétturinn V)

Orðatiltæki og myndlíkingar

Að plokka jurtir úr brenndu grjóti.
(„En ... [það] tókst hönum eins og að plokka jurtir úr brenndu grjóti.“ Ormur Daðason sýslumaður, 1724, Yfirrétturinn III)


Að taka til óspilltra mála.
(„Þess vegna, fyrir taldar orðsakir, er þessi réttur uppsettur til morguns og þá ásett að taka til óspilltra mála, en vitnunum öllum hingað kölluðum er tilsagt að mæta um fullbirtu á morgun, …“ Ormur Daðason, sýslumaður, 1732, Yfirrétturinn IV)

Að vera sem eldneisti eða ryk í lofti.
(„... heldur bar honum að bjóða vinsamlega foreining og að líða nokkuð með guðsbörnum, en ekki á fyrsta augnabliki að vera sem eldneisti eður ryk í lofti.“ Bjarni Nikulásson sýslumaður, 1738, Yfirrétturinn IV)

Að halda dúk og disk.
(„Framanskrifuð réttarstefna var upplesin Elíni Jónsdóttir áheyrandi og henni kopía afhent að Glaumbæ í Skagafirði, hvar hún hélt dúk og disk.“ Jón Illugason, bóndi, 1741. Yfirrétturinn V)

Að stinga einhverju undir stól.
(„Hverju skrifi sýslumaðurinn Skúli hefur uppástaðið að sýslumaðurinn Bjarni hafi undir stól stungið, eftir auglýsingu hreppstjórans Gísla Jónssonar af 29da Aprilis, sem með það sama var til Bólstaðahlíðarþings sendur.“ Ormur Daðason, sýslumaður, 1741, Yfirrétturinn V)

Að klóast sem andhverfir (öndverðir) ernir.
(„ … en gjörast sjálfur nokkurs konar meðal til að upphissa föður sinn mér í móti, svo við skyldum upp á nýtt sem andhverfir ernir klóast.“ Ormur Daðason, sýslumaður, 1742, Yfirrétturinn V)

Reikningar sem fallast í faðma á báðar síður.
(„Er því vor samningur og liqvidatis svoleiðis að reikningarnir bæði portionsskuldarinnar og uppákostnaðarins um tiltekinn tíma og til 1741 fallist í faðma á báðar síður, svo að Stóra-Laugardalskirkja hefur engar skuldir framar að heimta hjá Þorsteini Pálssyni, ekki heldur hann hjá henni.“ Ólafur Gíslason, biskup, 1750, Yfirrétturinn V)

Höfundur texta er Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.

Heimildir:

Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl III–IV. Ritstj. Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Reykjavík 2023–2024.

Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl
V. Ritstj. Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Væntanlegt 2025.