Heimild mánaðarins

Júlí 2024

Upplýsingaöflun um eyðijarðir við gerð jarðabókar Árna og Páls 1702-1714

ÞÍ. AM Dipl. Isl. fasc. I, 1. Vottfest uppskrift frá 7. júlí 1461 þar sem séra Jón Þórðarson fær séra Halldóri Loftssyni jörðina Grísará og hálft Nýlendi til fullrar eignar.

Í jarðabók hinna konunglegu erindreka Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem tekin var saman á árunum 1702–1714, var hverri jörð á landinu öllu lýst nákvæmlega og gefur þetta heimildasafn okkur gífurlegar upplýsingar um hag þjóðarinnar á þessum tíma. Því miður er skarð í jarðabókina en þau bindi hennar sem fjölluðu um Múla- og Skaftafellssýslur glötuðust í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn árið 1728.

     Pétur Sigurðsson háskólaritari lýsti gerð jarðabókarinnar með eftirfarandi hætti:

Jarðabókin var þannig gerð, að nefndarmenn báðir eða annar, en í sumum sýslum umboðsmenn þeirra, ferðuðust um og stefndu almúganum til fundar. Í sumum hreppum var öllum hreppsbúum stefnt á þingstaðinn, en stórum hreppum var skipt í tvennt eða smærra. Komu bændur svo hver af öðrum fram fyrir nefndarmenn og skýrðu frá öllu því, sem jörðina varðaði, hver fyrir sína ábýlisjörð; var það allt ritað jafnóðum, venjulega þó sem uppkast, en hreinritað síðar, og skrifuðu þá nokkrir helztu bændur undir sem vitundarvottar.
Það hefur verið fundið að því að það rýri heimildargildi jarðabókarinnar að upplýsingar sem þar koma fram séu skráðar eftir bændum en ekki hafi verið riðið á hverja jörð fyrir sig og hún tekin út sérstaklega. En benda má á að þeir Árni og Páll höfðu ýmis hjálpargögn í höndunum við gerð jarðabókarinnar. Þannig bar jarðeigendum að senda þeim eignarheimildir fyrir jörðum sínum en það voru einkum kaupbréf þar sem meðal annars kom fram dýrleiki jarðanna. Þá höfðu þeir eldri jarðabækur til þess að styðjast við en Árni fékk að láni sjö jarðabækur úr rentukammeri þann 29. maí 1702, skömmu áður en hann lét í haf með vorskipum til Íslands. Loks voru allir hreppsbúar boðaðir á þessa fundi en þar á meðal voru helstu bændur og hreppstjórar sveitarinnar sem best þekktu kosti og galla hverrar jarðar fyrir sig. Auk þess þurftu klausturhaldarar að mæta og þeir sem héldu jarðaumboð en þeir sáu um að leigja konungsjarðir út til leiguliða líkt og umboðsmenn jarða biskupsstólanna.
 
Árni og Páll áttu hins vegar ekki aðeins að safna upplýsingum um þær jarðir sem voru í byggð. Í erindisbréfi konungs til erindrekanna, frá 22. maí 1702, kemur sérstaklega fram í 1. málsgrein að: „De paa Landet sig befindende Ödegaarder skulle iligemaade paa hver Sted udi Jordebogen vorde specifice indfört og derhos noterit, naar og af hvad Aarsag de ere bleven öde, og om de, og paa hvad Maade, kunde hjelpis, at de igjen kunde vorde besat.“ Þeir áttu sem sagt einnig að skrá eyðijarðir, grennslast fyrir um hvenær og hvers vegna þær fóru í eyði og hvað þyrfti til þess að þær byggðust á ný.
 
Hreppstjórar hafa eflaust ekki átt í miklum erfiðleikum með að tíunda þær jarðir sem höfðu farið í eyði í kjölfar hins geysimikla harðindakafla áranna 1696–1702. En til þess að fá sem áreiðanlegastar upplýsingar um eldri eyðibýli og bæjarrústir mun sjálfsagt hafa þurft að leita í smiðju til elstu íbúa hvers hrepps fyrir sig.
 
Hvernig þetta hefur farið fram má ráða af skjali úr fórum Páls Vídalíns lögmanns en upplýsingarnar sem þar koma fram hafa ekki ratað inn í jarðabók Árnessýslu. Að loknu alþingi sumarið 1712 setti Páll þing að Bakkárholti í Ölfusi þann 10. ágúst. Þangað hafði hann stefnt öllum almúga í þingsókninni og er sérstaklega tiltekið að nokkra hafi vantað. Lögmaður kvaddi alla sem mættir voru til vitnis um það sem fara mundi fram á þinginu og útnefndi sjö menn sérstaklega til þess að votta það skriflega. Það er til þess að skrifa undir þingsaktinn. Þessir menn voru: Þorgeir Jónsson spítalahaldari á Klausturhólum sem hafði áður verið eiðsvarinn lögréttumaður, Jón Hjörtsson lögréttumaður í Árnesþingi, Þorsteinn Jónsson hreppstjóri í Þorlákshöfn, Brynjólfur Jónsson fyrrum yfirbryti í Skálholti en þá innheimtumaður biskupstíunda í Árnesþingi, Gísli Jónsson í Þorlákshöfn, Eyvindur Oddsson að Núpum og Jón Þórðarson hreppstjóra í Bakkárholti.
 
Páll lögmaður lagði tvær spurningar fyrir þingsóknina: Sú fyrri var hvort menn vissu til þess að jarðirnar í Ölfusi sem nú væru kallaðar Þurrár hafi að fornu verið kallaðar Þóroddsár ytri og eystri. Þeir sem líklegastir þóttu til þess að vita eitthvað um málið svöruðu því til að þeir hefðu heyrt slík munnmæli. Tveir frómir menn, Þorsteinn Vernharðsson sem árið 1708 bjó í Riftúni sem var byggt út úr Þórustöðum/Þóroddsstöðum og Brandur Pálsson sem bjó árið 1708 á Hlíðarenda, upplýstu að þeir hefðu heyrt eftir óskýrum munnmælum að fyrrnefndar jarðir, sem nú væru kallaðar Þurrár, hefðu til forna verið kallaðar Þóroddsár, Þórirsár eða Þórsár. Öll þingsóknin var hins vegar sammála um það að samkvæmt þessum jarðanöfnum þá væri engra annarra jarða að leita þar í byggðinni en þeirra sem nú væru kallaðar Ytri-Þurrá og Eystri-Þurrá.
 
Seinni spurningin varðaði það hvort nokkur vissi hvar jörðin Steinröðarstaðir hafi verið til forna. Páll tiltók að líklegast væri hennar að leita einhvers staðar í Grafningi eða í byggðinni við sunnanvert Þingvallavatn. Enginn steig fram til að svara en flestir töldu líklegast að þeir hafi verið einhvers staðar í Nesjalandi þar sem sjá mætti merki um byggðaleifar en töldu þetta reyndar aðeins tilgátu og vissu ekkert um málið fyrir víst. Gísli Jónsson í Þorlákshöfn sagðist hafa heyrt munnmæli þess efnis að í fyrndinni hafi jörð verið uppi á fjallinu þar sem lönd Ölfusvatns í Grafningi og Reykja í Ölfusi lægju saman. Hann sagði þó að engin rök byggju að baki munnmælunum, hvorki byggðaleifar né jarðarnafn. Það var að endingu sameiginleg niðurstaða þingsóknarinnar að enginn vissi neitt fyrir víst um hvar Steinröðarstaðir hafi legið til forna. Hins vegar var víst að ekkert eyðiland væri í byggðinni sem ekki væri þegar eignað ákveðnum jörðum, annað hvort sem afréttur sveitarinnar eða eignarland jarða.
 
Það sem vekur athygli við þessa eftirgrennslan Páls er að hann skuli spyrja þingsóknarmenn út í þessi fornu jarðanöfn en upplýsingarnar komu ekki frá þeim að fyrra bragði. Hvaðan hafa erindrekarnir fengið upplýsingar um þessi fornu jarðanöfn? Í fyrra tilvikinu hefur það staðið út af í samanburði við eldri jarðabækur sem þeir höfðu í höndunum en jarðabókin yfir Ölfussveit, eða Grafning og Ölfus, var tekin saman árin 1706 og 1708. Seinna tilvikið má hins vegar rekja til fræðimennsku Árna Magnússonar. Í Landnámu segir: „Steinröður Melpatreksson, göfugs manns af Írlandi, hann var leysingi Þorgríms bílds; hann átti dóttur Þorgríms og var allra manna vænstur; hann nam öll Vatnslönd og bjó á Steinröðsstöðum.“ Í skýringum í útgáfu Fornritafélagsins kemur fram að Steinröðarstaðir séu ókunnir en Vatnslönd séu eflaust löndin suðvestan Þingvallavatns til móts við landnám Hrolleifs Einarssonar. Árni hefur haft áhuga á þessu og talið reynandi að sækja óskjalfestar upplýsingar um legu Steinröðarstaða í minni hreppsbúa.
 
Annað dæmi má nefna vegna skjals sem er komið úr Árnasafni en var afhent Þjóðskjalasafni í Dönsku sendingunni árið 1928. Lokið var við gerð jarðabókar yfir Hrafnagilshrepp í Eyjafjarðarsýslu 21.–23. september 1712. Þar liggja jarðirnar Grísará og Hrafnagil saman og í lok færslunnar um síðarnefndu jörðina er spurt út í býlið Nýlendi og það sagt hafa verið utarlega í landi Hrafnagils. Hreppsbúar voru sammála um að þeir vissu ekki til þess að þar hafi nokkurn tíma verið jörð eða hjáleiga enda engar girðingar þar að sjá auk þess sem enginn hefði búið þar í manna minnum. Fram kom að staðarhaldarinn á Hrafnagili léði kirkjujörðinni Grísará umrætt landsvæði undir stekkjarstæði. Menn töldu hins vegar ómögulegt að hægt yrði að byggja þar aftur og því til staðfestingar voru talin landþröng og heyskaparleysi. Upplýsingar um Nýlendi mun Árni hvorki hafa fundið í fornritum né eldri jarðabókum. Eins og kunnugt er safnaði hann bæði handritum og skjölum. Ef hann gat ekki eignast frumbréf á skinni sem hann komst í tæri við þá lét hann skrifara sína skrifa upp bréfin handa sér. Þessar fornbréfauppskriftir ganga undir heitinu apógröf Árna Magnússonar. En upplýsingar um Nýlendi hefur Árni fengið úr frumbréfasafni sínu, nánar tiltekið í vottfestri uppskrift (transskrift) á skinni sem gerð var 7. júlí 1461. Þar skrifa tveir menn upp bréf frá 7. september 1400 um jarðakaup þar sem séra Jón Þórðarson fær séra Halldóri Loftssyni til fullrar eignar jörðina Grísará og hálft Nýlendi í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Einhvern tímann á árabilinu 1400–1712 mun Nýlendi svo hafa lagst í eyði, öll ummerki um byggð sokkið í jörð og minningin um byggð þar gleymst.
 
Af framangreindum dæmum má sjá að við gerð jarðabókarinnar hefur Árni Magnússon ekki einungis farið í gegnum eldri jarðabækur í leit að fornbýlum og eyðijörðum heldur einnig forn rit og skjöl sem hann safnaði af brennandi áhuga í tengslum við fræðastarfsemi sína. Þær upplýsingar sem hann aflaði þar nýtti hann svo við gerð jarðabókarinnar og þótti reynandi að seilast eftir staðfestingu á legu þeirra í minni þingsóknarmanna. Stundum var þó svo langt liðið frá því að jarðir höfðu lagst í eyði að jafnvel elstu menn mundu ekki eftir því.
 
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta

 

Heimildir:

Arne Magnusson. Embedsskrivelser og andre offenlige aktstykker. Udgivet af Kr. Kålund. København 1916, bls. 19–20.

Björn Lárusson, The old Icelandic land registers. Lund 1967, bls. 118.

Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn III, 1269–1415. Kaupmannahöfn 1896, bls. 654–655.

Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn V, 1330–1476. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1899–1902, bls. 234–235.

Eiríkur Þormóðsson, „Byggð í Þistilfirði“, Saga X (1972), bls. 92–133, hér bls. 95–96.

Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Íslenzk fornrit I. Reykjavík 1986, bls. 389 (bein tilvitnun færð til nútíðarhorfs), 390.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns II. Kaupmannahöfn 1918–1921, bls. 376, 421–423, 442.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns X. Kaupmannahöfn 1943, bls. 202, 217219, 221, 230.

Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson bjó til prentunar. Kaupmannahöfn 1993, bls. lvii–lix.

Lovsamling for Island, indeholdende udvalg af de vigtigste ældre og nyere love og anordninger, resolutioner, instructioner og reglementer, althingsdomme og vedtægter, collegial-breve, fundatser og gavebreve, samt andre aktstykker, til oplysning om Islands retsforhold og administration i ældre og nyere tider I, 1096–1720. Samlet og udgivet af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Kjöbenhavn 1853, bls. 585.

Pétur Sigurðsson, „Um Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns“, Skírnir CXIX (1945), bls. 204–218, hér bls. 207–208.

Sveinbjörn Rafnsson, Studier i Landnámabók. Kritiska bidrag till den isländska fristatstidens historia. Lund 1974, bls. 39–42.

Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl II, 17111715. Ritstjórar Gísli Baldur Róbertsson og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Reykjavík 2021, bls. 518–519.