Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 og var æðsta dómstig innanlands af þremur: hérað, Alþingi og Yfirréttur. Dómum Yfirréttar var síðan hægt að áfrýja til Hæstaréttar í Danmörku. Yfirrétturinn var lagður niður þegar Alþingi var lagt niður árið 1800 og Landsyfirréttur stofnaður. Þá fækkaði dómstigum í landinu úr fjórum í þrjú. Elsti varðveitti dómur Yfirréttarins er frá árinu 1690.
Þjóðskjalasafn Íslands hefur hleypt af stokkunum viðamiklu útgáfuverkefni í samstarfi við Alþingi og Sögufélag, sem er heildarútgáfa á skjölum og dómum Yfirréttarins á Íslandi. Fræðileg vinna við uppskriftir og frágang alls texta, auk annarrar vinnu sem tengist undirbúningi útgáfunnar, hefur verið í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafnsins.
Fyrsta bindi ritraðarinnar kom út árið 2011 og í því birtust skjöl frá Yfirréttinum 1690–1710. Árið 2019 ákvað Alþingi að styrkja áframhaldandi útgáfu í tilefni aldarafmælis Hæstaréttar Íslands árið 2020. Útgáfuverkefnið er til tíu ára og bindin verða alls tíu talsins með öllum varðveittum dómum og skjölum Yfirréttarins og aukalögþinga. Útgáfan er unnin í samstarfi við Sögufélag. Ritstjórar eru Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.
Skjöl Yfirréttarins eru afar merkar heimildir um mannlíf og samfélag á Íslandi á því tímabili sem hann starfaði, bæði um sögu Yfirréttarins sjálfs og réttarfars í landinu. Þau eru heimild um fólkið sem kom fyrir réttinn og sagði frá lífi sínu og kjörum. Þau varpa einnig mikilvægu ljósi á dóma og dómaframkvæmd á Íslandi. Útgáfan mun auka til muna aðgengi að þessum áhugaverðu heimildum.
Út eru komin fimm bindi og það sjötta væntanlegt á árinu 2026.


Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl IV. 1733–1741
Í þessu fjórða bindi útgáfu dóma og skjala yfirréttarins birtast dómar áranna 1733–1741. Málin sem komu fyrir réttinn voru að venju af ýmsum toga en undirliggjandi í mörgum þeirra eru ásakanir um afglöp eða yfirgang sýslumanna í starfi. Í sumum tilfellum lá áralöng óvild að baki málaferlunum en stundum reið ógæfan yfir fyrirvaralaust, líkt og í manndrápsmáli Ásmundar Þórðarsonar úr Skagafjarðarsýslu. Stjúpfaðir og stjúpdóttir voru sótt til saka fyrir barneignarbrot í Dalasýslu, virtur maður í Húnavatnssýslu hafðist sumarlangt við í skemmu eftir að hafa verið meinað um ábúð á eignarjörð sinni og annar ungur maður í sömu sýslu var gerður arflaus fyrir leti. Áfrýjunarferli margra þessara dómsmála til Yfirréttarins var óhefðbundin og starfssemi réttarins tók ýmsum breytingum á þessum árum. Alþingi styrkti útgáfuna.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl III. 1716–1732
Í þessu þriðja bindi útgáfu dóma og skjala yfirréttarins birtast dómar áranna 1716–1732. Mál sem komu fyrir dóminn voru margvísleg. Tvær konur voru sakaðar um að deyða börn sín í fæðingu og dæmdar til dauða. Sækja varð um náðun til konungs til að þyrma lífi þeirra. Snæbjörn Pálsson uppnefndi kaupmanninn í Dýrafirði Lúsa-Pétur sem dró mikinn dilk á eftir sér og deilur Odds Sigurðssonar lögmanns við aðra embættismenn héldu áfram en nú varð hann að láta í minni pokann. Auk þess birtast hér ásakanir um falskt þingsvitni og embættismissir sýslumanns, deilur um reka, þjófnaðarmál og drykkjulæti í kirkju. Yfirrétturinn á Íslandi var æðsta dómstig innanlands á tímabilinu 1563–1800. Alþingi styrkti útgáfuna.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl II. 1711–1715
Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 og var æðsta dómsstig innanlands. Í þessu öðru bindi útgáfu dóma og skjala yfirréttarins birtast dómar áranna 1711–1715. Stór hluti skjalanna tengist rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál, deilt er um málsmeðferð, krafist embættismissis Páls Vídalíns, Oddur Sigurðsson varalögmaður er ákærður vegna framkomu hans við biskup í eftirlitsferð hans og dregnir fram athyglisverðir vitnisburðir um framferði Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups á alþingi árið 1713. Mannanafna-, staðanafna- og atriðisorðaskrár. Alþingi styrkti útgáfuna.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl I. 1690–1710
Yfirrétturinn á Íslandi var starfandi á árunum 1563-1800. Stefnt er að því að gefa út heildarsafn varðveittra gagna frá yfirrétti og aukalögþingum, en þau skjöl eru raunar hluti af sögu Alþingis hins forna. Áætlað er að þetta heildarsafn varðveittra gagna frá yfirréttinum komi út í átta bindum á næstu árum. Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittir dómar og allmikið af málsskjölum yfirréttarins, sem bregða ljósi á stjórnsýslu, réttarfar og líf almennings á Íslandi á 18. öld. Einnig er nokkuð um málsskjöl í safni Árna Magnússonar frá málum sem hann og Páll Vídalín áttu að rannsaka og dæma í. Dómar þeirra flestir komu fyrir yfirrétt, svo sem í máli Jóns Hreggviðssonar. Einnig eru málsskjöl í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Í þessu fyrsta bindi verksins er fræðileg ritgerð eftir Björk Ingimundardóttur um sögu og starfsemi yfirréttarins, auk yfirlits yfir mál sem líklega hafa farið fyrir yfirrétt, en dómar og málsskjöl eldri en frá árinu 1690, og óyggjandi má telja upprunnin frá yfirrétti, hafa ekki varðveist. Fjöldi mynda af skjölum, innsiglum og undirskriftum eru birt í ritinu, auk nokkurra teikninga frá Þingvöllum frá fyrri öldum. Allmörg skjöl eru birt sem varpa ljósi á stofnun og starfsemi yfirréttarins. Megintexti bókarinnar er síðan dómar og málsskjöl frá árunum 1690-1710. Í viðauka eru birt ýmis skjöl sem bregða ljósi á málsatvik einstakra dóma og mála sem fyrir réttinn komu.
Fræðileg vinna við uppskriftir og frágang alls texta, auk annarrar vinnu sem tengist undirbúningi útgáfunnar, hefur verið í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafnsins. Í ritstjórn, sem skipuð var 2008, sitja fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands Hrefna Róbertsdóttir sem fer fyrir nefndinni og Eiríkur G. Guðmundsson, og fyrir hönd Sögufélags Anna Agnarsdóttir og Már Jónsson.