Árið 1742 kom fyrir Yfirréttinn á Íslandi dómsmál sem þekkt er undir nafninu Hrakningsmál Elínar Jónsdóttur. Upptök málsins voru þau að seint í júní 1739 fór Sigríður Einarsdóttir, ábúandi í Kálfárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi í Húnavatnssýslu, yfir í Seyluhrepp í leit að vinnukonu og komst að samkomulagi við konu að nafni Elín Jónsdóttir. Þó Bólstaðarhlíðarhreppur og Seyluhreppur væru nágrannasveitir voru hrepparnir tveir hins vegar í sitthvorri sýslunni, sá fyrri í Húnavatnssýslu en sá seinni í Skagafjarðarsýslu.
Eftir að Elín var flutt í Kálfárdal varð hún barnshafandi eftir vinnumann á öðrum bæ í Húnavatnssýslu. Þann 28. apríl 1740 var Elín dæmd til að yfirgefa Húnavatnssýslu sem óvinnufær flakkari á manntalsþingi að Bólstaðarhlíð af sýslumanninum Bjarna Halldórssyni. Áður hafði héraðsprófasturinn Björn Magnússon undirritað skjal þann 9. febrúar 1740 þess efnis að Elín yrði ekki liðin í sókn hans og sýslumaðurinn Bjarni hafði gefið út vottorð þann 12. mars 1740 um að Elín væri lausgangari sem hefði oftlega verið fundin að lauslæti og óknyttum og yrði ekki leyfð í sýslunni.
Íbúar Seyluhrepps brugðust ókvæða við því sem þeir álitu brot á vistráðningu og tilraun til þess að láta hreppinn framfleyta barni sem ætti að hafa sveitarfesti í Bólstaðarhlíðarhreppi og fluttu Elínu aftur í Kálfárdal. Tvö héraðsþing voru haldin að Seylu í Skagafjarðarsýslu um mál Elínar, þann 4. apríl 1740 og 21. apríl 1741. Á þinginu árið 1741 kom fram að Elín hafði verið flutt fimm sinnum yfir mörk hreppanna tveggja áður en hún átti barnið.
Skjölum og vitnum Húnvetninga og Skagfirðinga ber ekki saman um vistarráðningu Elínar og vinnugetu en þær ólíku lýsingar á Elínu sem er að finna í skjölunum veita áhugaverða innsýn í líf og kjör vinnukonu á 18. öld sem hafði svo skerta sjón að segja má að hún hafi lifað með fötlun.
Úr manntalsþingi að Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu, 28. apríl 1740:
Var oftnefnd Elín framvegis aðspurð, hvört hún hafi nokkurs staðar vistföst verið hið fyrra árið frá vorkrossmessu 1738 til vorkrossmessu 1739. Svarar hún „nei“, heldur segist hún það ár hafa bjargað sér á ýmsum bæjum eftir því sem sérhver hafi lofað sér að vera. Framvegis með því þessi Elín kom í þetta hérað, svo að hún framvísaði ekkert attest eður skilríki um hegðan sína, var hún nú aðspurð fyrir réttinum, hvört hún væri í öngvum sökum í Hegranessýslu [=Skagafjarðarsýslu] eða annars staðar, hvörju hún neitar. Einasta segist hún hafa brotleg orðið þar í Skagafirði að barneignum, tveimur í frillulífi og þriðja í hórdómi, hvar fyrir hún segist kvittun fengið hafa af andlegu og veraldlegu yfirvaldi. Því næst, aðspurð um heilsufar hennar og vinnubrögð, framber að hún sé sjóndöpur, svo hún geti hvorki hey rakað né sætt að skaðlausu, ei heldur vefnað gjört, hvað hún og aldrei lært hafi, né heldur pening eður hesta sókt eður tún vaktað svo óhult sé, ei heldur nokkurn hlut saumað að gagni.
Frá héraðsþingi að Seylu í Skagafjarðarsýslu, 4. apríl 1740:
Það reiknast saman fyrir sannferðuga þingmanna undirréttingu að Elín þessi Jónsdóttir hafi alla jafna í vist þjónað hér í Skagafirði um næstliðin tuttugu ár, síðan hún var fjórtán vetra, fyrir og móti siðvenjulegum vinnukonuskyldum, og bera húsbændur hennar nokkrir hér og fyrir réttinum nálægir henni fróman og ærlegan vitnisburð upp á sína þjónustu og frómleika. Einninn að hún geti alla vinnu unnið sem almennt gengur fólks á milli, nema vakta fé og taka grös vegna sjóndepri, og sé nær karlmanns ígildi til stritverka, nema eitt ár, á hvörju Elín ól sitt síðasta barn, er skeði öndverðlega sumars. Þá hafi ei Elín í vist þjónað, þó hafi hún ei lausgangari verið, heldur haft aðsetur sitt um veturinn og frá því hún barnið ól á Kirkjuhóli.
Lesa má málsskjölin í Hrakningsmáli Elínar í heild sinni í Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl V. bindi 1742–1746 sem er nýkominn út á vegum Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags, með styrk frá Alþingi.
Höfundur: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Heimildir:
ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744, örk 5.
Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl V. 1742–1746. Ritstj. Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Reykjavík 2025.