„Í þriðju grein kom þar og fram fyrir oss máldagi úr Reykholti oss ólesanlegur. Því kunnum vér eigi eftir honum að dæma.“
Dómarar í tylftardómi á Öxarárþingi komust svo að orði árið 1562 þegar ágreiningsmál milli umboðsmanna Reykholtskirkju og Kirkjubólskirkju í Langadal um eignarhald á tveimur jörðum norður á Ströndum var tekið til dóms. Máldaginn ólesanlegi sem um ræðir er enginn annar en hinn gamli Reykholtsmáldagi sem í dag þykir eitt merkilegasta skjal sem varðveist hefur frá miðöldum. Í þessum dómi frá 1562 er máldagans fyrst getið og ljóst að Reykhyltingar hafa dregið hann fram úr fórum sínum, máli sínu til stuðnings. Ekkert spyrst svo til máldagans fyrr en rúmum 80 árum síðar, þegar Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup kemur í vísitasíu í Reykholt árið 1647. Brynjólfur biskup áttaði sig þegar á mikilvægi máldagans og mat elsta hluta hans svo gildan „sem innsiglað bréf“. Séra Jón Böðvarsson, staðarhaldari í Reykholti, lofaði biskupi að láta skrifa orðrétt upp það af máldaganum „er læst væri“. Var það og gert og fært inn fremst í skjalabók Reykholtskirkju. Enn þótti máldaginn torlesinn og var miðbikinu og niðurlagi sleppt í uppskriftinni. Það var svo ekki fyrr en Árni Magnússon fékk máldagann í hendur að hann var lesinn til hlítar og stafrétt afskrift af honum staðfest í Skálholti hinn 1. júlí 1703.
Máldagi er skrá yfir eignir, ítök og réttindi kirkju. Samkvæmt Kristinna laga þætti Grágásar, sem lögtekinn var einhvern tímann á árunum 1122-1133, var sú skylda lögð á herðar kirkjuhaldara að láta gera skrá yfir eignir kirkjunnar og lesa upp árlega við fjölmennustu messu ársins. Um hagsmunamál var að ræða fyrir kirkjuhaldara og biskupa, að nákvæm skrá væri haldin yfir gjafir og aðrar eignir sem kirkjunni áskotnaðist. Þannig var tryggt að ekkert gengi undan. Þegar biskupar vísiteruðu kirkjur landsins létu þeir gera eða uppfæra eigið eintak af máldaga viðkomandi kirkju. Í mörgum tilvikum eru það máldagaeintök biskupa sem hafa varðveist frá miðöldum og síðmiðöldum en eintak kirkjunnar er glatað.
Reykholtsmáldagi er á hinn bóginn einstakur í sinni röð þar sem um kirkjueintak er að ræða. Hann er elsta skjal sem ritað er á íslensku sem varðveitt er í frumriti.
Við fyrstu sýn lætur Reykholtsmáldagi lítið yfir sér. Hann er aðeins eitt blað, þéttskrifað öðru megin en nánast autt hinum megin. Upphaflega hefur blaðið verið hluti af stærra handriti, hugsanlega messusöngbók, hómilíubók eða grallara, og máldaginn færður á autt blað sem hefur verið fremst eða aftast í handritinu. Ekki er vitað um afdrif handritsins en ekki er ólíklegt að það hafi farið forgörðum í umrótinu í kjölfar siðaskiptanna um miðja 16. öld. Á máldaganum má greina sjö rithendur og í ríflega öld hefur upplýsingum um eignir Reykholtskirkju verið bætt við hann.
Elsti hluti máldagans er ritaður á síðari hluta 12. aldar og má færa rök fyrir því að hann sé upphaflega ritaður nær miðri öldinni en aldamótunum 1200. Um er að ræða fyrstu 14 línur máldagans sem hefst með orðunum: „Til kirkju liggur í Reykjaholti heimaland með öllum landsnytjum“ og endar með klausunni: „Þar fylgir og skógur í Þverárhlíð að viða til sels. Torfskurður í Steinþórsstaðaland. Sáldssæði niður fært.“
Þetta er auðlesanlegasti hluti máldagans og sá sem Brynjólfur biskup taldi vera eignarheimild á við innsiglað bréf. Fyrsta viðbótin við frumtextann er rituð á árunum 1204–1208 þegar Snorri Sturluson fékk heimildir á staðnum og tók við forráðum í Reykholti. Viðbótin er álíka löng og frumtextinn, nær frá línu 14–29 og þar koma fram ítarlegar upplýsingar um kirkjuskrúða, svo sem að Magnús og Hallfríður, fráfarandi staðarhaldari og eiginkona hans, hafi gefið kirkjunni róðukross og „líkneski þau er standa yfir altara ...“ og að Magnús og Snorri hafi gefið kirkjunni skrín með helgum dómum. Næsta viðbót er færð til bókar á árunum 1224–1241 í línur 29–32 og fjallar að mestu um kirkjuklukkur sem staðnum hafði áskotnast, m.a. tvær klukkur sem Snorri Sturluson og Hallveig Ormsdóttir, seinni eiginkona hans, gáfu. Niðurlag textans á framhlið blaðsins, þ.e. línur 32–36, er svo frá því um 1300 þar sem gerð er grein fyrir rekaítökum og jarðeign norður á Ströndum. Á milli 14. og 15. línu er innskotssetning sem líklega er frá því um 1242–1247 og á baksíðunni er upptalning á þeim dýrlingum sem kirkjan er helguð ásamt minnisgrein um kálfskinn sem kirkjunni hefur áskotnast. Textinn um dýrlingana er talinn vera frá síðari hluta 13. aldar og minnisgreinarnar um kálfskinnin frá um 1224–1241.
Tiltölulega fá skjöl eru varðveitt í frumriti frá 12. öld og fyrri hluta 13. aldar á Íslandi. Stærstur hluti þeirra texta sem rekja má til tímabilsins eru aðeins varðveittir í yngri afskriftum. Sú staðreynd ein og sér gerir Reykholtsmáldaga einstakan í sinni röð. Máldaginn varpar skýru ljósi á þróun staðarins í Reykholti og hvernig vegur hans jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á Sturlungaöld. Að auki veitir máldaginn innsýn í hvernig kirkjumáldagar þróuðust á mikilvægum mótunarárum íslensku kirkjunnar sem stofnunar og dregur vel fram muninn á kirkjumáldögum annars vegar og biskupsmáldögum hins vegar, sem alla jafna eru formfastari og sparir á viðbótarupplýsingar á borð við hvaða einstaklingar lögðu fé til kirkna. Samhliða er Reykholtsmáldagi einnig mikilvæg heimild um þróun skriftar og stafsetningar á ritunartíma sínum.
Reykholtsmáldagi hefur verið varðveittur í Þjóðskjalasafni Íslands frá stofnun árið 1882 og alla tíð verið talinn til kjörgripa safnsins.
Höfundur: Benedikt Eyþórsson
Heimildir:
ÞÍ. Kirknasafn. Reykholt í Reykholtsdal. AA/2.
Benedikt Eyþórsson, Búskapur og rekstur staðar í Reykholti 1200-1900 (Reykjavík: Sagnræðistofnun Háskóla Íslands, 2008).
Íslenzkt fornbréfasafn, 1. bindi, Jón Sigurðsson sá um útgáfuna (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1857-76).
Íslenzkt fornbréfasafn, 13. bindi, Páll Eggert Ólason sá um útgáfuna (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1933-39).
Jón Þorkelsson, „Reykholt“. Prentuð greinargerð Jóns Þorkelssonar um Reykholtsskjöl og Reykholtsmáldaga (án útgáfustaðar og -árs). Eintak varðveitt í ÞÍ. Reykholt í Borgarfirði, AA/2. Skjöl varðandi stað og kirkju.
Reykjaholtsmáldagi, Guðvarður Már bjó til prentunar, Bergur Þorgeirsson ritaði forspjall og Margaret Cormack þýddi máldagann (Reykholt: Snorrastofa, 2000).