Réttur

Hlutverk sýslumanna fyrr á tíð var afar víðtækt. Þeir sáu m.a. um skattlagningu, skráningu eigna, mat á fasteignum, uppgjör dánarbúa og síðast en ekki síst voru þeir lögreglustjórar og dómarar. Skjalasöfn sýslumannsembættanna innihalda afar mikilvægar upplýsingar um líf og starf borgar­anna. Hér eru birtar upplýsingar úr dómabókum og skiptabókum. Ekki eru birt gögn sem eru yngri en 80 ára í samræmi við lög nr. 77/2014 um opin­ber skjalasöfn.
Dómabækur

Gögn dómsstóla eru með mikilvægustu sögulegu heimildum sem völ er á. Oft má þar finna upplýsingar um einstaklinga og örlög þeirra. Skoða myndir af frumritum dómabóka.

Dómabókagrunnur

Á undanförnum árum hefur verið unnið að gerð gagnagrunns, sem tekur til dómabóka sýslumanna. Dómabókagrunnurinn er þegar orðinn öflugt leitar- og skráningarverkfæri, sem hefur nýst við margvíslegar rannsóknir. Nú (2018) er hægt að leita í grunninum í dómabókum frá 11 sýslum, allt frá Barðastrandasýslu og norður um að Þingeyjarsýslu.

Dánarskrár og legorðsskýrslur
Árlega sendu prestar sýslumönnum upplýsingar um hverjir höfðu dáið í hverri sókn. Þar sem prestþjónustubækur hafa glatast geta þessar heimildir verið mikilvægar. Jafnframt var safnað upplýsingum um þá sem höfðu orðið uppvísir að legorðsbroti. Það er þá sem höfðu eignast barn utan hjónabands. Sektargreiðslur vegna slíks athæfis runnu í konungssjóð. Hafin er vinna við að skanna gögn úr sýslumannsembættunum er varða þessi mál. Nú (2018) eru gögn úr Múlasýslu aðgengileg en á næstu misserum munu bætast við gögn úr öðrum sýslum landsins. Skoða dánarskrár og legorðsskýrslur.
Skiptabækur

Í skiptabækur eru færðar upplýsingar um dánarbú einstaklinga. Skiptabækurnar eru hluti af skjalasöfnum sýslumanna. Nú (2018) hafa verið myndaðar skiptabækur frá Barðastrandarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu og á næstu misserum munu birtast bækur frá öðrum sýslum. Í skiptabókum má fræðast nákvæmlega um eignir einstaklinga, þegar þeir létust. Elstu skiptabækurnar eru frá því um 1770 og yngstu gögnin eru frá árinu 1922. Skoða skiptabækur.