
Janúar 2026
ORDRE NATIONAL DE LA LÉGION D‘HONNEUR
Á meðal skjala í afhendingu 2025-244, sem afhent var á Þjóðskjalasafn Íslands nýlega, er að finna ramma, klæddan rauðu flaueli, utan um tvo peninga og heiðursorðu. Annar peningurinn ber mynd af franska vísindamanninum og lækninum Dr. Jean Baptiste Charcot en hinn er heiðurspeningur úr franska siglingafélaginu sem merktur er Þórði Sigurðssyni. Í miðju rammans er svo heiðursorðan Légion d’honneur, fimmarma stjarna skreytt grænum lárviðarkrans. En hvernig rataði þessi franska heiðursorða á íslenskt safn?
Svarið við því hefst að morgni 16. september árið 1936 þegar Níelsi Kristmannssyni, formanni Björgunarsveitar Slysavarnarfélags Íslands á Akranesi, barst símtal. Honum var tjáð að franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas? hefði strandað þá um nóttina við Mýrar og lægi við skerið Hnokka. Enginn vissi um afdrif skipsverjanna og hjálp þyrfti að berast án tafar.
Veðrið á svæðinu var slæmt, en auk þess er siglingaleiðin að strandstað mjög varasöm og aðeins fær kunnugum á góðum farkosti. Níels kallaði þegar saman hjálparsveitina og leitaði til kunns sjómanns og aflamanns, Þórðar Sigurðssonar, skipstjóra á vélbátnum Ægi, sem þá var nýjasta skipið í fiskiflota Akraness. Þórður brást við og með honum héldu af stað Níels sjálfur, Vilhjálmur Benediktsson, Hjörtur Þorkelsson, Þórður Bjarnason, Jónas Sigurgeirsson, Sigurbjörn Ásmundsson, Haraldur Kristmannsson, Jón Guðmundsson, Sigurdór Sigurðsson, Ingvar Árnason og Bjarni Brynjólfsson. Ljóst var að tíminn var naumur.
Varðskipið Ægir lagði einnig úr höfn í Reykjavík í átt að strandstað og bæði skipin, vélbáturinn Ægir og varðskipið Ægir, voru komin að Þormóðsskeri um svipað leyti en nokkru síðar bar einnig að danska herskipið Hvidbjørnen. Varðskipin ákváðu að bíða átekta en vélbáturinn Ægir hélt ótrauður áfram inn í brim og brotsjó. Þegar skipverjar hans nálguðust Hnokka varð ljóst að Pourquoi Pas? var horfið undir öldurnar og hafði brotnað í spón. Áhöfn Ægis hélt leitinni engu að síður áfram og fann nokkra menn í öldurótinu. Enginn þeirra var enn á lífi. 40 menn fórust með Pourquoi Pas? og lík 17 þeirra fundust aldrei. Aðeins einn maður komst lífs af úr slysinu, Eugène Gonidec yfirstýrimaður sem var bjargað af Kristjáni Steinari Þórólfssyni frá Straumfirði.
Alla tíð síðan hefur leiðangurinn til bjargar Pourquoi Pas? lifað sem minning um afrek sem bar vott um mikla reynslu, siglingafærni og óvenjulega þrautseigju. Á þessum slóðum er sigling hættuleg og þennan morgun geisaði óveður af verstu gerð sem jók enn á hættuna.
Franska ríkið ákvað í kjölfarið að heiðra þá Íslendinga sem komu að aðstoð og björgun vegna strands Pourquoi Pas?. Þeirra á meðal var Þórður Sigurðsson skipstjóri á vélbátnum Ægi. Eins og áður segir var Þórður kunnur sjó- og aflamaður sem þekkti miðin vel. Þórður var fæddur þann 30. janúar árið 1901 og hafði stundað sjómennsku frá árinu 1916. Lengst af var hann skipstjóri á bátum HB & Co en einnig á sementsferjunni. Þórður lést 30. apríl árið 1965.
Fleiri Íslendingar hlutu heiður fyrir framlag sitt í þessum atburðum, nánar má kynna sér hverjir voru heiðraðir og með hvaða hætti í dagblaðinu Vísi sem birti umfjöllun um verðlaunaafhendinguna þann 7. júlí árið 1937.
Höfundur: Símon H. Sverrisson
Heimildir:
https://timarit.is/page/2164921?iabr=on#page/n1/mode/2up/search/Pourquoi
https://timarit.is/page/4380908#page/n27/mode/2up
https://timarit.is/page/1146189#page/n3/mode/2up
https://heimildir.is/heimild-manadarins-februar-2022/
https://timarit.is/page/972519?iabr=on
https://timarit.is/page/972519
ÞÍ. Þórður Sigurðsson (1901-1965) skipstjóri 2025 – 244.
Æviskrár Akurnesinga IIII. Ari Gíslason. Akranes 1987, bls. 354.
Mynd: Ljósmyndasafn Akraness. Nr. 29064. Ljósmyndari óþekktur.