Ágúst 2025
Kyrrsett gamalkýr og falsað vottorð
Það mun harla skylt fyrir mig, auman og ofsóktan veslingsmann, að gratúlera m(in) h(e)r(re) successori, monsjör Bjarna Halldórssyni, sem velkomanda til landsins. Þeim mun skyldara er fyrir Tittlingastaðakúna (þó framliðin sé) að fagna hans komu til þessa Öxarárþings [...].[1]
Með þessum gráglettnu orðum tók Jóhann Gottrup á móti Bjarna Halldórsyni, sýslumanni í Húnavatnssýslu, á alþingi sumarið 1743. Málaferli þeirra á milli vegna kýrinnar á Tittlingastöðum sem hófust þremur árum áður voru enn í fullum gangi.
Í fardögum árið 1740 fór fram úttekt á jörðinni Tittlingastöðum í Þorkelshólshreppi í Húnavatnssýslu. Þá bjuggu þar fátæk hjón, Bjarni Guðmundsson og Vigdís Jónsdóttir, með eitt barn enn á ómagaaldri. Þau höfðu búið þar í að verða 30 ár, lengi vel ein en síðustu níu árin í sambýli með tengdasyninum, Illuga Þorvarðssyni. Bjarni hafði ekki getað sinnt nægilegu viðhaldi á jörðinni né húsum hennar undanfarandi ár vegna aldurdóms, vanburða og veikinda. Jörðin var því komin í töluverða niðurníðslu.[2] Tittlingastaðir voru konungsjörð sem Bjarni hafði á leigu og bar honum að halda jörðinni við þannig að hún tapaði ekki verðgildi sínu eins og tíðkaðist almennt þá. Jörðin tilheyði litlu jarðarumboði sem nefnt var Vatnsdalsjarðir[3] sem Jóhann Gottrup, fyrrverandi sýslumaður í Húnavatnssýslu, hafði á leigu í umboði konungs gegn föstu afgjaldi en hann sá á móti um að innheimta tekjur af umboðsjörðum sínum og fylgja því eftir að þeim væri skikkanlega viðhaldið.
Við úttektina var „ofanálag“ á Tittlingastaði ákveðið eitt og hálf hundrað í minnsta lagi, það var viðbótargjald sem Bjarni og Vigdís þurftu að greiða vegna rýrnunar á verðgildi húsa og búfénaðar. Bjarni samdi um að láta svartskjöldótta, 12 vetra gamla kú upp í skuldina, þrevetran sauð og tvær ær. Sjálfur var hann þá liggjandi í kör í rúmi sínu vegna „meinlæta“,[4] það voru einhver óljós innanmein sem þjökuðu hann og höfðu þjakað um nokkurn tíma, e.t.v. sullaveiki. Þremur dögum eftir úttekina teymdi Illugi Þorvarðsson kúna til Giljár, heimili Jóhanns Gottrups, og skilaði henni þar með leyfi Bjarna. Kýrin taldist að vísu „úr gildi“ sökum aldurs, er gjarnan nefnd „ein gamalkýr“ í skjölum málsins, en Jóhann hafði samt sem áður samþykkt að taka hana gilda.[5] Eftir sátu hjónin á Tittlingastöðum með eina „gagnlitla“ kú sér til uppheldis því sú gamla og svartskjöldótta hafði verið betri mjólkurkýrin af þeim tveimur kúm sem þau áttu.[6]
Vigdís sá ekki fram á að þau gætu dregið fram lífið og haldið búi áfram með þessa einu gagnlitlu kú. Hún leitaði því ásjár Bjarna Halldórssonar sýslumanns sem var snöggur að bregðast við. Hann kyrrsetti kúna, lét færa hana aftur að Tittlingastöðum og fól Vigdísi hana til „vöktunar og ávaxtar“ þar til endanlegur úrskurður fengist í málið, hann efaðist nefnilega um að rétt hefði verið staðið að úttektinni og að Jóhanni hafi verið heimilt að taka kúna.[7] Þetta gerði Bjarni ekki vegna þess hve honum var annt um hjónin á Tittlingastöðum enda sagður hafa verið héraðsríkur og harðlyndur.[8] Nei, líklegra er að þarna hafi hann séð tækifæri til þess að klekkja á Jóhanni Gottrup. Þeir Jóhann höfðu eldað grátt silfur saman allt síðan Jóhann hafði verið dæmdur frá embætti sýslumanns í Húnavatnssýslu og Bjarni tekið við sýslunni árið 1728. Einnig hafði Jóhann þurft að sjá á eftir Þingeyraklaustursumboði í hendur Bjarna fáum árum síðar, einu af stærri jarðaumboðum í landinu.
Bjarna Halldórssyni sýslumanni varð eilítið hált á svellinu við þennan leik en féll þó ekki alveg. Jóhann Gottrup kærði hann umsvifalaust fyrir kyrrsetninguna og „burtfærslu“ á kúnni. Við meðferð málsins í júní árið eftir var Bjarni ásakaður um að hafa lagt fram í réttinn falsað vottorð um aðdraganda kyrrsetningarinnar. Hann lagði fram skriflegt vottorð tveggja manna, Bjarna Ófeigssonar, ráðsmanns á Þingeyraklaustri og Árna Ólafssonar, hreppstjóra á Þorkelshóli, sem kváðust hafa verið vitni að því þegar Vigdís beiddi sýslumann liðstyrks að fá kúna aftur, þau hjón hefðu aldrei samþykkt að láta hana upp í ofanálagið.[9] Þegar rétturinn hóf að gaumgæfa vottorðið nánar var efast um sannleiksgildi þess, þeir Bjarni Ófeigsson og Árni Ólafsson voru nefnilega báðir „ólesandi og óskrifandi.“ Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Páll, 12 ára gamall sonur sýslumannsins, hafði átt þátt í ritun vottorðsins. Bjarni Ófeigsson og Árni játuðu þó síðar að hafa handsalað sínar undirskriftir á vottorðið.[10]
Á héraðsþingi að Torfalæk 10. júní 1741 dæmdi Skúli Magnússon, settur dómari í málinu, Bjarna Halldórsson til greiðslu bóta og til þess að skila kúnni aftur til Jóhanns Gottrups. Lögþingsréttur staðfesti dóminn á alþingi 1743 og dæmdi auk þess alla þrjá, Gottrup, Skúla og Bjarna, til greiðslu sekta vegna tafa, fráveru og undanbragða við réttinn.[11] Dómsniðurstaða yfirréttar, sem kvað upp sinn dóm 1744, er ekki kunn nema Gísli Konráðsson (1787–1877) sagnaritari segir að Bjarni hafi þar verið dæmdur „hart og sektaður“.[12] Svartskjöldótta kýrin var þá fyrir nokkru orðin dauð eða „framliðin“ eins og Jóhann Gottrup orðaði það. Bjarni Guðmundsson og Vigdís Jónsdóttir höfðu brugðið búi og lifðu á ölmusu. Þau voru til heimilis á Harastöðum í Vesturhópi í febrúar 1743.[13] Á alþingi 1745 var Bjarni Halldórssonar svo að lokum sýknaður af öllum ákærum um að hafa falsað vottorðið.[14]
Bjarni Halldórsson sýslumaður stóð raunar í miklum málaferlum á öllum dómsstigum á þessum árum sem alltof langt mál væri að rekja hér. Honum var vikið tímabundið úr embætti árið 1741 vegna margs sem þótti vafasamt við embættisverk hans. Hann endurheimti embætti sitt aftur með hæstaréttardómi í mars 1744.[15]
Mörg mála Bjarna komu til kasta Yfirréttarins á Íslandi á þessum árum. Má þar t.d. nefna, auk kýrmálsins, Giljármál, réttarneitunarmál móti Sigmundi Þorvarðssyni, hrakningsmál Elínar Jónsdóttur úr Skagafirði, sjálfdæmismál og æruleysismál, og kemur Jóhann Gottrup víða við sögu þar. Varðveitt skjöl og dómar úr öllum þessum málum eru prentuð í fjórða og fimmta bindi af dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi. Bindi fjögur kom út haustið 2024 en það fimmta er væntanlegt nú í haust 2025. Útgáfan er unnin í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags með styrk frá Alþingi og með henni opnast aðgangur að ríkulegum heimildabrunni um íslenskt samfélag á 18. öld.
Höfundur: Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir
Heimildir:
ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns. Stiftamtm. III. 223. Dómsskjöl yfirréttar 1739–1744, örk 7.
Alþingisbækur Íslands XIII. 1741–1750. Gunnar Sveinsson sá um útgáfuna. Reykjavík 1973.
Gísli Konráðsson, Húnvetninga saga I, 1685–1786. Jón Torfason sá um útgáfuna. Reykjavík 1998.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VIII. Kaupmannahöfn 1926.
Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Reykjavík 1948.
Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl IV. 1733–1741. Ritstj. Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Reykjavík 2024.
Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl V. 1742–1746. Ritstj. Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Reykjavík 2025.
[1] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 274.
[2] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 244–245.
[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VIII, bls. 221.
[4] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 207, 245.
[5] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 241, 243, 535.
[6] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 202.
[7] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 202, 204, 211–212.
[8] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 9; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I, bls. 169.
[9] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 207.
[10] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 217–218, 245–256, 277.
[11] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 218, 284–285.
[12] Gísli Konráðsson, Húnvetninga saga I, bls. 171.
[13] Yfirrétturinn á Íslandi V, bls. 252–254.
[14] Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 258.
[15] Sjá: Yfirrétturinn á Íslandi IV, bls. 9; V, bls. 9–11.