Vigfús Magnússon var sonur Magnúsar Jónssonar (um 1675–1752) stúdents í Snóksdal í Miðdölum og síðar á Hrafnabjörgum í Hörðudal og konu hans Ingibjargar Ólafsdóttur prests í Tröllatungu Eiríkssonar. Magnús bjó yfir góðum gáfum, erfði miklar eignir en hélst illa á auði sínum. Þau Magnús og Ingibjörg eignuðust fjölda barna en alls komust níu þeirra á legg og þar á meðal var Árni sem kenndur er við Geitastekk í Hörðudal og víðkunnur er af ferðasögu sinni.
Vigfús hefur líkast til útskrifast úr Skálholtsskóla en eina heimildin fyrir veru hans þar er skrá séra Finns Jónssonar í Reykholti, sem þá var jafnframt settur biskup (officialis) í Skálholtsbiskupsdæmi, yfir ölmusupilta í Skálholtsskóla veturinn 1742–1743. Óvíst er hvenær skólagöngu Vigfúsar lauk en hann komst í þjónustu Johans Christians Pingels (um 1712–1779) sem fékk amtmannsembættið árið 1744 en kom ekki til landsins fyrr en ári síðar. Hann hefur mögulega verið skrifari amtmanns. Árið 1750 sigldi Vigfús til Kaupmannahafnar og var líkast til samskipa Pingel amtmanni sem sigldi ásamt konu og börnum og dvaldi í Kaupmannahöfn fram á sumar 1751.
Það hlýtur að hafa verið Pingel sem hafði milligöngu um það að Vigfús komst í þjónustu Corneliusar Schumachers (1702–1777). Schumacher varð árið 1726 matsmaður (d. taxator) við tollstofu Kaupmannahafnar og árið 1738 var hann skipaður í stjórn konunglega vöruhússins (d. kongelige Varemagasin) sem hafði m.a. eftirlit með gæðum þeirrar vefnaðarvöru sem framleidd var í Kaupmannahöfn og gekk úr skugga um að hún væri gjaldgeng kaupmannsvara. Schumacher var skipaður tolleftirlitsmaður árið 1751 (d. toldinspektør), var gerður að kammerráði 1752 og tók sama ár, í félagi við tvo aðra stjórnarmenn vöruhússins, að sér rekstur hinnar konunglegu silkiverksmiðju (d. kongelige Silkefabrik) sem þeir ráku uppá eigin reikning. Árið 1764 sagði hann skilið við stöðu sína sem tolleftirlitsmaður og varð kommitteraður við ráðuneyti tollmála (d. Generaltoldkammeret). Árið 1767 hlaut hann etatsráðstitil en fékk að lokum lausn frá embættum sínum árið 1771. Ekki er kunnugt um nein tengsl Schumachers við Ísland, önnur en þau, að hann var hluthafi í verslunarfélagi Hörmangara sem annaðist Íslandsverslun á árunum 1743–1758.
Schumacher var að láta byggja handa sér þriggja hæða stórhýsi, sem stendur við Bredgade 30, á þeim tíma sem Vigfús kom í þjónustu hans. Arkitektinn var hirðtrésmíðameistari F.J. Zuber (1705–1771) og var húsið reist á árunum 1751–1752. Þetta var eitt af fyrstu húsunum sem byggð voru umhverfis Amalíuborg og mynduðu nýjan borgarhluta sem gengur undir heitinu Frederiksstaden. Vigfús bjó í húsi Schumachers en Þorlákur úr Vestmannaeyjum vísaði Árna, bróður hans, þangað þegar hann var nýkominn til borgarinnar. Þjónninn sem kom til dyra kallaði Vigfús „monsieur Magnus“ en kannaðist ekki við að hann væri Íslendingur heldur taldi hann vera Svía. Vigfús talaði við húsbónda sinn og útvegaði bróður sínum vinnu þá um veturinn við að byggja hús sem hýsa átti silkiverksmiðjuna sem reis á árunum 1753–1756 í Bredgade 34–36, þ.e. í þarnæsta húsi við hús Schumachers.
Auk þess að vera í þjónustu Schumachers þá fékk Vigfús leyfi hans til að vera Jóni Þorkelssyni Thorchillius (1697–5. maí 1759), fyrrum skólameistara í Skálholti, til aðstoðar. — Jón hafði látið af starfi sínu sem skólameistari árið 1737 og flutt út til Kaupmannahafnar. Hann gerðist svo aðstoðarmaður Ludvigs Harboes, sóknarprests við Kastalakirkjuna í Kaupmannahöfn, sem sendur var af kirkjustjórnarráðinu til þess að rannsaka fræðslumál á Íslandi en sá rannsóknarleiðangur stóð yfir árin 1741–1745. Að því loknu sneri Jón aftur til Kaupmannahafnar og vann fyrir kirkjustjórnarráðið auk þess að sinna fræðistörfum. — Vigfús var Jóni innan handar allt til dánardægurs og hefur e.t.v. verið skrifari hans og auk þess sinnt hinum ýmsu viðvikum fyrir hann. Skjal mánaðarins er einmitt bréf Vigfúsar til skiptaráðenda dánarbúsins þar sem hann fer fram á fá greidd vangoldin laun sín.
Eftir að hafa verið átta ár í þjónustu Schumachers þá gerði hann Vigfús að tollþjóni (d. undervisiteur). Vigfús titlaði sig með þessu heiti í bréfi til skiptaráðenda dánarbús Jóns, 8. desember 1759. Hann hefur e.t.v. fengið þessa stöðu eftir að Jón Þorkelsson féll frá en við það hefur hann misst spón úr aski sínum. Schumacher hafði sem tolleftirlitsmaður í Kaupmannahöfn fjölda undirmanna á sínum snærum. Árni lýsir starfi þeirra með eftirfarandi hætti:
Þessir tollbeþénter eru að tölu hér um 34, er verða af kammerherranum út deildir hvern sunnudag, sem þeir skulu hafa uppsikt [eftirlit] með heila vikuna. Nokkir koma upp á myllurnar og eftirsjá kóngsins komsumtion, að ei verði hönum nokkur svik gjörð. Nokkrir koma til portanna að passa upp á, hvað bændur inn keyra með í staðinn, og hvert þeir hafi nokkuð í vagninum, sem tollheimtumönnunum er ei frá sagt og kóngurinn missir sinn toll af. Hvað smálegt er, fær kóngur ei að vita. Því stinga þeir í sinn vasa. Nú er bæði fiskur og egg, sem inn kemur frá landinu, að bændur gefa tollheimtumönnum lítilræði af þessu, so ei séu so harðir með tolltekjuna
Vigfús hefur reynst Schumacher dyggur og trúr þjónn því auk þess að gera hann að tollþjóni þá fékk hann Vigfúsi einnig bestu bitana. Hann vann við tollbúðina yfir sumartímann og fór þá m.a. út í skipin og innsiglaði þau svo ekki væri hægt að lauma neinum varningi í land áður en skipin fengju tollafgreiðslu. Svo vann hann við Vesturport yfir vetrartímann en það var eitt af fjórum hliðum á borgarmúr Kaupmannahafnar en allir sem komu landleiðina til borgarinnar þurftu að fara í gegnum eitt þessara hliða, kæmu menn hins vegar sjóleiðina stigu þeir fyrst niður fæti við tollbúðina.
Það fór í taugarnar á hinum tollþjónunum, sem voru flestir fátækir fjölskyldumenn, að Vigfús fengi verkefnin sem gáfu hvað mest af sér og fannst að það ætti að skipta gæðunum jafnt á milli allra enda hafði Vigfús ekki fyrir öðrum en sjálfum sér að sjá. Nokkrir tollþjónar tóku sig saman og ákváðu að gera eitthvað í málunum. Árni, bróðir Vigfúsar, mundi daginn sem ráðist var á hann en það gerðist á miðvikudegi. Hann lýsir atburðarrásinni þannig:
Um þessa tíma drakk minn bróðir slétt ekkert. Nú komu hans fjórir kammerater til hans og buðu hönum upp á vínkjallarann með sér. Hann fór með þeim. En um nóttina komu fjórir vægtere (varðmenn) með hann berandi, — og hans vinstri fótur illa sundur marinn sem með hamri gjört væri, og hans gullhringur burtu, því hann sagði mér, að einn hefði gengið með síðunni og verið lengi að plokka hann af fingrinum á sér, en hver gjörði hönum þann stóra skaða vissi hann ei, því það skeði um nóttina.
Næturverðir Kaupmannahafnar fundu Vigfús eftir árásina og báru hann heim til sín. Næsta dag varð mönnum ljóst hversu alvarlegir áverkar hans voru og þá var farið með hann á Friðriksspítala (d. Det kongelige Frederiks hospital) sem stendur við Bredgade 68 og hýsir nú hönnunarsafn Kaupmannahafnar. Árni fékk fréttirnar um leið og bróðir hans var lagður inn á spítalann og kom samdægurs að heimsækja hann. Vigfús tók örlögum sínum með jafnaðargeði og sagði Árna að:
hjartað væri þó enn nú frískt, jafnvel þó kroppurinn hefði harða pínu, en nú hefði feldskerarinn (sáralæknirinn) nýlega forbundið sig og tekið þaug brotnu smábein út.
Þegar skjalabækur spítalans eru skoðaðar má sjá á komubókinni að Vigfús var fluttur á spítalann 9. febrúar 1764, sem var einmitt fimmtudagur, og að komið var með hann þangað klukkan hálftíu um morguninn. Hann var færður til bókar sem „Wichfuus Magnus“ en það var það sem þjónn Schumachers kallaði hann en sjálfur skrifaði hann sig Wigfus Magnusen eins og sjá má af skjali mánaðarins. Hann var titlaður tollþjónn „underbetient ved toldboden“ og sagður leigja hjá tollþjóni að nafni Steenum í Frederiksberggade. Það er fremsti hluti Striksins sem nær frá Ráðhústorginu og að Nýjatorgi (d. Nytorv) þar sem dómshús Kaupmannahafnar er að finna. Vigfús hefur líkast til flust úr húsi Schumachers þegar hann hvarf úr þjónustuliði hans og var gerður að tollþjóni. Af innritunarbók spítalans má sjá að hann var ekki lagður inn fyrr en klukkan korter yfir tvö um eftirmiðdaginn þannig að hann hefur þurft að bíða tæpa fimm tíma eftir því að sáralæknirinn gæti sinnt honum. Þar kemur jafnframt fram að hann var þá 43 ára að aldri og því fæddur um 1721. Það var ekki aðeins Árni sem frétti af spítalainnlögn Vigfúsar samdægurs heldur einnig Schumacher yfirmaður hans enda var hús hans í sömu götu og spítalinn. Hann sendi ráðskonu sína, sem Árni segir að Schumacher hafi viljað að Vigfús gengi að eiga, daglega með mat handa honum. Árni segir þannig frá þessu:
Hans fyrrverandi húsbóndi, kammerherrann, sendi hönum alltíð sinn talerk [disk] niður með sama mat og sjálfur spísti með hans húsholdersku, er hann vildi, að verða skyldi míns bróður ektakona. Hvörn sunnudagsmorgun kom hún með kaffi og frúkost til hans upp á hospítalið, og það þá heilu tíð, er hann lá á hospítalinu, sem var yfir hálft ár.
Vigfús lá þó lengur á spítalanum en hálft ár því að hann var þar í um tíu mánuði en af innritunarbókinni má sjá að hann var sagður orðinn frískur 22. desember og útskrifaður klukkan tvö eftir hádegi. Þegar Vigfús komst loks á fætur í árslok 1764 þá tók hann sér herbergi á leigu hjá íslenskum úrsmið að nafni Jón Sigurðsson. Atburðarrásin hefur þó tæpast verið jafn hröð og Árni lýsir henni því að hann segir að Schumacher hafi tilkynnt Vigfúsi tveimur vikum síðar að hann ætti að vera tolleftirlitsmaður (d. kontrollør) í Hobro á Jótlandi og hann hafi svo verið kominn á staðinn viku eftir það. Þegar embættisveitingabók tollráðuneytisins er skoðuð kemur í ljós að Vigfús var skipaður strandeftirlitsmaður (d. strandkontrollør) 12. febrúar 1765 í einu af tollumdæmum (d. tolddistrikt) Danmerkur en þá voru stofnuð 13 slík embætti í landinu. Hann fékk í framhaldinu úthlutað tollumdæmi á Norður-Jótlandi og bar embættisheitið strandeftirlitsmaður við Mariagerfjörð. Helstu kaupstaðir þar voru Mariager, Assens, Hadsund þar sem var ferjustaður og tollskoðun fór fram og Hobro í botni fjarðarins. Vigfús átti hús í Hobro sem hann keypti af Christian Pedersen Høvring gullsmið en hann hefur væntanlega selt það þegar hann flutti til Randers árið 1767. Húsið var svo selt á opinberu uppboði 16. desember 1768 og þá keypti Gerhard Voss póstmeistari það en ekki liggur fyrir hvaða ástæður lágu að baki uppboðinu. Vigfús kærði mann að nafni Niels Ulstrup fyrir að hafa stolið silfurbúnum korða sínum (d. hirschfænger) ásamt útbúnaði, þ.e. sverðfetli og silfurlási. Málið var tekið fyrir í héraðsréttinum í Hobro á tímabilinu 6. febrúar–26. júní 1769 og var svo vísað áfram til landsdóms í Viborg. Málsatvik voru með þeim hætti að Vigfús steig úr hestvagni í Hobro og bað Niels, sem var ökumaður hans, að fara með farangurinn til leiguherbergis síns sem virðist hafa verið heima hjá Andreas Bueman (Buchman) gullsmið. Vigfús sá hins vegar korðann aldrei aftur. Svo virðist sem Vigfús hafi ekki haft það síður gott í Hobro en í Kaupmannahöfn. Hann hafði 150 rd. í árslaun og svo bættust sporslurnar ofan á. Árni lýsir starfi bróður síns, strandeftirlitsmannsins við Mariagerfjörð, þannig:
Hann hefði vel haft 150 rd. af kóngsins kassa og þar fyrir utan í það óvissa, sem hlypi sig meir en þaug vissu laun, þar hann skyldi inquirere (rannsaka) alla bændur, hvert ei brenndi brennivín. Nú gáfu allir proprietarii (landsdrottnar) hönum í það minnsta 20 rd., hvar fyrir að skikkanlegur vera skyldi við þeirra bændur, þar fyrir utan allir prestar og djáknar, mullarar [malarar] og smiðir. Allir þessi offruðu hönum, að hann þeim vera skyldi góður og skikkanlegur. Allir þessir brenndu brennivín. En þegar minn bróðir var skikkaður af borgurunum í kaupstaðnum að vísitera hjá bændum, hvert ei brenndu brennivín, og tveir tollbéþéntara með, gjörði hann bændum boð, að sig vara skyldi, því á morgun kæmi hann með tveimur tollbeþéntum. […] Þegar vísiteraði á landinu, var hann þrjár og fjórar nætur hjá þeim ríku bændum í góðu yfirhaldi bæði með öl og brennivín, stundum peninga með. Nú þegar guð hann burt kallaði eftir 14 daga banalegu, hafði hann ei so marga peninga, sem kynnu að svara hans útfararkosti, og þegar hans töj var auktioneret, resteraði enn nú 100 rd. til skuldalúkninga. Hann var ógiftur, og enginn sá hönum til góða, heldur var hann sem framandi Samarítan, hélt sig vel til klæða og fæðu, so gildur, að fæturnir kunnu ei bera kroppinn.
Árni yfirgaf Kaupmannahöfn í apríl 1776 og fór áleiðis til Jótlands. Hann reyndi að forvitnast um hagi bróður síns, talaði við fólk sem hafði þekkt hann og virðist gefa í skyn að það hafi verið einkennilegt að ekkert nema skuldir hafi verið í dánarbúinu. Því miður hafa skiptabækur í Hobro frá árunum 1759–1799 glatast og því er ekki hægt að sjá hvað Vigfús skildi eftir sig eða hverjum hann var skuldugur. Þá brunnu einnig kirkjubækurnar í Hobro 19. ágúst 1812 og því er ekki hægt að finna dánardægur hans þar. Hins vegar var andlát hans tilkynnt í blöðunum því að kunngera þurfti ættingjum, lánadrottnum og skuldunautum að mæta til skiptafundar. Þar kemur fram að Vigfús hafði dáið nóttina milli 22.–23. nóvember 1770. Hann náði því ekki að verða fimmtugur en hann virðist hafa notið lífsins eins og hann gat; borðað vel, drukkið mikið og safnað ístru. Árni segir að Vigfús hafi ekki neytt áfengis fyrir líkamsárásina og vera má að hann hafi notað áfengið til þess að deyfa sársauka sem stafaði af fótbrotinu. Árni fór til Íslands og samdi ferðasögu sína þar sem hann segir um leið sögu bróður síns og er sjálfsagt hægt að spinna hana lengra áfram. Árni undi sér hins vegar illa á Íslandi og hélt aftur utan til Danmerkur. Björn Hjálmarsson (1769–1853), prestur í Tröllatungu við Steingrímsfjörð, skrifaði eftirmála við ferðasögu Árna. Þar segir hann að Árni hafi dáið einhvern tímann á árabilinu 1801–1820 á Jótlandi. Björn Karel Þórólfsson, skjalavörður og útgefandi ferðasögunnar, telur að Árni hafi borið beininn einhvers staðar við Limafjörð á Norður-Jótlandi. Það er ekki hægt að skilja við Árna án þess að reyna að finna lokapunktinn á ævi hans. Dánardægur hefur ekki fundist en þegar skoðaðar eru kirkjubækur Skyumsóknar við Limafjörð sést að þann 25. febrúar 1807 var Íslendingurinn Anders Magnussen Warenbech borinn til grafar. Óvíst er hvernig stendur á ættarnafninu en það kemur einnig fyrir þegar fátæklegt dánarbúið var gert upp nema hvað að þar er hann kallaður Arne en ekki Anders. Hann var 82 ára að aldri (f. 1725) og dánarmeinið var fært til bókar sem elli.
Örk 1. Bréf frá Íslendingum í Kaupmannahöfn 1707–1787.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta.
Heimildir