Október 2024
Á undanförnum árum hefur verið unnið að innslætti sóknarmannatala á Þjóðskjalasafni í leitarbæran gagnagrunn. Um gríðarmikið verkefni er að ræða sem hefur að stærstum hluta verið unnið á vegum Héraðsskjalasafnsins á Ísafirði en einnig hafa verið búin til sérstök átaksverkefni til að reyna að hraða verkinu auk þess sem starfsfólk Þjóðskjalasafns hefur gripið í skráningu þegar tími hefur unnist til. Nú þegar hafa verið slegin inn sóknarmannatöl frá tæplega helmingi landsins. Grunnurinn sem aðgengilegur er á slóðinni https://salnaregistur.manntal.is/ er þegar orðinn mikilvægt tól til rannsókna á ættfræði en ekki síður til að skoða flutninga fólks milli staða og æviferil einstaklinga frá um 1780 til um 1960.
Við skráningu á Hjaltabakkaprestakalli í Húnaþingi hnaut skrásetjari um nafn konu einnar sem var húskona á Kagaðarhóli árið 1853. Konan hét samkvæmt sóknarmanntalinu Rosida Jónsdóttir, sögð 58 ára og sagði prestur þá um hegðan hennar og kristilegan lærdóm að hún væri „ekki óþekkileg” og „sæmilega uppfrædd”. Nú er það svo að þetta nafn var aldrei algengt meðal íslenskra kvenna og hér verður gerð dálítil tilraun til að setja fram tilgátu um hvernig þetta ágæta nafn varð hluti af íslenskri nafnahefð.
Rósida var fædd á Húnstöðum 7. júní 1797 dóttir hjónanna Steinunnar Þórðardóttur og Jóns Gíslasonar. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Húnstöðum og bjó þar til fullorðinsára. Í aðalmanntölunum, sem tekin voru reglulega stærstan hluta 19. aldar og eru aðgengileg á vefnum manntal.is, var nafn hennar iðulega ritað Rósidá. Það nafn skrifaði prestur þegar hún lést í skjóli dóttur sinnar í Strjúgsseli 12. desember 1872, þá sögð niðurseta. En vissulega var hún skírð Rosida eða Rósida og þannig var hún yfirleitt skráð í sóknarmannatölum. Hér verður æviferill hennar ekki rakinn frekar einkum vegna þess að það hefur Jón Torfason fyrrverandi skjalavörður gert í fróðlegum pistlum á vefnum www.huni.is í flokknum „þættir úr sögu sveitar”. Þar í pistli númer 50 og 51 ritar Jón um Rósidu og fjölskyldu hennar. Þó er rétt að geta þess að í rannsóknum sínum fann Jón bréf sem líklega var ritað fyrir hana til sýslumanns Húnvetninga. Bréfið fer hér á eftir og er á margan hátt afar merkilegt og lýsandi fyrir stöðu fátækra vinnukvenna á fyrri hluta 19. aldar.
Veleðla herra sýslumann, háttvirta yfirvald.Þar eð Björn Björnsson barnsfaðir minn sem nú er vinnumaður á Syðri-Langamýri, hefir enn þá í næstliðin þrjú ár ekkert fiskivirði til mín látið barninu til framfæris, og ég svo mátt ein með því berjast, hvar til ég finn mig ei lengur einfæra, hefi því ei önnur úrræði en leita yðar atkvæða hér um, og meðfram biðja yður eftir sem ég nefndi við yður í vor – að skrifa ofannefnda manni til um hvört hann vilji eða geti ennþá ekkert látið til húsbónda míns í haust eð kemur í téða barns meðgjafarskyni. Því verði það sem fyrri ekki nema tóm og útlátalaus loforð, sem frá honum koma, hefi ég ei önnur ráð en reiða barnið til föðursins, því ekki skyldi ég tregðast að gefa með því að mínum þriðjungi, hvar upp á ég óska alúðlegast að fá skírteini frá yður hvört mér mundi ei vera það óhætt, ef ei betur úr þessu greiðist. Þar líklegt mun finnast að honum ungum og allvel vinnandi gangi ekki miður að koma sér fyrir í vist með barni en mér heilsutæpri.
Forlátið hast og ofdirfsku yðar veleðlaheita undirgefinni,
Rósidá Jónsdóttir
Vatnsenda þ. 16da Aug. 1833
Vera má að Rósida hafi sjálf skrifað undir bréfið. Undirskriftin er að minnsta kosti með annarri hönd en bréfið sjálft. Hún hefur samkvæmt því skrifað sjálf nafn sitt Rósidá. Geta má þess að fyrir bréfinu er innsigli, sem er að vísu brotið ofan af en engu að síður greinilegt að á því er stafurinn R. Ólíklegt verður að telja að Rósida hafi sjálf átt innsigli, en hins vegar er rétt að nefna, eins og Jón Torfason bendir á í þætti sínum, að á Vatnsenda bjó þá önnur Rósa, sem er öllu þekktari. Það var skáldkonan Vatnsenda-Rósa og má vera að innsiglið fyrir bréfinu hafi verið hennar.
Ólíklegt er þó að hönd bréfsins sé Vatnsenda-Rósu, en sjá má hennar eiginhönd til dæmis á bréfi sem birt er í grein Gísla H. Kolbeins í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2008. Vera má að megintexti bréfsins sé ritaður af fyrrum eiginmanni Vatnsenda-Rósu, Ólafi Ásmundssyni, eins og Jón Torfason gerir að tilgátu í áðurnefndri grein.
En hvort sem nafnið var Rosida, Rósída eða Rósidá eru engin önnur dæmi um þessa nafngift í Húnaþingi á þessum tíma og raunar ekki á landinu öllu. Rósida litla á Hjaltabakka var því líkast til sú fyrsta sem skírð var þessu nafni hér á landi. Á næstu áratugum bættust nokkrar við. Í manntalinu 1850 eru þrjár skráðar, við hafði bæst stúlka í Kolfreyjustaðarsókn á Austurlandi og loks var ein til í Aðalvík á Ströndum, þá þriggja ára gömul. Þó voru nokkur dæmi um að nafnið Rósida hafi verið annað nafn, en það tíðkaðist ekki fyrr en um og eftir miðja 19. öld. Þannig var til dæmis Anna Rósida (eða Rósidá) Jóhannsdóttir í Kvíabekkjarsókn í Ólafsfirði og Málfríður Rósidá Guðmundsdóttir í Undirfellssókn í Vatnsdal í Húnaþingi árið 1880.
En hvaðan kemur þetta ágæta nafn sem hjónin á Húnstöðum ákváðu að gefa dóttur sinni við skírn þann 8. júní 1797? Guðrún Kvaran segir í bókinni Nöfn Íslendinga að nafnið sé smækkunarmynd af Rósa, sé spænskt að uppruna, hafi borist norður á bóginn á 18. öld og sé þar mest notað á Norðurlöndum, Englandi og í Þýskalandi. Raunar virðist, ef marka má alþjóðlega gagnagrunna, að nafnið sé langalgengast í Frakklandi og var þá fyrr á tímum sérstaklega notað í Normandí en nú á dögum helst í nágrenni Parísar. Hins vegar er nafnið þrátt fyrir allt óalgengt í dag á því svæði.
Hugsanlegt er að hugmyndin að nafni stúlkunnar á Hjaltabakka hafi orðið til við lestur sögunar af Viktor og Blávusi, sem var frönsk riddarasaga. Til eru handrit af henni og öðrum viðlíka sögum, sem ritað hefur verið á Íslandi á 15. öld eins og Jónas Kristjánsson gerir grein fyrir í útgáfu sögunnar árið 1964. Hins vegar eru einnig varðveitt önnur skinnhandrit og nokkur yngri pappírshandrit þar sem sagan er skráð og voru þau til víðsvegar um landið.
Sagan af Viktori og Blávusi fjallar í mjög stuttu máli um fóstbræðurna Viktor, sem var sonur Frakklandskonungs, og Blávus sem var prins. Blávus eignaðist fljúgandi teppi. Ferðuðust þeir félagar um heiminn og lentu í allskyns ævintýrum og átökum. Loks lá leið þeirra til Indlands, þar sem Viktor hugðist biðja um hönd meykóngsins Fulgidu. Fulgida samþykkti loks ráðahaginn með þeim skilyrðum að Rosída, sem var sóldánsdóttir í Serklandi og allra kvenna fegurst, yrði brúðarmey. En á brúðkaupsdaginn tóku þeir félagar sig upp á töfrateppinu, rændu þeim Fulgidu og Rosídu og flugu til Frakklands þar sem Viktor kvæntist Fulgidu og Blávus kvæntist Rosídu.
Sagan af Viktori og Blávusi varð rímnahöfundum einnig að yrkisefni. Þekktar eru þrjár rímur byggðar á sömu sögu og raunar kemur nafnið Rósida einnig fyrir í rímu af Berald keisarasyni eftir Gunnar Ólafsson, sem kenndur hefur verið við Selvog og var þekktur rímnahöfundur. Ríma Gunnars var ort árið 1790. Það er því kannski eins líklegt að það hafi verið rímnauppskrift sem hafi verið til í nágrenni hjónanna á Húnstöðum sem hafi kveikt ást þeirra á nafninu sem þau skírðu dóttur sína. Nafnið kemur einnig fyrir í rímum sem ortar voru á 19. öld, til dæmis í rímunni af Marteini sterka, sem ort var 1845.
Óhætt er að segja að þau hjónin hafi ekki verið sérstaklega ævintýragjörn í nafngiftum á börnum sínum að Rósidu undanskilinni. Systkini hennar sem upp komust hétu Guðrún, Jón, Pétur og Steinunn. Nafn Rósidu kemur því þarna í miðjan systkinahóp eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Auðvitað eru það algjörar getgátur hvernig á því stóð að stúlkunni var gefið svo sérkennilegt nafn. Til er uppskráð dánarbú Jóns bónda á Húnstöðum og þar er ekki getið um neina bók með uppskrifuðum sögum eða rímum, þó á bænum hafi verið til ýmsilegt bókakyns. Hins vegar er ekki úr vegi að geta Rafns Jónssonar sóknarprests á Hjaltabakka sem skírði Rósidu og nágranna þeirra Húnstaðahjóna. Hans dánarbú var uppskrifað 1807 og hefur Jón Torfason ritað það upp, ásamt dánarbúi Jóns á Húnstöðum og birt á vefnum Húna. Þar kemur fram að Jón átti margt bóka, flestar af kristilegum toga en einnig dálítið af fornsögum og auk þess, eins og segir í uppskriftinni, „9 sögur skrifaðar á einni bók”. Er hugsanlegt að í þessari bók Rafns á Hjaltabakka hafi verið sagan af Viktori og Blávusi, sem hafi ratað í hendur nágrannana á Húnstöðum? Hér er að sjálfsögðu um algjörar getgátur að ræða og þessi sérkennilega húnvetnska nafngift verður áfram leyndardómur.
Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.
Heimildir:
Finnur Jónsson, Rímnasafn. Samling af de ælste islandske rimer II, Kaupmannahöfn 1913–1922, bls. 680 og 682.
Finnur Sigmundsson, Rímnatal I. Reykjavík 1966, bls. 68–69 og 344–345.
Finnur Sigmundsson, Rímnatal II. Reykjavík 1966, bls. 58.
Guðrún Kvaran, Nöfn Íslendinga. Ný útgáfa. Reykjavík 2011, bls. 496.
Viktors saga og Blávus. Jónas Kristjánsson bjó til prentunar. Riddarasögur II. Reykjavík 1964.
ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/11-9.
Vefheimildir:
Gísli H. Kolbeins, „Skáld-Rósa. Stiklað á stóru í ættfræðinni.” Fréttabréf ættfræðifélagsins, mars 2008, bls. 3–5. https://timarit.is/page/5631620#page/n2/mode/2up
Jón Torfason. „Þættir úr sögu sveitar”. Þættir 50, 51, 79, 80 og 81. www.huni.is
Manntalsvefur Þjóðskjalasafns www.manntal.is
Sóknamannatalsgrunnur Þjóðskjalasafns https://salnaregistur.manntal.is/
Vefsjá kirkjubóka: https://vefsja.skjalasafn.is/