Stundum varðveitast skjöl á öðrum stað en ætla mætti. Við skráningu og frágang á skjalasafni Yfirréttarins á Íslandi fyrir nokkru síðan komu í leitirnar lög Íslenska akuryrkjufélagsins 1770–1777. Töluverður fengur var að þessum fundi þar sem lög félagsins hafa ekki varðveist annars staðar svo vitað sé. En hvað voru lög Íslenska akuryrkjufélagsins að gera þarna innan um málsskjöl Yfirréttarins? Akuryrkjufélagið átti ekki í neinum málaferlum og kom aldrei fyrir rétt, hvorki Yfirréttinn né önnur dómstig. Skjöl félagsins ættu þess vegna alls ekki að hafa endað þarna. Ástæðan er önnur.
Íslenska akuryrkjufélagið var stofnað 24. júlí 1770 á alþingi á Þingvöllum og voru félagsmenn 24 að tölu. Formaður félagsins var Ólafur Stefánsson amtmaður en ritari var kosinn hálfbróðir hans, Oddur Stefánsson. Oddur gegndi á sama tíma starfi ritara við Yfirréttinn sem skýrir hvernig skjöl Akuryrkjufélagsins geta hafa endað í skjalasafni Yfirréttar. Það kostulega við þetta er svo að skjalasafn Yfiréttarins sjálfs er einstaklega illa varðveitt í tíð Odds sem ritara. Öll málsskjöl vantar frá 1770–1771 eftir að Oddur var settur ritari og sömuleiðis eftir að hann var formlega skipaður dómsmálaritari 1772–1789.
Þá hefur ekki heldur varðveist neitt skjalasafn Akuryrkjufélagsins enda varla von til þess af svo litlu félagi sem starfaði einungis í fáein ár á átjándu öld. Heimildir um félagið er helst að finna í bréfaskrifum framámanna þess, einkum í einkaskjölum þeirra feðga og biskupa, Finns Jónssonar og Hannessar Finnssonar, og skrifum stiftamtmanns til stjórnvalda í Kaupmannahöfn en félagið vonaðist eftir konungsstyrk til framkvæmda.
Lög Akuryrkjufélagsins í skjalasafni Yfirréttar eru í tveimur eintökum sem ekki eru nærri því samhljóða. Fyrra eintakið er í 14 liðum og er óundirritað og án dagsetningar. Það virðist því nokkuð augljóslega vera fyrstu drögin að lögunum. Síðara eintakið er í 12 liðum, dagsett 24. júlí 1770 á alþingi við Öxará, undirritað af 20 félagsmönnum og verður að skoðast sem endanleg gerð laganna. Efnislega ber helst á milli eintakanna að í hinu fyrra er gert ráð fyrir að félagsmenn skuli vera 12 og að félagið sæki um að fá einhverjar ótilgreindar eyðijarðir í eigu konungs til umráða og eignar en í hinu síðara eða lokagerðinni eiga félagsmenn að vera 24 og sækir félagið sérstaklega um að fá jarðirnar Lágafell og Blikastaði í Mosfellssveit til eignar svo lengi sem akuryrkja sé þar stunduð. Jafnframt var óskað eftir frekari stuðningi konungs eins og áhöldum til akuryrkju, ókeypis timbri til byggingar á kornhlöðu, ókeypis vinnuframlagi fanga í tukthúsinu og ákveðins gjalds af fálkaveiðum á Íslandi.
Aftan við lögin er afrit af stuttu bréfi stíluðu til Landsnefndarinnar fyrri: „Velædle og velbyrdige, höystærede hhr. Landcommissarier“, en Landsnefndin fyrri var einmitt stödd hér á landi sumarið 1770 til að kanna ástand landsins og setja saman viðreisnartillögur um endurreisn atvinnuveganna fyrir stjórnvöld í Kaupmannahöfn. Oddur Stefánsson undirritar þetta bréf tveimur dögum áður en Akuryrkjafélagið var formlega stofnað, þ.e. þann 22. júlí 1770. Þetta afrit er ef til vill brot úr bréfabók félagsins sem ekki hefur varðveist.
Samkvæmt þessu bréfi hefur Landsnefndin fyrri fengið sent eintak af lögum félagsins og mun það hafa verið að beiðni Hannesar Finnssonar. Það kemur reynar mjög á óvart þar sem hvorki lögin né önnur gögn varðandi Akuryrkjufélagið eru skráð meðal innkominna bréfa til Landsnefndarinnar fyrri en Landsnefndin hélt nákvæma skrá yfir öll bréf sem hún tók við meðan hún var hér á landi. Skal það því dregið mjög í efa að Landsnefndin hafi nokkurn tíma fengið lögin í hendur. Hitt er svo að Þorkell Fjeldsted, einn af nefndarmönnum Landsnefndarinnar var meðlimur í Akuryrkjufélaginu og nefndin hefur því vissulega vitað vel af stofnun félagsins og þekkt til fyrirætlana þess.
Ólafur Stefánsson amtmaður ritaði bréf til konungs 27. ágúst 1770, þar sem hann biður konung að staðfesta lög hins nýstofnaða akuryrkjufélags og sótti um styrk til framkvæmda. Thodal stiftamtmaður fékk beiðnina til umsagnar en réð frá svo stórtækum framkvæmdum. Betra væri að byrja í smærri stíl að hans hyggju. Ekkert varð því úr að félagið fengi konungsstyrk. Skrif þeirra Ólafs og Thodals liggja í bréfasafni rentukammers en ekki er þar afritið af lögum félagsins sem Ólafur mun hafa sent með.
Í vetrarbyrjun 1771 hafði Landsnefndin fyrri lokið störfum hér á landi og var verið að vinna efnisútdrætti úr gögnum hennar í rentukammeri veturinn 1771–1772. Í þessum efnisútdráttum, undir liðnum „akuryrkjan á Íslandi“, skjóta svo óvænt upp kollinum útdrættir úr lögum Akuryrkjufélagsins og skrifum Ólafs og Thodals um málið sem þó voru aldrei formlega á borðum Landsnefndarinnar fyrri heldur eingöngu rentukammersins sjálfs. Fýsileiki kornræktar á Íslandi var eitt af þeim framfaramálum sem Landsnefndinni fyrri hafði verið falið að kanna og stofnun Akuryrkjufélagsins hefur verið nátengd því. Óreiða í skjalavörslu við Yfirréttinn varð svo til þess að eintak af lögum félagsins varðveittist.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir
Lög íslenska akuryrkjufélagsins 1770.