Í júlímánuði árið 1939 var Birni Blöndal, sérstökum löggæslumanni ríkisins, falið að gera úttekt á ástandi á veitingastöðum á landinu. Þekktastur er Björn eflaust vegna harðvítugrar baráttu gegn bruggurum landsins og er óhætt að segja að hann hafi verið samviskusamur embættismaður, sem gerði sitt besta í að uppræta ólöglega bruggun áfengis. Það starf hans leiddi hann vítt um land og var honum því vel kunnugt um ástandið í þessum geira.
Þann 1. desember 1939 skilaði Björn svo skýrslu til Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Skýrslan er afar ítarleg. Er hún heimild janúarmánaðar 2021 og eru birtar hér nokkrar síður úr henni. Alls er skýrslan 47 blaðsíður og í henni rekur Björn ástand mála, sérstaklega með tilliti til gististaða, en fjallað er um 50 gististaði í skýrslunni. Í inngangi sagði Björn m.a:
Á stöku stað er sóðaskapur svo mikill t.d. hvað snertir salerni og allan útbúnað þeirra, að ég komst í vandræði, er ég fór að semja skýrslunna, að skýra rétt frá ástandinu, en haga þó svo orðum mínum að ekki þætti hneykslanlegt.
Í skýrslunni rekur Björn síðan ástand mála um allt land. Hefur för í Vík í Mýrdal, þar sem hann segir gistihúsið vart boðlegt:
[Rúmin með] þunnum heydýnum eða hálmdýnum, þungum sængum og fúkkalykt. … Vatnssalerni er ekki í húsinu, en rétt innan við innganginn stendur ljótt og skakt og þraungt kaggasalerni, sem losa verður 2-3 á dag, ef nokkur gestakoma er. Frárennsli er ekkert frá húsinu og er þó vatnssalerni komið víða í hús í Vík.
Svipaðar lýsingar má finna afar víða. Í samantekt bendir Björn á að ástandið á fjölsóttustu stöðum á landinu: Þingvöllum, við Geysi og við Gullfoss sé ástandið svo slæmt að það megi kallast þjóðarskömm. Við Gullfoss sé hreinlætið að vísu skárra en við Geysi en:
… lega skúra-kumbaldann á árbakkanum er flestum gestum, sem þar koma, þyrnir í augum og dregur úr áhrifum staðarins.
Gagnrýni Björns snýr þó ekki aðeins að hreinlæti, heldur einnig að þægindum gesta. Í samantekt segir hann að mikilvægt sé að setja lög eða reglugerð þar sem eftirfarandi atriði verði sett fram:
Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.
Heimildir