Magnús Þorvaldsson var líkast til Skagfirðingur sem á skrifandi stundu hefur enn ekki tekist að ættfæra. Hann fór ungur utan til Kaupmannahafnar og lærði smíðar. Í manntalinu 1801 má finna Magnus Toralsen meðal leigjanda, ásamt fimm öðrum smiðum, hjá Niels Hansen gestgjafa (d. værtshusholder) á Nýju Kóngsinsgötu 264. Númerið mun vera lóðarnúmer en ekki húsnúmer. Magnús var þar skráður sem 34 ára (fæddur um 1767), ógiftur smiður (d. tømmermand). Eftirnafnið Toralsen mun sennilega vera tilraun manntalstökumanns til að skrifa Þorvaldsson en á endanum fordanskaði Magnús föðurnafn sitt og kallaði sig Thorvaldsen.
Í framhaldinu hóf Magnús störf sem skipasmiður við skipasmíðastöð konungs á Hólminum þannig að tæknilega séð var hann í sjóhernum. Það sést í kirkjubók Hólmsins kirkju en þar kemur fram að hann var skráður úr sjóhernum 12. febrúar 1817. Magnús kvæntist 21. mars 1817 og var þá sagður 48 ára (fæddur um 1769) og til heimilis á Borgaragötu 173. Svaramaður hans var Einar Thoroddsen (1769–1851) te- og postulínskaupmaður. Einar var sonur Þórodds Þóroddssonar beykis á Vatneyri í Patreksfirði og Bergljótar Einarsdóttur og föðurbróðir Jóns Thoroddsens sýslumanns og skálds. Einar lærði upphaflega gullsmíði en söðlaði svo um og gerðist kaupmaður. Hann átti danska konu Johanne Marie að nafni (fædd Jensen) og átta börn þar á meðal tvo syni sem hafa verið yngstir og finna má í manntalinu 1840 enn í föðurhúsum; þá Christian Frederik lögregluþjón og Kjartan Ludvig gullsmið. Þau bjuggu lengst af á Antonistræti 236 en árið 1901 var strætið breikkað og húsið varð eftir það Antonigata 7.
Eiginkona Magnúsar var íslensk kona að nafni Aldís Jónsdóttir. Hún var 35 ára og því fædd um 1782. Svaramaður hennar var Peter Faxøe (um 1760–1840) málarameistari en hún mun væntanlega hafa verið þjónustustúlka hjá honum því að hann bjó í Sankti Pétursstræti 134 (nú nr. 30) sem var sagt heimilisfang Aldísar í kirkjubókinni. Aldís þessi mun líkast til vera sama kona og finna má í manntalinu 1801, 20 ára (fædd um 1781) þjónustustúlka á Bessastöðum á Álftanesi hjá Joachim Christian Vibe amtmanni. Vibe lést 11. febrúar 1802 og í kjölfarið fór ekkjan, Ingeborg Christine (fædd Hirsch), með skyldulið sitt af landi brott til Kaupmannahafnar og mun Aldís væntanlega hafa flotið með sem þjónustustúlka fjölskyldunnar.
Þau hjón virðast hafa verið barnlaus og Aldís varð ekki langlíf því að hún lést 24. júní 1825 á Friðriksspítala. Í kirkjubók spítalans er nafn hennar afbakað í „Audies“ og hún sögð eiginkona Thorvaldsens smiðs. Reyndar segir þar „Tömmermand eller (Tömmersvend)“ sem kemur í sama stað niður því handverksdrengur varð sveinn að sveinsprófi loknu. Þau voru til heimilis á Stóru Kóngsinsgötu 263, 2. sal út til garðsins. Dánarorsök var sögð brjóstveiki (d. brystsygdom) og jarðarför hennar fór fram 28. júní 1825. Andlát Aldísar var einnig fært inn í kirkjubók Garnisonkirkju sem var sóknarkirkja hennar. Þar var nafn hennar skráð rétt en ekki aldurinn því að þar var hún sögð 50 ára (fædd um 1775) eiginkona smiðs. Í dálknum dvalarstað (d. opholdssted) var heimilisfangs ekki getið heldur aðeins fært inn Friðriksspítali. Ósamræmi er á milli kirkjubókanna því að hér er dánardagur Aldísar sagður 22. júní 1825 og dánarorsökin sögð vatnssýki (d. vattersot) sem mun vera bjúgmyndun í líffæri og þá líkast til í lungum sé tekið mið af kirkjubók Friðriksspítala. Kirkjubókunum ber saman um jarðarfarardag en að auki sést hér að hún hafi verið grafin utan Norðurports sem á líkast til við um Hjástoðarkirkjugarð (d. Assistens kirkegård). Komubók Friðriksspítala sker þó úr um dánardaginn en þar segir að „Andies Thorvaldsen“ 43 ára (fædd um 1782), frá Íslandi og var lögð inn á spítalann 30. maí en lést að morgni 24. júní 1825.
Magnús kvæntist í annað sinn 5. maí 1826. Í kirkjubók kemur fram að hann var ekkjumaður, 53 ára (fæddur um 1773) verkamaður (d. arbejdsmand) til heimilis á Stóru Kóngsinsgötu 263. Brúður hans hét Anne Nielsdatter, 47 ára (fædd um 1779) til heimilis á Krónprinsessugötu 388. Svaramaður Magnúsar var sem fyrr Einar Thoroddsen en fyrir Anne var það fyrrverandi gestgjafi Niels Møller til heimilis að Brúargötu 12. Hann hefur ekki verið faðir hennar því að í heimildum er hún ýmist kölluð Nielsdatter eða Nielsen en aldrei Møller. Umræddan Niels Møller má finna í manntalinu 1801 en hann var þá fertugur gestgjafi, kvæntur Kirstine Thomsen og saman áttu þau Anne Marie sem var tveggja ára gömul. Hann var ekki staðsettur nákvæmlega heldur aðeins sagt að hann búi í Norðurhverfi (d. kvarter) sem var eitt af tólf hverfum Kaupmannahafnar. Í sama manntali má finna Anne Nielsen 22 ára (fædd um 1779) barnapíu. Heimilisfang hennar er óljóst en hún bjó ásamt fjórum öðrum í Austurhverfi og einungis tiltekið lóðarnúmerið 145 án götuheitis.
Í manntalinu 1834 var Magnús sagður 61 árs (fæddur um 1773) skipasmiður og bjó ásamt eiginkonu sinni Anne Nielsen, 56 ára (fædd um 1778), í bakhúsi við Stóru Kóngsinsgötu 263. Anne lést 10. október 1838 og var grafin í Hjástoðarkirkjugarði átta dögum síðar. Í kirkjubók segir að Anne Thorvaldsen, fædd Nielsdatter, hafi verið 60 ára (fædd um 1778) eiginkona Magnúsar götuvaktara (d. gadevægter), það er næturvarðar og að heimili þeirra hafi verið á Brúargötu 11. Dánarorsökin var sögð drukknun og í því samhengi minnst á líkhúsið (d. lighuset) við Löngubrú. Það gekk undir heitinu Hús hinna drukknuðu (d. Druknehuset) og var reist við Löngubrú árið 1806. Fólk sem hafði drukknað var flutt þangað og í þrjá daga gerðu læknar lífgunartilraunir á því. Þetta var fyrir tíma viðurkenndra læknisfræðilegra staðla um hvenær fólk teldist látið og mikill ótti var á meðal almennings um skindauða, þ.e.a.s. það að viðkomandi væri í raun ekki dáinn þótt hann sýndi engin lífsmerki og væri því grafinn lifandi. Í athugasemdadálki kemur fram að fógeti konungs, þ.e. bæjarfógeti Kaupmannahafnar, hefði gefið: „Tilladelse at begraves i kirkegaard, med jordspaakastelse.“ Það þýðir að Anne mun hafa framið sjálfsmorð og Magnús því þurft að sækja um undanþágu til bæjarfógeta svo að hún fengi að hvíla í vígðri mold. Það leyfi var veitt 12. október 1838.
Í manntalinu 1840 var Magnús sagður 70 ára (fæddur um 1770) ógiftur brúarvörður. Hann bjó þá ásamt Margrethe Rasmussen 34 ára ógiftri þjónustustúlku í fyrsta baksal á Brúargötu 18 en sú gata varð til 1806 og aflögð árið 1938. Með fyrsta baksal mun átt við aðra hæð og hefur íbúðin snúið út til garðsins. Upphaflega lá Knippilsbrú norðar en hún gerir í dag og kom í land á Kristjánshöfn þar sem nú er syðsti hluti danska Utanríkisráðuneytisins. Brúargata leiddi svo vegfarendur upp til Kristjánshafnartorgs.
Árið 1838 var Magnús sagður götuvaktari eða næturvörður sem þýðir að hann hafi verið í vaktarasveit Kaupmannahafnar (d. vagterkorpset) sem vaktaði götur borgarinnar á næturnar. Næturverðir kveiktu á ljósastaurunum, þ.e. ljóskerum sem brenndu íslensku lýsi fram til 1857 er farið var að taka upp gasljósker. Vaktarar áttu jafnframt að gera viðvart ef eldur kæmi upp, stöðva innbrot, drykkjulæti og svo framvegis en eitt af verkfærum þeirra var morgunstjarna sem var langur stafur með gaddakúlu á endanum. Þá sungu þeir einnig vaktaraversin á klukkutíma fresti svo að borgarbúar gátu vitað hvað tímanum liði.
Einhvern tíma á árabilinu 1838–1840 fékk Magnús vinnu sem brúarvörður við Knippilsbrú sem tengir saman Kaupmannahöfn og Kristjánshöfn. Brúin var vindubrú og á þeim tíma var henni lyft með handafli. Þann 21. febrúar 1842, klukkan korter í eitt eftir
hádegi, var Magnús færður á Friðriksspítala, sagður 68 ára (fæddur um 1774) Íslendingur og brúarvörður til heimilis á Brúargötu 18. Magnús lá á spítalanum í um þrjár vikur og lést 13. mars 1842. Í kirkjubók spítalans kemur fram í athugasemd: „Til skade kommen.“ Hann hefur því slasast og á endanum látist af sárum sínum. Hann var jarðaður 20. mars 1842. Andlát hans var einnig fært inn í kirkjubók Hólmsins kirkju. Þar koma fram sömu upplýsingar nema þar var dánarorsökin sögð vera þvagfærasýking (d. sygdom i urinvejene).
Magnús var gerður ódauðlegur í endurminningum Carls Frederiks Wilckens (1808–1877) sem var einkaþjónn Bertels Thorvaldsens (1770–1844) myndhöggvara. Wilckens varð eftir andlát húsbónda síns fyrsti forstöðumaður Thorvaldsenssafnsins í Kaupmannahöfn. Eftir að Thorvaldsen kom heim frá Róm 17. september 1838 bjó hann til dauðadags í listaháskólanum í Charlottenborgarhöll sem stendur við Kóngsins Nýjatorg. Hann fór reyndar utan til Rómar að sækja verk á vinnustofu sína og var í burtu frá 25. maí 1841 til 24. október 1842. Hann lifði ekki að sjá húsið, sem byggt var yfir höggmyndasafn hans, fullklárað en var grafinn í garði í miðju þess. Wilckens lýsti því þegar Magnús bankaði uppá hjá Thorvaldsen þannig:
En Søndag Morgen kom der en simpel, men renlig og ordentlig klædt Mand og spurgte, om hand kunde faae Thorvaldsen i Tale. Jeg bad ham at sige mig sit Ærinde, og han svarede: „Jeg kommer ikke for at bede Thorvaldsen om Noget, men jeg vilde gjerne vide, om vi, hvad jeg formoder, skulde være i Familie sammen, da jeg er en født Islænder og hedder Thorvaldsen.“ Han var Brovægter ved Knippelsbro og omtrent 50 Aar gammel. Da jeg meldte dette til Thorvaldsen, sagde han: „Lad Manden komme ind.“ Saasnart jeg havde ført ham ind, lod Thorvaldsen ham strax tage Plads i Sofaen ved sin Side. Han blev en god time hos Thorvaldsen, som med megen Godmodighed hørte hans Familieregister, der var af noget blandet Beskaffenhed. Under Samtalen sagde Thorvaldsen „Ja“ til Alt hvad hand sagde, og ved Afskeden spurgte han ham, om han behøvede nogen Understøttelse, hvortil Brovægteren svarede: „Nei Tak! Jeg har en Tjeneste, hvormed jeg godt kan komme ud af det, men jeg følte Trang til at tale med Conferensraaden om mit Familieforhold til Dem.“ Thorvaldsen bad ham besøge sig saa ofte han havde Lyst; han skulde altid være velkommen; han kom ogsaa hver anden eller tredie Søndag. Engang, da han var gaaet, spurgte jeg Thorvaldsen, om han anmodede ham om Penge? „Nei,“ svarede Thorvaldsen, „men han vil gjerne være i Familie med mig, og naar det kand glæde ham, saa kan jeg jo gjerne lade ham blive i den Tro, endskjønd jeg ikke kan opdage den mindste Familiebaand imellem os.“
Að sögn Wilckens var þessi sómakæri Íslendingur ætíð mjög þakklátur í hvert skipti sem hann sótti Bertel Thorvaldsen heim. Hann segist oft hafa þurft að vísa tignari gestum frá því að listamaðurinn vildi ekki valda nafna sínum neinum óþægindum.
Eitt sinn á blíðviðrisdegi er Thorvaldsen fór í göngutúr þá stakk einkaþjónninn upp á því að þeir gengju út að Knippilsbrú og sæju Magnús að störfum. Thorvaldsen leist vel á það en þegar þeir voru komnir að brúnni sagði Wilckens að þeir gætu vel farið yfir brúna án þess að láta vita af sér. Thorvaldsen leist ekki á þá hugmynd og sagði að Magnús hefði svo oft heimsótt sig að nú vildi hann gjarnan endurgjalda fyrri heimsóknir. Thorvaldsen tók í hönd nafna síns, uppáklæddum í vaktaraeinkennisbúningi sínum, sem varð við það hálffeiminn en brátt hófu þeir að ræða saman og gleymdu stund og stað. Einkaþjónninn þurfti á endanum að grípa inn í til þess að stöðva samtalið og koma í veg fyrir að múgur og margmenni safnaðist sem furðaði sig á því af hverju Thorvaldsen væri að ræða svona innilega við brúarvörðinn.
Að þessu loknu spurði Wilckens Thorvaldsen hvort hann vildi ekki heimsækja Johan Ludvig Heiberg (1791–1860) skáld sem bjó í nágrenninu, þ.e. á Brúargötu 5 úti á Kristjánshöfn. Eiginkona hans Johanne Luise (1812–1890), leikkona við konunglega leikhúsið, var ekki heima og Heiberg reyndi að hafa ofan af fyrir Thorvaldsen með því að sýna honum stjörnufræðiáhöld sín. Thorvaldsen dauðleiddist en heim kominn þakkaði hann einkaþjóninum fyrir að hafa farið með sig að heimsækja hinn sómakæra nafna sinn á Knippilsbrú. Wilckens sagði að nú gæti fólk ekki sagt að hinn frægi Thorvaldsen væri yfir almúgann hafinn. Thorvaldsen svaraði því til að í þessum tveimur heimsóknum hafði hann skemmt sér mun betur hjá brúarverðinum. Þeir hafa náð vel saman enda báðir iðnaðarmenn af íslenskum ættum. Þá kann Magnús, sem skipasmiður á Hólminum, að hafa þekkt til Gottskálks Þorvaldssonar (1741–1806), föður Thorvaldsens en hann skar út stafnlíkneski meðal annars fyrir skipin sem smíðuð voru á Hólminum.
Eitthvað hefur Wilckens misminnt því að hann segir Magnús hafa verið um fimmtugt en samkvæmt manntalinu 1840 var hann sjötugur. Fæðingarár hans er hins vegar mjög á reiki eða á bilinu 1767–1774 en vænlegast að treysta á upplýsingarnar í komubók Friðriksspítala. Einnig væri áhugavert að vita hvað Wilckens átti við þegar hann talar um að ættrakningar Magnúsar hafi verið „af noget blandet Beskaffenhed“ sem Björn Th. Björnsson listfræðingur þýðir „þar sem ýmsu og ólíku ægði saman“. Það er heldur ólíklegt að Thorvaldsen hafi vitað mikið um föðurætt sína en til er ættartala hans sem Jón Espólín sýslumaður og sagnaritari tók saman að bón Gunnlaugs Briems sýslumanns. Hún er óársett en var ef til vill tekin saman svo að Jóhanna, dóttir Gunnlaugs, gæti fært Thorvaldsen hana en hún fór til Ítalíu með Birgi (Børge) Riisbrigh Thorlacius háskólakennara og hitti listamanninn árið 1826. Ættartalan er varðveitt í uppskrift Finns Magnússonar sem sendi Just Mathias Thiele (1795–1874) ævisöguritara Thorvaldsens hana og hafa sérfræðingar Thorvaldsenssafns ársett hana til á að giska 1829. Finnur getur í uppskriftinni að sjöunda bindi Árbóka Espólíns sé komið út en það kom út árið 1828 og áttunda bindið árið 1829. Þar sem óvíst er hvenær á árinu það kom út er þessi ársetning nokkuð nærri lagi. Galli á ættartölunni er hins vegar sá að ættrakningin er lóðrétt og markmiðið að rekja eins langt aftur til mikilmenna í Íslandssögunni. Hún gagnast því ekki til þess að finna snertiflöt við Magnús Thorvaldsen. Þess má geta að ættartala Thorvaldsens eftir Ólaf Snóksdalín ættfræðing, sem varðveitt er í ÍB 145 8vo, er eins uppbyggð og kann að stofni til vera byggð á Espólín þótt það hafi ekki verið kannað.
Thorvaldsen heimsótti Magnús á vinnustað hans, sjálfa Knippilsbrú, en hann bjó ekki langt undan eða á 2. hæð út til garðsins á Brúargötu 18 og var því nágranni Heibergs en umtalsverður munur hefur sjálfsagt verið á húsakynnunum. Þessi heimsókn mun eflaust hafa verið Magnúsi ógleymanleg enda var Thorvaldsen einn þekktasti maður Danmerkur og má ætla að frægðarsól hans hafi varpað ljóma á hinn óbreytta brúarvörð. Það er hins vegar spurning hvort hægt sé að tímasetja heimsóknina nánar. Í skjalasafni hafnarstjóra Kaupmannahafnar má nefnilega finna dagbók brúarvarða Knippilsbrúar sem spannar árin 1827–1960 en upplýsinganna væri helst að leita í pakka nr. 2 sem nær yfir árin 1837–1846 (RA. Københavns havn. Havnekaptajnen. Dagjournaler for bromanden ved Knippelsbro 1827–1960). Heimsóknin mun hafa átt sér stað einhvern tíma á tímabilinu 17. september 1838, er Thorvaldsen kom heim til Kaupmannahafnar, og 25. maí 1841 er hann fór til Rómar. Hann sneri ekki aftur fyrr en eftir andlát Magnúsar og gat því ekki fylgt nafna sínum til grafar. Áhugavert væri að kanna hvort Magnús hafi fært lýsingu á heimsókninni inn í dagbókina og geta þá um leið tímasett hana. Sömuleiðis hvort Magnús hafi slasast við skyldustörf og hvort eitthvað hafi verið skráð um slysið sem hann varð fyrir. Til þess að komast að þessu þarf hins vegar að sækja ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn heim.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta
Heimildir:
RA. Garnisons sogn. Kontraministerialbog. (Døde kvinder 1820–1828), bls. 165.
RA. Holmens sogn. Kontraministerialbog. (Viede 1813–1820), bls. 214.
RA. Holmens sogn. Kontraministerialbog. (Døde mænd 1840–1862), opna 29.
RA. Trinitatis sogn. Hovedministerialbog. (Viede 1813–1841), bls. 251.
RA. København. Vor Frelsers sogn. Kontraministerialbog. (Døde kvinder 1832–1843), bls. 305.
RA. Det kongelige Frederiks Hopitalskirke. Kontraministerialbog. (Døde kvinder 1824–1831), bls. 70.
RA. Det kongelige Frederiks Hospitalskirke. Kontraministerialbog (Døde mænd 1840–1857), bls. 36.
RA. Det kongelige Frederiks Hospital. Sygeprotokol 1825, án blaðsíðutals en sjúklingum er gefið hlaupandi númer og er Aldís nr. 1151.
RA. Det kongelige Frederiks Hospital. Sygeprotokol 1842, opna 87.
Lbs.–Hbs. ÍB 145 8vo, bls. 129–155. Genealogia Alberts Thorvaldsen þess yfir alla Norðurálfuna fægasta mynda- og bílætameistara. Samanskrifuð og rakin frá kynsælustu landnáms- og merkismönnum sem verið hafa hér á landi af Ólafi Snóksdalín á hans 81. aldursári 1842.
Aðalgeir Kristjánsson, Nú heilsar þér á Hafnarslóð. Ævir og örlög í höfuðborg Íslands 1800–1850. Reykjavík 1999, bls. 26–27.
Björn Th. Björnsson, „Draumur um Gamlahólm“, Úr plógfari Gefjunar. Tólf Íslendingaþættir. Reykjavík 1996, bls. 45–54, 140–141. (Þessi þáttur Björns um Magnús eru að langmestu leyti hreinn skáldskapur og sýnir hættuna við að grípa til skáldskaparins, þegar um raunverulegar manneskjur er að ræða, áður en reynt hafi verið til þrautar að grafa niður á fast í skjalasöfnum.)
Bricka, C.F., Dansk biografisk lexikon, tillige omfattende Norge for tidsrummet 1537–1814 XVIII, Ubbe–Wimpffen. Kjøbenhavn 1904, bls. 500.
Christensen, Villads, København i Kristian den ottendes og Frederik den syvendes tid, 1840–1857. København 1912, bls. 48.
Hrafn Sveinbjarnarson, „Vökumaður, hvað líður nóttinni? Um vaktaraversin í Reykjavík.“ Ritmennt 8 (2003), bls. 93–128.
Manntal á Íslandi 1801. Suðuramt. Reykjavík 1978, bls. 368.
Minderige huse. Kendte mænd og kvinders boliger uddraget af Kjøbenhavns vejvisere 1770–1870. Kjøbenhavn 1922, bls. 37, 174.
Seidelin, Mogens, Den Seidelinske slægtsbog III, ca. 1780–ca. 1860. Odense 1971, bls. 1291.
Thorvaldsen við Kóngsins nýjatorg. Endurminningar um daglegt líf Alberts Thorvaldsens eftir einkaþjón hans, Carl Frederik Wilckens. Umsjón og þýðing: Björn Th. Björnsson. Reykjavík 1978, bls. 43–45 (bein tilvitnun af bls. 44).
Wilckens, Carl Frederik, Træk af Thorvaldsens konstner- og omgangsliv. Kjøbenhavn 1874, bls. 10–13 (bein tilvitnun af bls. 10–11).
Þorvaldur Thoroddsen, Minningabók I, Æskuár. Kaupmannahöfn 1922, bls. 12.
Þór Magnússon, Íslensk silfursmíð II. Reykjavík 2013, bls. 192.
Vef. Dansk demografisk database (ddd.dda.dk).
Vef. Rigsarkivet (arkivalieronline.rigsarkivet.dk).
Vef. Thorvaldsens museum (thorvaldsensmuseum.dk). Þaðan eru fengnar upplýsingar um komur og brottfarir Thorvaldsens til og frá Kaupmannahöfn. Ættartölu Thorvaldsens eftir Jón Espólín má og finna þar. Þá hefur bréfasafn Thorvaldsens verið myndað, skrifað upp og samdar skýringar við hluta þess en unnið er að því að skrifa skýringargreinar við öll skjöl í skjalasafni hans.