„Það mínum heimuglegum bréfum viðvíkur eftir áburði Snæbjarnar, þá gubbaði hann fyrst yfir þeim í sínu langa innleggi fyrir lögréttunni 1723 ...“ (bls. 218)
Tilvitnunin að ofan er fengin úr innleggi Orms Daðasonar, sýslumanns í Strandasýslu móti Snæbirni Pálssyni, lögréttumanni úr Ísafjarðarsýslu fyrir lögréttu þann 14. júlí 1727. Innleggið er birt í heild sinni í Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl III. 1716 –1732, sem er að koma út nú á dögunum í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags. Það verða öll skjöl og dómar yfirréttarins gefin út í 10 bindum. Blaðsíðutöl innan sviga vísa til þriðja bindis útgáfunnar.
Dómur í deilu Orms og Snæbjörns féll fyrir æðsta dómsstigi innanlands, yfirréttinum, árið 1728 en málið átti sér áralanga sögu sem hófst að kvöldi þess 30. maí árið 1722, þegar Snæbjörn lét falla ærumeiðandi ummæli um Pétur Arvidsson kaupmann á Dýrafirði, og enn stóð Snæbjörn í málarekstri sem rekja mátti til ummælanna svo seint sem árið 1735.
Upphafleg málsatvik komu Ormi Daðasyni ekkert við en þar sem annað þeirra vitna sem Pétur Arvidsson hafði um ærumeiðingarnar var sjálfur sýslumaðurinn í Ísafjarðarsýslu, Markús Bergsson, var þörf á utanaðkomandi dómara til að halda héraðsþing í málinu og Ormur var því skipaður setudómari. Ormur hélt tvö þing í meiðyrðamáli Péturs og Snæbjörns á Mýrum í Dýrafirði, það fyrra 21.–22. september 1722 og það seinna 26. ágúst 1723. Á fyrra þinginu kvað Ormur ekki upp neinn dóm en úrskurðaði að sýslumaðurinn Markús Bergsson væri löggilt vitni þrátt fyrir ýmiss konar mótmæli Snæbjörns gegn honum. Þann 26. september 1722 áfrýjaði Snæbjörn þeirri niðurstöðu til alþingis.
Þegar þarna er komið við sögu eru samskipti Orms og Snæbjörns öll hin vinsamlegustu. Í bréfi Snæbjörns til yfirréttarins 18. júlí 1735 (væntanlegt í Yfirréttinum IV) kemur fram að Ormur gisti á heimili Snæbjörns á meðan réttarhöldin haustið 1722 stóðu yfir. Síðar sendi Ormur Snæbirni tvö bréf um afrit dómsins og áfrýjun málsins, þann 30. september og 14. október 1722. Það fyrra hefst á „Með þakklæti fyrir síðast og allt gott auðsýnt“ og Ormur kveður Snæbjörn með adieu og tres adieu. Í fyrra bréfinu segir meðal annars: „... hefði ég heldur stefnt þessu, þó þér lítið við það vinnið, fyrst þér tókuð ei það ráð, sem seigneur Markús segist hafa yður sagt að játa yður hafa þetta í drykkjuskap talað sem nú er of seint.“ (bls. 223–224) Bréfin voru síðar meir lögð fyrir yfirréttinn ásamt öðrum málsgögnum og eru sömu heimuglegu bréfin og Ormur sagði að Snæbjörn hefði gubbað yfir fyrir áfrýjunardómstólnum á Alþingi sumarið 1723. Það kveður nefnilega við annan og kuldalegri tón í opnu bréfi Orms til Snæbjörns þann 22. mars 1723. Þá hafði Ormur fengið fregnir af því að Snæbjörn hefði áfrýjað vitnaleiðsluþinginu frá haustinu 1722 til alþingis sumarið eftir á grundvelli þess að Ormur hefði dregið taum Péturs Arvidssonar og spillt máli Snæbjörns af ráðnum hug. Bréfið hófst ekki á hefðbundinni kveðju heldur ávarpsorðunum: „Monsieur Snæbjörn Pálsson. Náð og friður með lifnaðarins leiðréttingu.“ Segir þar svo meðal annars:
Þar inni gefið þér mér 13 sakir, hvar af sumar eru óforskömmuð lygi, er bevísa vil, sem annaðhvört of nærri gengur mínu dómaraembætti og respekti ellegar horfir til stórra féútláta, væri ég sannur að sök. (bls. 225)
Snæbjörn rak svo málið af kappi á alþingi sumarið 1723 (eða gubbaði yfir það, ef við föllumst á lýsingar Orms á málflutningnum) og samskipti þeirra voru við frostmark þegar Ormur sneri aftur til Dýrafjarðar í ágústlok 1723 til að kveða upp endanlegan dóm í máli Péturs Arvidssonar á héraðsþingi á Mýrum. Samkomulag þeirra batnaði ekki við það að Snæbjörn flaug á Orm á héraðsþinginu og reyndi eftir bestu getu að rífa af honum sverðið, svo við lá að Ormur dytti kylliflatur. Þegar þetta tókst ekki beið Snæbjörn færis þegar lengra leið á réttarhaldið, læddist aftan að Ormi þegar hann var að skrifa, kippti korðanum úr slíðrinu og skaust með hann nakinn út. Af málsskjölunum að dæma virðist Snæbjörn ekki hafa skilað sverðinu aftur og Ormur átti seint eftir að jafna sig eftir þessa uppákomu.
„[K]alla ég ljósast að hann hafi brúkað korðann fyrir urriðafylgsni sem kænn prakkari en ásetningurinn hafi verið að draga mig úr mínu dómarasæti með afli og handgjörningum, þar hann kraftaði því ekki með pennanum í sínu lygainnleggi“. (bls. 294)
Ormur taldi sig hafa harma að hefna í málflutningi sínum gegn Snæbirni og sparaði því ekki stóru orðin. Orðin álygi og áaustur voru honum töm þegar hann talaði um Snæbjörn og honum varð tíðrætt um ósannindi Snæbjörns, eins og í eftirfarandi skýrslu frá 5. desember 1724:
Stefndi mér í réttarstefnunni 13 ákærum með ósannindum, forsvaraði þær á lögþinginu í lögréttu með ósannindum, þoldi féútlátadóm að framfærðum ósannindum, appelleraði frá þeim sama dómi til að framhalda sínum ósannindum ... (bls. 284–285)
Málflutningur Snæbjörns var „margtuggin lygi af einum lygara rituð“ (bls. 293) og að sanna þessi ósannindi myndi reynast Snæbirni álíka auðvelt og að „plokka jurtir úr brenndu grjóti“. Lygar Snæbjörns hröpuðu síðan „sem hár af hundi þá hann er strokinn“ og Ormur taldi þörf á því að kasta steini í kjaftinn á lyginni svo hún gæti ekki gleypt sannindin. (bls. 289)
Eins og sjá má af þeim tilvitnunum sem hér hafa birst var Ormur ritfær maður með fjölbreyttan orðaforða en það kemur fyrir að honum virðist ekki hafa þótt hefðbundið orðalag nægja til þess að útmála það hversu óforskammaður lygari Snæbjörn væri. Því grípur hann einnig til líkingamáls þar sem hverju orði sem hrýtur af vörum og penna Snæbjörns er lýst sem ælu.
„Ég kalla Snæbjörn hafi átt skylt við apaköttinn, sem leikur það á eftir, er aðrir gjöra undan, nær hann spjó á pappír greindri cautions- og arrestsbeiðslu.“ „Óttaði mér og afsagði mitt dómaraverk með uppspúðri lygi og ósannindum.“ (bls. 290)
Málflutningur Snæbjörns er eitthvað sem hann „tyggur upp aftur“ (bls. 288) og „lygauppásögn“ Snæbjörns var „alla reiðu í hann runnin, hvaðan hún útflaut“. (bls. 285) Ormur hafði á sínu valdi mikið magn samheita yfir fyrirbærið ósannindi en þegar allt leggst á eitt vekja stílbrögð hans ekki eingöngu upp þau hughrif að orð Snæbjörns hafi verið gubb heldur beinlínis gubb sem hann þyrfti að éta ofan í sig aftur.
Réttarinnlegg Orms verða líklega ekki kölluð óhefluð en þau voru í vissum skilningi hömlulaus, enda kom það fyrir að hann var sektaður fyrir ummæli sín gegn Snæbirni fyrir dómstólum. Ormur skrifaði réttarinnlegg sín af sannfæringu þess sem finnst hann vera beittur svívirðilegum órétti, enda fannst Ormi hann ekki vera „óhultur meðan Snæbjörn dregur illskunnar anda við [s]ig um barkann.“ (bls. 293)
Alþingisdómurinn frá 1727 var svo lagður fyrir yfirréttinn sumarið 1728 ásamt héraðsþinginu að Mýrum í desember 1724 og fleiri skjölum málinu viðkomandi. Með útgáfu yfirréttarskjalanna gefst kjörið tækifæri til að sökkva sér ofan í málsskjölin og mynda sér skoðun á því hvort Snæbjörn hafi verðskuldað þessa útreið. Með heimild ágústmánaðar er birt dálítið sýnishorn af þeim skjölum sem hér um ræðir.
Höfundur kynningartexta: Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Heimildir