Fyrstu kröfur um skil á handritum og skjölum frá Danmörku til Íslands má rekja til ársins 1837 er Steingrímur Jónsson, biskup yfir Íslandi, óskaði eftir fá aftur skjöl úr skjalasafni biskups, eða afrit af þeim, sem Árni Magnússon hafði fengið að láni tveimur öldum fyrr. Þrátt fyrir beiðni biskups varð ekki af afhendingu skjalanna. Íslendingar héldu kröfu um að Danir skiluðu íslenskum skjölum, einkum skjölum sem Árni Magnússon hafði fengið að láni frá Íslandi, en ekki skilað aftur.
Samkvæmt sambandslagasamningnum 1918 var komið á fót dansk-íslenskri ráðgjafarnefnd sem fjallaði um kröfur Íslands og var samningur undirritaður 15. október 1927, ef afhending skjalanna fór fram árið 1928. Skjölin sem Danir afhentu Íslendingum þetta ár eru varðveitt í Þjóðskjalasafni. Þar kallast þessi afhending einfaldlega Danska sendingin 1928. Um var að ræða gagnkvæm skjalaskipti en dönsk stjórnvöld afhentu þó miklu meira magn af skjölum en íslensk stjórnvöld létu af hendi.
Skjölin sem afhent voru Þjóðskjalasafni Íslands árið 1928 voru úr Ríkisskjalasafni Danmerkur, Konungsbókhlöðunni, safni Árna Magnússonar og frá Hæstarétti Danmerkur. Þar er að finna margar grundvallarheimildir um sögu Íslands á fyrri öldum. Áætlað heildarmagn þessara skjala er um 120 hillumetrar. Skjölin voru send til Íslands í tvennu lagi, í janúar og júní 1928. Skjöl Íslensku stjórnardeildarinnar voru hins vegar afhent úr Þjóðskjalasafni til Danmerkur í júní 1928, en þar var um óverulegt magn var að ræða. Og það voru reyndar skjalabækur sem Ísland hafði fengið umyrðalaust frá Danmörku þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904, það er að segja fengu framkvæmdavald í eigin málum.
Í bæklingnum er nánar fjallað um dönsku sendinguna og sýnd dæmi um skjöl úr sendingunni.