
Nóvember 2025
Þann 11. júlí 1856 skrifaði Pétur Havsteen amtmaður til umboðsmanns Skriðuklausturs, Björns Skúlasonar, og fór fram á að umboðsmaðurinn leysti úr þrætu vegna svokallaðs þrætustykkis á milli jarðanna Glettinganess og Brúnavíkur. Meðfylgjandi voru tíu skjöl frá Benóní Guðlaugssyni, ábúanda á Glettinganesi og leiguliða Skriðuklausturs, þar á meðal mikilfenglegur uppdráttur af Glettinganesi og þrætustykkinu Hvalvík með ítarlegum skýringartexta þar sem hann rakti ásælni ábúandans á Brúnavík, Skúla Björnssonar. Í þéttskrifuðum útskýringum efst og neðst á uppdrættinum er skýrt frá afmörkun Benónís og mælingaraðferðum auk þess sem sagt er nánar frá þeim örnefnum sem finna má á uppdrættinum og þýðingu þeirra. Uppdrátturinn er vottaður af þremur mönnum, þeim Einari Einarssyni, Agli Árnasyni og Birni Björnssyni en Björn var fyrrverandi ábúandi á Brúnavík og þekkti því vel til staðhátta.
Í einu fylgiskjalanna, ódagsettu bréfi sem líklega er frá um 1855 og ritað af Benóní Guðlaugssyni, er óskað eftir því að börn bréfritara fái að vera á Glettinganesi með sömu kjörum og hann, hvort sem hann lifi eða deyi. Þá segir að þrætulandið þurfi að leggjast til Glettinganess því annars sé ólifandi þar. Þá segir að munur hafi verið þegar Björn Björnsson hafi verið í Brúnavík því þá hafi bréfritari mátt hafa þau afnot af Hvalvík sem hann gat haft. Áreið kvaðst bréfritari ekki hafa efni á en bætti við að hann teldi að umboðsmaður klausturjarða ætti að sjá til þess að ekkert gengi undan jörðunum sem þær kynnu að eiga.
Ennþá langar mig hjartanlega að biðja Amtmanninn að gjöra bón mína, sem er það að sjá til þess að börn mín fái að vera á nesi þessu hvort að ég heldur lifi eða dey, með sömu kjörum og ég hef haft, það sérdeilis hefði ég þeim þrætulandið lagst til nessins því það er fátt að segja, þar er ólifandi nema fyrir þá sem geta nokkru af sér hrundið á meðan Skúli er í Brúnavík, það var munur fyrir mig á meðan Björn Björnsson var í Brúnavík, þá mátti ég hafa þau afnot af Hvalavik er ég gat haft en nú er það ekkert ellegar þá með ráni. En nú er eitt atvik ef það kæmi fyrir að gerð væri áreið á þrætuland það er oft er nefnt af mér og kostnaður sá ætti að hlaupa upp á mig er fyrir því væri haft þá væri ég ekki maður til að borga hann og er þá líkast til að ég mætti þá vera frá að stuðla til áreiðarinnar ef það þyrfti að komast svo langt að áreið væri gerð, því klausturhaldari spurði mig að hvað ég vildi gefa til áreiðarinnar, en ég hélt að þar hann er umboðsmaður klausturjarðanna að hann mundi eiga að sjá fyrir að ekki gengi undan jörðunum það sem þær kynnu að eiga.
En hver var maðurinn á bak við uppdráttinn? Benóní Guðlaugsson fæddist í Fossgerði í Eiðaþinghá rétt norður af Egilsstöðum, að öllum líkindum árið 1802, og var af fátæku fólki kominn. Móðir hans Elín var Tómasdóttir og eru sumir sem telja að faðir hennar hafi verið þjóðsagnapersónan Galdra-Tómi Guðmundsson sem vikið var úr skóla fyrir kukl en aðrir segja Tómas Hallsson. Þær litlu heimildir sem til eru um fyrstu æviár Benónís eru einnig nokkuð þjóðsagnakenndar, talið er að hann hafi alist upp með móður sinni og var hún sögð hafa borið drenginn í poka og því hefði hann orðið krypplingur. Í Ættum Austfirðinga er Benóní sagður „holgóma, sérvitur og einkennilegur, allvel greindur“. Þá er hann sagður hafa verið hugvitsmaður, dulfróður og eitthvað kukllærður. Í samtímaheimildum frá fullorðinsárum hans er Benóní jafnan sagður fátækur eða öreigi. Það er sýnilegt af þeim bréfum sem eftir hann liggja að hann hefur verið vel skrifandi og upplýstur þó hann hafi ekki hlotið neina formlega menntun. Benóní átti fyrst Ólöfu Magnúsdóttur og byggðu þau í Hvalvík sem hafði þá legið í eyði frá því í upphafi 18. aldar. Þau munu hafa flutt þangað árið 1831 og var Ólöf þá vanfær af tvíburum. Magnús Guðmundsson frá Kjólsvík, barna-barnabarn þeirra skýrði frá því að þau hafi flutt þangað áður en byggt var og gert sér bráðabirgðaskýli í graslaut sem þau tjölduðu yfir með bátssegli og notuðu mastur til að halda seglinu uppi. Í þessu afdrepi ól hún tvíbura, 25. júní, dreng og stúlku. Drengurinn, sem fékk nafnið Jóhann Magnús, lifði einungis í 5 daga en stúlkan, sem skírð var því sérstæða nafni Brandþrúður (sú eina sem skírð hefur verið þessu nafni), átti eftir að eiga langa og merkilega ævi en það er önnur saga. Vorið 1841, eftir 10 ár eða svo í Hvalvík, flutti fjölskyldan frá Hvalvík á Glettinganes og hefur Hvalvík legið í eyði síðan þá. Þau hjónin eignuðust tvö börn til viðbótar, Magnús og Magnús (yngri). Árið 1849 dó Ólöf kona Benónís úr taksótt og tekur hann síðar saman við bústýru sína Guðrúnu Sigurðardóttur og eignast með henni tvo syni, þá Sigurlaug og Jóhann sem báðir komust til aldurs. Í prestþjónustubók má sjá að Benóní og Guðrún hafa ætlað sér að giftast árið 1856 en þó eru engir svaramenn skráðir. Svæðið sem Benóní og fjölskylda hans bjó á er hluti af svokölluðum Víkum á milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar og er þar stórbrotið landslag. Byggð í Víkunum lagðist af um miðja 20. öld. Glettinganes er láglent lítið nes milli Kjólsvíkur og Hvalvíkur norðan fjallsins Glettings og var þar á árum áður afskekktasti bærinn í Borgarfjarðarhreppi. Útræði var mikið frá nesinu fyrrum, því skammt er þaðan til gjöfulla fiskimiða. Norðan til á nesinu er nokkuð góð lending, þótt brimasamt sé. Eftir 10 ára búsetu fjölskyldunnar á Glettinganesi verður breyting á í nágrannabænum Brúnavík og er þar sestur að bóndinn Skúli Björnsson með fjölskyldu sína. Hvenær landaþrætan milli Benónís og Skúla hófst er ekki ljóst en fjórum árum síðar, árið 1855, er þrætan um landið á milli Glettinganess og Brúnavíkur líkast til í hámarki. Ágreiningurinn stóð um landamerki og ljóst að Skúli seilist lengra en fyrri ábúendur í Brúnavík. Hans hlið og sjónarhorn í þessari deilu hefur hins vegar ekki varðveist. Þrætan hefur að öllum líkindum snúist um afnot af beitarlandi og mögulega reka en Glettinganes er lítið og óhentugt til beitar. Þau skjöl sem eru varðveitt í skjalasafni Skriðuklaustursumboðs, uppdrættirnir og vitnisburðirnir sem á eftir koma, benda til þess að mikið hafi verið í húfi fyrir Benóní og fjölskyldu hans sem sáu ekki fram á að geta haldið áfram búsetu á Glettinganesi án afnota af þrætulandinu.
Höfundur: Kjartan Jakobsson Richter
Heimildir
ÞÍ. Klausturumboð, Skriðuklaustur VI, 2, Landamerkjaskjöl 1841-1860.
ÞÍ. Desjarmýri í Borgarfirði - prestakall 0000 BA/4-1: Prestþjónustubók 1850-1906.
ÞÍ. Desjarmýri í Borgarfirði - prestakall 0000 BC/2-1: Sóknarmannatal 1828-1838.
ÞÍ. Desjarmýri í Borgarfirði - prestakall 0000 BC/3-1: Sóknarmannatal 1839-1848.
ÞÍ. Desjarmýri í Borgarfirði - prestakall 0000 BC/4-1: Sóknarmannatal 1849-1858.
Ármann Halldórsson,Mávabrík. (Egilsstaðir: Snotra, 1992)
Einar Jónsson, Ættir Austfirðinga, IV-VIII. bindi. (Reykjavík: Austfirðingafélagið í Reykjavík, 1953-1968.)
„Austlenzkur hugvitsmaður“, Tíminn Sunnudagsblað 32. tlb. 16.08.1964, bls. 752.