Ágúst 2024
Fréttaritari ber af sér sakir
Nú stendur yfir endurskráning á skjalasafni Ríkisútvarpsins, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands. Í framhaldinu verður unnið að skönnun á hluta þess og birtingu á vef safnsins. Í skjalasafni Ríkisútvarpsins kennir ýmissa grasa, eins og gefur að skilja, enda hlutverk útvarpsins frá upphafi afar viðamikið. Í safninu má meðal annars finna handrit af þeim fréttum sem útvarpið flutti frá upphafi. Stjórnendum útvarpsins var mikið í mun að tryggja að fréttir bærust frá öllum landshornum hratt og örugglega og að þær væru hlutlægar frásagnir af atburðum. Oft koma það þó fyrir að fréttaflutningur útvarpsins var gagnrýndur, einkum ef um var að ræða viðkvæm pólitísk mál.
Útvarpið kom sér upp neti fréttaritara um landið og greiddi þeim dálitla þóknun fyrir að sinna fréttamennsku á sínu svæði í trausti þess að þeir sendu skeyti til útvarpsins fljótt og örugglega, því útvarpið var í samkeppni við blöðin en hafði oft ákveðið forskot á þau þar sem fréttatímar voru reglulega á dagskrá í útvarpinu meðan blöðin voru bundin sínum útgáfutíma. Í október 1933 sendi fréttastofan bréf til allra fréttaritara þar sem áréttað var mikilvægi þess að þeir fylgdust vel með og þeir „símuðu“ eða sendu skeyti til fréttastofu hvenær sem ástæða væri til þó kostnaði yrði að halda í hófi. En fréttamenn útvarpsins sendu einnig nótur á einstaka fréttaritara. Þannig vakti það athygli Ásgeirs Magnússonar fréttamanns árið 1934 að fréttaritarinn í Dalasýslu hefði verið fremur seinn til að segja frá kirkjuvígslu í Dagverðarnesi, nánar tiltekið hefði frétt borist um vígsluna mánuði eftir að hún átti sér stað og því sendi hann skeyti til fréttaritarans Hallgríms Jónssonar í Ljárskógum svohljóðandi: „Merkisfrétt um kirkjuvígslu kom mánuði of seint. Notið síma. Fréttastofan Ásgeir Magnússon“
Svar Hallgríms í Ljárskógum er á margan hátt lýsandi fyrir aðstæður fréttaritaranna sem oft áttu óhægt um vik. Bréf hans til Ásgeirs frá 10. nóvember 1934 fer hér á eftir:
Fréttamaður útvarps
Hr. Ásgeir Magnússon Reykjavík
Seint í sumar fékk jeg símskeyti frá yður með áminningu um það, að frjett um kirkjuvígslu í Dagverðarnesi hefði komið mánuði of seint til útvarpsins. Sú áminning var rjettmæt, þó jeg telji að jeg, sem fréttaritari hjer í Dölunum, eigi litla sök á því. Skýrist það á þessa leið:
Í fyrsta lagi. Mjer var ókunnugt um, þegar vígslan fór fram, fyr en löngu síðar. Í öðru lagi. Þó að mjer hefði verið kunnugt um það, var staðurinn svo fjarri símstöð (nál. 20 km.) að erfitt hefði orðið að afla frjetta á þann hátt, - og loks í þriðja lagi. Þó að mjer hefði verið kunnugt um vígsluna og jeg hefði viljað vera þar viðstattur, tel jeg að það hefði verið mjer ókleift sökum fjarlægðar, - fullkomin dagleið hvora leiðina og þess, að þetta var um há-annatímann, en hann veitir ekki sveitafólki mikið svigrúm til frátafa, - að því slepptu að árskaup mitt sem frjettaritara (kr. 30.00) gefur ekki tilefni til neinna ferðalaga í fréttaöflunarskyni.
Jeg viðurkenni að fullu þörfina á því, að frjettir berist sem fljótast, þó að ýmsar aðstæður gæti valdið því, að leiðinlegar tafir geta komið fyrir. Jeg hefði því sennilega engar frjettir sent um þessa kirkjuvígslu, ef mjer hefði ekki virst frjettirnar í sambandi við hana sjerstaklega merkilegar, er jeg loksins náði þeim.
Annars skal jeg viðurkenna það, að eitthvað af frjettum, sem tilheyra mínum verkahring munu algjörlega hafa fallið niður hjá mjer sökum strjálla samgangna innan hjeraðsins, og þó sjerstaklega vegna símaleysis í stórum hluta sýslunnar. – Sem dæmi má nefna það að fyrstu fréttina um húsbruna á Skarðsströnd í Skarðshreppi fjekk jeg í gegnum útvarpið – og fannst mjer það hálf óviðkunnanlegt. Væntanlega þarf slíkt ekki að koma fyrir oftar því símasamband hefur lagast mjög mikið hjer í sýslu á síðast liðnu sumri.
Jeg hefi ef til vill verið óþarflega fjölorður um þetta, en það stafar af því að jeg vil að spilin sjeu lögð hrein á borðið frá minni hendi í þessu sambandi, og þó jeg viðurkenni rjettmæti áminningarinnar, var hún þó, - ekki síst fyrir þá sök að hún var send símleiðis – hálfleiðinleg fyrir mig sem frjettaritara.
Að lokum vil jeg geta þess að hvort sem mjer verður falið þetta frjettaritarastarf lengur eða skemur, mun jeg reyna að koma sönnum frásögnum um helstu nýjungar hjeðan úr sýslunni svo fljótt sem allar aðstæður leyfa.
Með virðingu
Yðar einl.
Ljárskógum 10. nóv. 1934
Hallgrímur Jónsson
Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta