
Desember 2025
Hallærisárin 1696–1702 voru Íslendingum mjög erfið enda var þá samfelldur harðindakafli með frosthörkum, hafískomum, grasleysi, búfjárdauða og aflabresti sem leiddi til mikils mannfalls. Ástandið varð til þess að stjórnvöld í Kaupmannahöfn sendu Árna Magnússon handritasafnara í rannsóknarleiðangur til Íslands til þess að komast að því hvað væri hægt að gera landinu til bjargar. Afrakstur þeirrar vinnu var meðal annars manntal, jarðabók og kvikfjártal sem innihalda gríðarlegar upplýsingar um ástand landsins í byrjun 18. aldar.
Mælifellsannáll er samtímannáll og er fyrri hluti hans, sem spannar tímabilið 1678–1702, saminn af séra Ara Guðmundssyni (1632–1707) á Mælifelli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann lýsti ástandinu árið 1701 með eftirfarandi hætti:
Vorið kalt og þurt og vindasamt með gróðurleysi allt fram á Jónsmessu [24. júní]. Föstudag síðasta í vetri [15. apríl] hljóp á forráðsveður með frosti og snjó af norðri; fórust 3 hundruð fjár í Húnavatnsþingi, en úti urðu alls millum bæja 17 manneskjur í ýmsum stöðum; urðu 3 menn úti, er að fé stóðu. Þá dó og margt fólk úr megurð, bæði í Húnavatns-, Hegraness- og Vöðlusýslum.
Í heimild mánaðarins að þessu sinni verður sagt frá ungum dreng sem dó úr kulda á leið sinni á milli bæja í Blöndudal í árslok 1701. Þann 23. júní 1702, á héraðsþingi í Bólstaðarhlíð, kallaði Sigurður Einarsson, lögsagnari Lauritz Gottrups sýslumanns í Húnavatnssýslu, saman hreppstjóra Bólstaðarhlíðarhrepps til að rannsaka andlátið.
Björn Jónsson, fæddur á bilinu 1688–1689, mun líkast til hafa misst foreldra sína í umræddum harðindakafla og hafði engan til að ala önn fyrir sér. Hann var ófermdur ómagi á framfæri Bólstaðarhlíðarhrepps í Húnaþingi, samanber: „… er hér á Hlíðarhrepp um nokkur ár til umferðar verið hafði …“ Það er að segja framfærsluskylda Björns féll á fæðingarhrepp hans. Hann var hins vegar nógu vel á sig kominn til að ganga á milli bæja og þiggja fæði og húsnæði hjá bændum í hreppnum. Björn var 12 eða 13 ára gamall og að vitsmunum og burðum sagður í skárra lagi og sömuleiðs að klæðaburði. Hann var einn á ferð um Svartárdal um jólaleytið árið 1701 á leið sinni á milli bæja. Þann 22. desember kom hann að Steiná og var hýstur þar um nóttina af Pétri Sæmundssyni. Á Þorláksmessu fór Björn yfir hálsinn í Blöndudal og ætlaði að Bollastöðum þar sem Jón Jónsson bjó árið 1703. Hér mun væntanlega átt við Steinárháls en vegur lá suður hálsinn á milli Svartárdals og Blöndudals sem bar heitið Skínandi. Björn komst hins vegar aldrei þangað því hann breytti stefnu sinni og fór fram hálsinn á leið til Rugludals.
Í Rugludal bjó Salómon Sigurðsson (40 ára) og kona hans Ólöf Brandsdóttir (28 ára) sem í manntalinu 1703 áttu þrjá unga syni; Brand (7 ára), Halldór (4 ára) og Gísla (2 ára). Þá var hjá þeim Þórunn Jónsdóttir vinnukona (37 ára) og Vigdís Brandsdóttir vinnustúlka (17 ára). Hún var líkast til systir húsfreyju og þær væntanlega dætur Brands Eiríkssonar í Kóngsgarði sem var fremsti bærinn í Svartárdal. Rugludalur var fremsti bærinn í Blöndudal og hafði orðið fyrir skakkaföllum árið 1697 þegar hann varð fyrir skriðufalli. Í Fitjaannál segir: „Í Blöndudal á bæ þeim, er heitir Ugludalur [Rugludalur] hljóp á bæinn skriða; þar létust tvær konur, en barn eitt var 3 dægur í skriðunni og náðist lifandi.“ Óvíst er hvort Salómon hafi búið á jörðinni á þessum tíma en líkast til hafa þeir sem bjuggu þar þegar skriðan féll flutt burt eftir slíkar hamfarir.
Á aðfangadag 1701 reið Ólöf Brandsdóttir húsfreyja í Rugludal til kirkju og varð Björn þá á vegi hennar. Í jarðabókinni segir um Rugludal: „Kirkjuvegur lángur og mjög hættusamur á vetur yfir harðfenni og búnkasvell, sem leggur í bratta fjallshlíð sem fólkið á yfir að reisa.“ Sóknarkirkjan sem um ræðir var Blöndudalshólar í Blöndudal en séra Gísli Bjarnason (um 1644–1712/1713) var prestur þar frá 1689 til dauðadags. Björn kom á móti Ólöfu fótgangandi og heilsaði húsfreyju glaðlega. Hún hitti hann á „réttri leið er lá til hennar heimilis“ og sá ekki á honum nein merki þess að hann hefði ekki átt að geta komist heim í Rugludal samdægurs. Hún sagði að Björn hafði sagt sér að hann hafði legið úti þá um nóttina fyrir ofan Selland. Ólöf sagðist ekki hafa lagt trúnað á frásögn Björns vegna þess hvernig hann kom henni fyrir sjónir, það er hann mun væntanlega ekki hafa litið út fyrir að hafa legið úti næturlangt um hávetur. Hún sagði honum að halda heim í Rugludal og hélt áfram för sinni til messu. Björn skilaði sér hins vegar ekki í Rugludal þá um kvöldið. Ekki er ljóst hvort leit hafi verið gerð að honum þá eða síðar þegar í ljós kom að hann var ekki að finna á næstu bæjum. Í rannsókn hreppstjóranna á hvarfi Björns Jónssonar segir að um leið og það „rómaðist“ að hann vantaði hafi verið gerð víðtæk leit að honum. Bæði Pétur Sæmundsson á Steiná og hans menn og Salómon og Ólöf í Rugludal leituðu Björns. Hann fannst loks örendur skammt frá Rugludalsbænum en hann hafði komið nokkuð norðar að bænum en Ólöf hafði riðið og sagt honum að fara. Björn var færður til kirkju af Salómon og nágrönnum hans og jarðaður af sóknarpresti með þeim umbúnaði sem þeir höfðu gefið af góðum vilja sínum.
Það er athyglisvert að Björn skyldi víkja af réttri boðleið um hreppinn og fara frá Steiná í Svartárdal og yfir í Blöndudal og sleppa þar með fjölda bæja í Svartárdal. Hann hefur ef til vill vitað hvar best væri að vera um jólin og sett stefnuna þangað. Björn komst hins vegar ekki á leiðarenda en fannst skammt frá bænum og hefur sjálfsagt fundið ilminn af jólamatnum stíga upp úr eldstæðinu í Rugludal áður en hann fraus í hel.
Höfundur: Gísli Baldur Róbertsson.
Heimildir:
ÞÍ. Varia III, örk 1. Um hvarf Björns Jónssonar nálægt Rugludal í Húnavatnssýslu, 23. júní 1702.
Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 546–547, 595–596 (bein tilvitnun) (Mælifellsannáll).
Annálar 1400–1800 II. Reykjavík 1927–1932, bls. 327 (Fitjananáll).
Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948, bls. 15.
Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949, bls. 42–43.
Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 216.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 8. Kaupmannahöfn 1926, bls. 353.
Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 269.
Pálmi Hannesson, „Frá óbyggðum“, Réttur. Tímarit um þjóðfjelags- og menningarmál. XIII:1 (1928), bls. 52–88, sjá bls. 71.
Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, „Samfélag í uppnámi. Harðindin um 1700 og áhrif þeirra.“ Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi. Reykjavík 2024, bls. 71–102.