Maí 2025
Þriðjudaginn 8. maí voru mikil hátíðarhöld um alla Evrópu þegar íbúar álfunnar fögnuðu því að hildarleik seinni heimstyrjaldar væri lokið. Skilyrðislaus uppgjöf Þjóðverja hafði verið undirrituð aðfaranótt 7. maí og síðdegis rauf breska ríkisútvarpið útsendingu sína, færði lýðnum fréttirnar og að hátíðarhöld og almennur frídagur yrði daginn eftir, þegar uppgjöf Þjóðverja tæki formlega gildi.
Íslendingar létu sitt ekki eftir liggja og var tímamótanna minnst með hátíðardagskrá víða um land. Í Reykjavík gengust ríkisstjórnin og borgarstjórinn í Reykjavíkur fyrir sameiginlegri dagskrá sem hófst kl. 14. Í síðdegisfréttum ríkisútvarpsins var eftirfarandi frétt lesin:
Í dag er Reykjavík fánum skreytt og sömu fregnir berast hvaðanæva af landinu. – Eftir klukkan eitt fóru menn að safnast saman við Austurvöll og þegar kl. var tvö, var þéttskipað umhverfis völlinn. Skip á höfninni blésu í eimpípur í rúma klukkustund.
Forseta Íslands var fagnað með lófataki, er hann kom fram á svalir Alþingishússins, og þá er hann hafði lokið ræðu sinni. Sömuleiðis forsætisráðherra, er tilkynnti að ræðu sinni lokinni að nú kæmu fram á svalirnar sendiherrar Bandaríkjanna, Bretlands, Danmerkur, Frakklands, Noregs og Rússlands. Forsætisráðherra bað mannfjöldann að hrópa ferfalt húrra fyrir þeim og þjóðum þeirra og var það gert. Því næst lék Lúðrasveit Reykjavíkur “Ó guð vors lands”, en skátar, sem gengið höfðu fylktu liði fyrir svalir Alþingishússins með fánasveit í fararbroddi, heilsuðu með fánakveðju.
Því næst hófst guðsþjónusta í Dómkirkjunni, og er henni nýlega lokið. Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurgeir Sigurðsson, prédikaði.
Samtímaheimildum ber saman um að mannfjöldinn sem tók þátt í hátíðarhöldunum í höfuðborginni hafi skipt þúsundum. Þegar líða tók á kvöldið fór að bera á ölvun og árekstrar urðu á milli Íslendinga og breskra sjóliða og flugliða, sem fengið höfðu bæjarleyfi. Óspektirnar stigmögnuðust eftir því sem leið á kvöldið og að lokum þurfti íslenska lögreglan og breska herlögreglan að grípa til þess ráðs að beita táragasi til að ná tökum á aðstæðum. Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi frá sér fréttatilkynningu sem birt var í fjölmiðlum fimmtudaginn 10. maí þar sem gerð var grein fyrir atburðarásinni að kvöldi þriðjudagsins 8. maí og viðbragða yfirvalda. Þar kemur fram að síðdegis hefðu hópar breskra sjóliða gengið um bæinn með söng og háreisti og brátt hefði safnast að þeim mikill hópur manna, aðallega drengja og unglinga, sem slegist hefðu í för með Bretunum. Ókyrrð komst á mannfjöldann við þessar aðstæður en framan af tókst lögreglunni að afstýra óspektum og alvarlegum árekstrum. Um kl. 21 hófust ryskingar á milli hermanna og Íslendinga og skömmu síðar grjótkast þar sem hóparnir höfðu staðnæmst við Varðarhúsið við Kalkofnsveg. Íslensku og bresku lögreglunni tókst að aðskilja hópana en grjótkastið hélt áfram og lögreglan beitti kylfum í viðureigninni. Mannfjöldinn dreifðist nokkuð við þetta um miðbæinn en óspektirnar héldu áfram og um kl. 23 var gripið til þess ráðs að beita táragasi til að ná stjórn á aðstæðum. Að sögn lögreglustjóra linnti óspektum með öllu á tiltölulega skömmum tíma við þetta. Engin alvarleg slys urðu á fólki sem verður að teljast mildi, því bæði var hart gengið fram af hálfu óeirðaseggja og yfirvalda, og það sem alvarlegra var, skotvopnum var beitt í tveimur tilvikum af hálfu breskra hermanna. Á hinn bóginn voru eignaspjöll mikil, aðallega rúðubrot.
Í skjalasafni Sakadóms Reykjavíkur sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands er að finna skýrslur rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík sem tengjast óspektunum og óeirðunum að kvöldi þriðjudagsins 8. maí 1945. Skýrslurnar varpa áhugaverðu og skarpara ljósi á atburðina og sérstaklega bera þær skýran vott um það gríðarlega eignatjón sem varð í miðbæ Reykjavíkur. Verður nú sjónum beint að vitnisburði þessara frumheimilda, sem lítt eða ekkert hafa verið kannaðar til þessa.
Í kjölfar óeirðanna 8. maí barst rannsóknarlögreglu fjöldi tilkynninga um eignatjón og skemmdarverk í miðbæ Reykjavíkur, þar af voru á níunda tug um rúðubrot og aðrar skemmdir á fasteignum og á annan tug um rúðubrot og skemmdir á bifreiðum. Sem dæmi má nefna að föstudaginn 11. maí var tilkynnt um að stór rúða í verslun að Laugavegi 21 hefði verið brotin að kveldi 8. maí. Í skýrslunni segir að um kl. 22 hefði stór fylking drukkinna breskra sjóliða og flugmanna komið niður Laugaveg með alls konar ólátum, farið niður á Arnarhólstún og stuttu síðar inn Laugaveg aftur, með sömu ólátum. Í framhaldinu segir: „Ég fór heim til mín aftur um kl. 22:30 sá ég þá að búið var að brjóta umrædda rúðu og einnig í mörgum húsum öðrum. Rétt neðan við húsið mitt á Laugavegi var búið að velta um bifreið.“
Sami hópur virðist hafa verið að verki þegar tvær rúður voru brotnar í verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Laugavegi 34, um kl. 22:30 en vitni sá þegar sú síðari var brotin „og var grjótinu kastað af mönnum sem voru í flokki brezkra sjóliða og flugliðsmanna, sem gengu með hávaða og ólátum eftir götunni.“ Í tveimur tilvikun lentu verslunareigendur í því að táragashylkjum hafði verið kastað í rúður svo þær brotnuðu. Hafði það í för með sér viðbótarónæði eins og annar verslunareigandinn benti á í skýrslu sinni: „og er ég kom á staðinn um kl. 09:00 morguninn eftir [þ.e. miðvikudaginn 9. maí] var búðin öll full af táragasi svo, að ekkert var hægt að vinna þar allan þann dag.“
Engar fasteignir urðu þó eins illa fyrir barðinu á óeirðaseggjunum og Varðarhúsið við Kalkofnsveg. Þar voru hvorki meira né minna en 82 rúður brotnar og í skýrslu fulltrúa Sjóklæðagerðar Íslands hf., sem var með starfsemi sína í húsinu segir: „Sjóliðarnir köstuðu grjóti og flöskum í glugga hússins og má heita að allar rúður í húsinu hafi verið brotnar á þennan hátt áður en lauk. Að þessum aðförum er fjöldi af bæjarbúum vitni.“
Lögregluþjónar sem voru á vakt um kvöldið gáfu einnig skýrslur og í einni þeirra er því lýst þegar tveir lögregluþjónar sem voru á varðgöngu við höfnina urðu varir við mikinn mannsöfnuð á norðanverðu Arnarhólstúni og allt niður að Varðarhúsi. Lögregluþjónarnir fóru að athuga hvað um væri að vera og sáu þá að „íslenzkt fólk var þarna saman komið til að horfa á nokkra breska sjóliða sem voru sumir mikið ölvaðir en aðrir lítið eða óölvaðir, að leika sér að því að kasta grjóti í rúðurnar í Varðarhúsinu.“ Lögregluþjónninn gaf sig þá á tal við breska kollega sem voru á staðnum og hófst þá nokkur reikistefna um hvort það væri á forræði breskra eða íslenskra lögreglumanna að skakka í leikinn. Skömmu síðar veitti lögregluþjónninn því athygli að nokkrir drengir úr mannfjöldanum svöruðu bresku sjóliðunum með grjót- og kolakasti og um tíma ringdi „grjóti og kolum frá beggja hálfu og í einni hríðinni sá ég að einn breskur lögregluþjónn sem var á gangi skammt frá mannfjöldanum fékk grjót frá sjóliðunum og féll hann og var borinn á burt af íslenzkum og breskum lögregluþjónum.“ Því er ekki lýst nánar í skýrslunni hvernig lögreglan náði stjórn á aðstæðum en í lok hennar upplýsir lögregluþjónninn um að síðar um nóttina hafi hann ásamt fleiri lögregluþjónum verið í lögreglubifreið við höfnina þegar tveir sjóliðar hafi miðað skotvopnum sínum að bifreiðinni.
Eins og kom fram í fréttatilkynningu lögreglustjóra tengdust alvarlegustu atvik kvöldsins meðferð skotvopna. Í öðru tilvikinu varð bifreiðastjóri fyrir því, er hann ók vestur Skúlagötu skömmu eftir miðnætti, aðfaranótt 9. maí, að tveir sjóliðar hlupu í veg fyrir bifreiðina. Var annar vopnaður riffli en hinn barefli. Ökumaðurinn náði að víkja bifreiðinni undan höggi hins síðarnefnda en í sömu andrá mundaði hinn riffilinn og hleypti af skoti sem hæfði vinstra framhjólið: „Ég ók á brott svo hratt sem ég gat til að forða mér frá árásar mönnum [svo] þessum og eyðilagðist hjólbarðinn og slangan í honum alveg, en öðrum skaða varð ég ekki fyrir.“
Hitt tilvikið átti sér stað fyrr um kvöldið, eða um kl. 21:30. Nokkrir piltar voru þá á gangi í Faxagötu þegar þrír breskir sjóliðar hófu skothríð á þá. Að sögn hleyptu sjóliðarnir af 10-20 skotum og piltarnir áttu fótum sínum fjör að launa. Leituðu þeir skjóls í vita sem var þarna á hafnargarðinum. Í skýrslunni kemur fram að sjóliðarnir hafi elt piltana út á miðjan Ingólfsgarð og „gerðu hvorttveggja að skjóta á okkur og kasta á eftir okkur grjóti.“ Piltarnir biðu í um tíu mínútur í vitanum og þegar þeir fóru til baka aftur var einu skoti hleypt af í átt að þeim. Ekkert skotanna hæfði piltana en litlu mátti muna því einn þeirra fékk skot í gegnum buxnaskálm sína.
Út frá vitnisburði lögregluskýrslnanna er hægt að draga upp fyllri og skarpari mynd af því sem átti sér stað kvöldið 8. maí 1945 en hingað til hefur verið kunnugt og birt var á síðum dagblaðanna á sínum tíma. Eftir því sem næst verður komist var þetta í fyrsta skipti sem íslensk lögregluyfirvöld beittu táragasi og markar kvöldið því ákveðin tímamót. Þó að táragasinu hefði verið beint gegn óeirðaseggjunum fór almenningur sem í sakleysi sínu fagnaði friðnum ekki varhluta af áhrifum þess. Sjónarvottur sem Morgunblaðið ræddi við lýsti því hvernig mannfjöldinn tvístraðist og fílefldir karlmenn þutu, hágrátandi með vasaklúta á lofti, innan um kvenfólk og unglinga, inn í hliðargötur sem lausar voru við svæluna. Í glettni fullyrðir hann að jafn „almennur grátur hefir sennilega aldrei fyrr verið hjer í höfuðstaðnum.“ Að sönnu er það kaldhæðni örlaganna að fagnaðarlæti hins langþráða friðar í Evrópu hafi lokið með þvílíkum ólátum.
Skjölin sem hér hefur verið stuðst við, og aðrar frumheimildir um hernámsárin á Íslandi, eru aðgengileg almenningi í Þjóðskjalasafni Íslands og hægt að kynna sér þau á lestrarsal safnsins.
Höfundur texta er Benedikt Eyþórsson.
Heimildir:
ÞÍ. Ríkisútvarpið 2000 FA/75-1. Innlendar fréttir útvarps apríl, maí 1945.
ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur 1993 FA4/24. Mál nr. 61-120.
ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur 1993 FA4/25. Mál nr. 121-180.
Vefsíður
https://www.iwm.org.uk/history/what-you-need-to-know-about-ve-day