Þjóðskjalasafn Íslands. Steinklefaskjöl. XI. Minnis- og reikningabók Guðbrands biskups. Frumrit á pappír, Bps. B. VIII, 2.
Herra Gudbrandur Hoola Bloom med Hende sinne
Þessa hefur Skruddu skrada
Skal henne Eldur sydast räda
Anno 1762
Anno 1585
Sydan eru nu 177 (är).
Minnis- og reikningabók Guðbrands biskups Þorlákssonar (1541-1627) er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Um pappírsfrumrit er að ræða, sem að stærstum hluta er í fjórðungsbroti (4to). Fyrstu 24 blöð minnisbókarinnar eru seðlar og pappírsrenningar í minna broti en þegar þeim sleppir er bókin 142 blöð í fjórðungsbroti í einni samfellu (bls. 13-296). Framan af sér nokkuð til skemmda á blöðum minnisbókarinnar því tímans tönn hefur nagað af spássíum og jöðrum fremstu blaðanna. Af þeim 168 blöðum sem minnisbókin grípur yfir eru um 130 blöð í ágætu ástandi. Minnisbókin er rituð alfarið með hendi Guðbrands sjálfs, eftir því sem best verður séð. Guðbrandur varð biskup að Hólum árið 1571 og hélt því embætti til æviloka.
Páll Eggert Ólason (1883-1949), sem undirritaður leyfir sér að kalla helsta Guðbrandssérfræðing fyrr og síðar, skrifaði meðal annars eftirfarandi um Guðbrand: „Hann var manna bezt að sér og hafði fjöbreyttar gáfur, t.d. hneigður til stærð- og stjarnfræði og landmælinga, manna listfengastur í höndum á skurð og smíðar. Hann hefir verið einn merkastur byskupa í lútherskum sið, og festi siðskiptin í landinu; eru ritstörf hans og þýðingar geysimiklar [...] Hann var manna stjórnsamastur og skörungur í öllum greinum.“
Minnisbók Guðbrands grípur yfir árabilið 1584-1594. Hún er rækileg heimild um ýmis umsvif og starfsemi Guðbrands á því árabili sem fyrr getur. Margir þættir er lúta að rekstri biskupstólsins sjálfs á Hólum eru fyrirferðarmiklir í minnisbókinni. Mætti þar helst nefna minnisatriði um leigumála jarða og kúgildafjöldi þeirra. Eins kemur ýmislegt fyrir sem tengist prentverki Guðbrands og biblíuútgáfu hans.
Minnisbók Guðbrands á sér hliðstæður frá svipuðum tíma, svo sem í sambærilegum minnisbókum Odds Skálholtsbiskups Einarssonar að ógleymdri Reikningsbók Magnúsar prúða Jónssonar frá árinu 1590 (sjá nánar í heimildaskrá).
Á árunum 1919-1942 gaf Hið íslenska bókmenntafélag sjálfa Bréfabók Guðbrands biskups út á prenti í áföngum. Nú hyggst Þjóðskjalasafn Íslands gefa Minnis- og reikningabók Guðbrands biskups út á prenti á þessu ári. Ólafur Ásgeirsson, sagnfræðingur og fyrrverandi þjóðskjalavörður (1984-2012), skrifaði texta minnisbókarinnar upp í tengslum við rannsóknir sínar, er hann var við nám í Háskóla Íslands. Að námi loknu endurbætti Ólafur uppskrift sína í tómstundum. Á seinni árum hafa Jón Torfason og Björk Ingimundardóttir, skjalaverðir í Þjóðskjalasafni Íslands, lesið yfir prófarkir, og Bjarni Þórðarson verið innan handar með frágang og uppsetningu textans. Undirritaður hefur svo lesið uppskriftina saman við frumritið enn á ný og leggur nú lokahönd á þá vinnu.
Við skulum nú kveðja Guðbrand biskup í bili með niðurlagsorðum Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal um Guðbrand í biskupasögum þess síðarnefnda. Þar segir: „Anno 1627 gekk fyrir norðan þung landfarsótt og burttók margan mann. Hún þjakaði svo að h[erra] Guðbrandi, að hann andaðist dag 20. Julii á föstudag um nónbil. Var jarðaður d[ag] 25. Julii. Sinn legstein hafði hann látið tilbúa löngu áður. Þá hafði hann lifað 85 ár, eins lengi og Augustus ríkti í Róm, og svo sem enginn keisari hefur þar ríkt lengur eður svo lengi, eins hefur enginn biskup hér í landi verið svo lengi sem h[erra] Guðbrandur.“
Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta.
Heimildir
Óprentaðar heimildir
Prentaðar heimildir