Eitt af því sem við getum lært af því að skoða eldri skjöl er það hvernig tungutak breytist sem og viðhorf til hinna ýmsu samfélagshópa. Sérstaklega á þetta við um hópa fólks sem eru utangarðs eða samsvara sér ekki innan þess sem kallast hið venjulega.
Um miðja síðustu öld hafði Samband íslenskra sveitarfélaga áhyggjur af ákveðnum hópi fólks sem var utangarðs og var kallað „vandræðafólk“. Jónas Guðmundsson var eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna 1939-1953, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og ritstjóri Sveitarstjórnarmála, þannig að hann var kunnugur málefnum sveitarfélaga. Hann ritaði greinina „Vinnuhæli fyrir vandræðamenn.“, í 1. hefti Sveitarstjórnarmála, árið 1941 og komst svo að orði:
Hver sá, sem að nokkru ráði kemur nálægt fátækra- og sveitarstjórnarmálum, hvort heldur er í sveit eða kaupstað, hefur tæplega gegnt því starfi lengi þar til hann rekst á sérstaka tegund framfærsluþurfa, sem á máli sveitarstjórnarmanna er nefnt „vandræðafólk“. Orðið lætur að vísu ekki vel í eyrum, en vandfundið mun betra orð yfir fólk þetta, því að „vandráðið“ er fram úr fyrir því og „vandráðið“ mun að jafnaði fyrir það. Verður því við það orð notazt hér. Ýmsir hafa að vísu viljað hafa í þess stað „fávita“, en það er sízt betra orð né meira réttnefni
Fór hann svo yfir það hvernig fólk sem fellur milli skips og bryggju í löggjöf um fræðslu og heilbrigði þjóðarinnar og að ekki sé vitað hvernig eigi að sjá um það. Höfundur velti því þá fyrir sér hvort ekki væri hægt að stofna vinnuhæli fyrir „vandræðafólkið“ sem öll 217 sveitarfélögin myndu bera kostnað af.
Sex árum síðar eða árið 1947 var „vandræðafólk“ enn í huga Sambands sveitarfélaga og var þá ákveðið að safna saman skýrslum um þetta fólk til að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra og hvar á landinu það væri að finna. Bréf og skýrsluform voru send til sveitarfélaga í mars árið 1947 en í lok ágúst höfðu einungis tvö þeirra svarað bréfinu; Hafnarfjörður og Seyðisfjörður. Þetta fór í taugarnar á Jónasi sem skrifaði lítinn greinarmola í 1. hefti Sveitarstjórnarmála árið 1947 þar sem vinnubrögð sveitarstjórnarmanna voru gagnrýnd harðlega. Tekið var sérstaklega fram í upphaflega bréfinu að svara væri vænst jafnvel þó að ekkert vandræðafólk væri að finna í sveitarfélaginu. Jónas reit svo í greinarmolann:
Af þessu mega menn glögglega sjá, hvílík afgreiðsla yfirleitt er á málefnum sveitarfélaganna. Einfaldar og óbrotnar skýrslur, sem fáar klukkustundir tekur að afgreiða, og í mörgum tilfellum nægja aðeins fáar línur í bréfi, eru ekki afgreiddar mánuðum saman og týnast svo og gleymast. Slík vinnubrögð eiga og verða að hætta. Þau eru ekki samboðin sveitarstjórnarmönnum.
Heimild mánaðarins að þessu seinni er ítrekun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því árið 1947 þar sem eindregið er óskað eftir því að listað verði upp svokallað „vandræðafólk“ í Hafnarhreppi. Einnig bréf Eggerts Ólafssonar oddvita Hafnarhrepps er bregst við málaleitaninni. Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga er dagsett 2. desember 1947 og í bréfabók Hafnarhrepps frá árunum 1946-1951 er bókað svar Eggerts til sambandsins strax daginn eftir þann 3. desember. Svarið er ekki langt en það er skýrt og les:
Vegna bréfs yðar 2 des ´47. þar sem gerð er fyrirspurn um svokallað „vandræðafólk“ á vegum sveitarstjórnarinnar hér sendi ég hér með eftirfarandi uppl. Að „vandræðafólk“ á vegum sveitarstjórnarinnar her er ekkert á árinu 1947.
Undir bréfið ritar Eggert Ólafsson og stílar á Samband íslenskra sveitarfélaga. Ári síðar var þess getið í Sveitarstjórnarmálum að svör hafi ekki enn borist þannig að ekki hafi verið hægt að gera tillögur að því hvernig best væri að taka á málaflokknum: „vandræðafólk“.
Höfundur kynningartexta: Árni Jóhannsson
Heimildir